01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er lítið, sem ég vil segja, en ég vildi aðeins bæta litlu við það, sem hv. þm. Barð. tók fram. Ég vil einmitt láta sömu undrun í ljós og hann yfir afstöðu þessara 2 meðnm. minna, vegna þess að eftir því, sem ég skil hæstv. ráðh., þá finnst mér, að þess megi vænta, að till. komi fram um að bæta sjóðnum það, sem hann varð að láta af mörkum í þessu skyni, því að honum fórust orð á þá leið, að hann teldi rétt og mundi vinna að því eftir því, sem mögulegt væri. Mér virðist ekki vera hægt að skilja orð hans öðruvísi, því að hann taldi þetta æskilegt og mundu verða gerðar ráðstafanir til þess, ef hægt væri. Hins vegar tók hann það fram, að hann vildi ekki binda sig ákveðnum loforðum.

En svo er annað, sem ég vildi benda á. Ég veit ekki, hvernig þessir 2 þm. hugsa sér, að farið verði með þetta mál, ef þetta frv. yrði fellt. Við erum hér í d. í dag nýbúnir að samþ. annað mál, sem er þessu ákaflega skylt, og ef ég man rétt, þá er í 3. gr. þess frv. svo ákveðið, að það, sem ríkissjóður kann að greiða vegna ábyrgða til síldarútvegsmanna, skuli honum endurgreitt af síldveiðideild hlutatryggingasjóðs. Það má búast við, eftir því sem Nd. afgr. þetta mál til okkar, að frv., sem við vorum að senda Nd., verði samþ., og þá er það eitt l. um þetta, sem í rauninni má skoða sem svipaða heimild eins og þá, sem hér er farið fram á, en hin l. eru felld. Ég held, eins og hv. þm. Barð. sagði, að málið kæmist þá í undarlegt öngþveiti og væri bágt að segja, hvaða heimildir væru þá fyrir hendi, því að það er tvímælalaust samkv. því frv., sem við vorum að samþ. til Nd. áðan, heimilt að taka féð og endurgreiða ríkissjóði ábyrgðirnar úr síldveiðideild hlutatryggingasjóðs. Eftir mundi þá standa að vísu í l. hlutatryggingasjóðs, að ekki mætti skerða stofnfé hans, en þegar ekki er fé í sjóðnum neitt að ráði fram yfir stofnféð, þá er óskiljanlegt, hvar ætti að taka féð til þess að fullnægja hinum lögunum. Annars vona ég, að það komi ekki til þess, og ég vona, að meiri hl. d. sjái sér fært, í samræmi við það, sem d. er nú þegar búin að gera á þessum fundi, að samþ. þetta frv.