01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Gísli Jónsson:

Ég er dálítið undrandi yfir þessum fyrirvara, sem þessir tveir þm. hafa gefið, og ég sé ekki á þessu stigi, hvað unnið er með því, ef t.d. meiri hl. d. skyldi stöðva frv. af þessum ástæðum. Í fyrsta lagi er engin trygging fyrir því, að sjóðurinn fengi þessa upphæð, þó að ráðh. lýsti þessu yfir, að taka þetta á fjárlfrv., það þarf að sjálfsögðu meiri hl. alþm., þegar þar að kemur, við afgreiðslu fjárl. til þess að tryggja það, þó að þetta væri tekið í frv.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að það var einróma ósk ríkisstj., að 750 þús. kr. væru settar í Rif á Snæfellsnesi á síðasta ári, en hv. 6. landsk. var með því að lækka þá upphæð í 500 þús. kr., sem sýnir, að ekki er trygging fyrir því, að sjóðurinn fái þetta, þó að það væri tekið upp í fjárlfrv.

Svo er önnur hlið á þessu máli, og hún er sú, að það hefur verið tekið úr sjóðnum í gegnum ákvæði l. með því að gefa út brbl., en aðeins úr síldveiðideild, og þetta fé hefur verið lagt til þeirra manna, sem hafa stundað síldveiðar, og þannig aukið til þeirra framlag eða styrkur fram yfir það, sem hinn hlutinn, þorskveiðideildin, átti í sjóðnum, — þeir hafa ekki fengið neitt úr sjóðnum móts við þá, sem stunduðu síldveiðar. Þeir hafa m.ö.o. orðið að komast af með sína veiði, án þess að fá styrk. Þess vegna er það sýnilegt, að ef tekin er inn á fjárlfrv. næsta ár og samþ. þessi upphæð hér, 21/2 millj. kr., sem endurgreiðsla úr ríkissjóði inn í þennan sjóð, þá verður það ekki ágreiningslaust, að það fari ekki eitthvert fé í hina deildina. Svo að málið er ekki eins auðvelt og þessir tveir hv. þm. hafa látið í skína hér. Því að það er sýnilegt, að þá er verið að mismuna þessum útvegsmönnum, annars vegar þeim, sem stunda síldveiðar, og hins vegar þeim, sem eingöngu stunda þorskveiðar. Þetta hefur ekki gengið í þorskveiðideildina, þótt hægt sé að sanna, að þeir menn hafa engu síður þurft á þessu að halda, svoleiðís að ég segi það strax, að ég gæti ekki verið með því, að þetta fé færi allt úr ríkissjóði í þessa deild, án þess að eitthvað færi til hinnar deildarinnar. Ég held a.m.k., að þeir, sem standa að ríkisstj., ættu að geta látið sér nægja við afgreiðslu þessa máls það, sem hv. frsm. undirstrikaði, að í trausti þess, að það verði athugað, á hvern hátt væri hægt að ná aftur þessari greiðslu í sjóðinn, þá geti verið ýmsar leiðir til þess.

Það var í Nd. borin fram á þskj. 445 brtt. við frv., þar sem gerðar eru sérstakar till. um að láta endurgreiða í sjóðinn frá þjóðinni allri. Það átti að leggja á 1% útflutningsgjald af öllum útfluttum síldarafurðum, 1/2% útflutningsgjald af útfluttum sjávarafurðum öðrum en síldarafurðum, svo og þeim, sem koma frá botnvörpuskipum, hvalveiðum og selveiðum, og framlag ríkissjóðs á móti 1. og 2. lið. Þetta voru till., sem öfluðu sjóðnum tekna, en þetta fékkst ekki samþ. í d., en ég hygg, að hæstv. sjútvmrh. hafi lýst því yfir við afgreiðslu málsins, að hann mundi beita sér fyrir því, að uppfylltar væru þær óskir, sem fram koma á þskj. 732, þ.e. að láta athuga gaumgæfilega, hvort hægt er að mæta sanngjarnlega þessum greiðslum á næsta ári. Því er ég nokkuð undrandi yfir afstöðu þessara 2 þm., því að ef málið er fellt hér í d., þá er málinu ekki borgið og það allt sett í öngþveiti, og það hygg ég, að þm. vilji ekki vera með í að gera.