01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Gísli Jónsson:

Hv. þm. Vestm. sagði, að það þyngdist undir fæti fyrir þessu máli, úr því form. fjvn. væri því andvígur. Ég vil í fyrsta lagi segja það, að það er ekkert víst, hver verður form. fjvn., þegar þetta mál verður til umr. á næsta þingi. En ég vildi leyfa mér að gera grein fyrir því, hvernig þetta mál er, og vildi ég, að það gæti orðið til þess að skýra málið fyrir hv. þm. Vestm.

Málið liggur þannig fyrir, að búið er að taka út 21/4 milljón til þeirra manna, sem áttu þennan stofnsjóð, af því að þeir urðu fyrir svo stórum áföllum fyrir veiðibrest, að það þótti alveg nauðsynlegt að ráðstafa fénu þannig, þrátt fyrir skýr ákvæði laganna. Á sama tíma hefur ekkert verið tekið úr hinum hluta sjóðsins, sem einnig hefur fengið stór áföll, jafnvel ekki minni, en þeir fengu ekkert fé og enga aðstoð frá ríkinu og urðu að taka sín áföll bótalaust. Þetta veit hv. þm. Ef því ríkissjóður einn á að taka að sér að veita þetta fé, þá er það veitt til þeirra aðila, sem áttu í sínum sjóði 21/4 milljón fram yfir það, sem átti að ganga til hinna, en það er ranglátt. Það kemur því til greina, komi framúrskarandi síldveiði á þessu ári, að hækka framlagið af síldarafurðum í síldveiðisjóð til þess að endurgreiða þannig einhvern hluta af þessu fé.

Ég veit, að nú er verð á lýsi hækkandi. Það hefur stigið úr 115 £ tonnið í 165–185 £, og er því ekki lítil von bundin við ágóða af síldveiðum, ef meðalverð á lýsi yrði 165—185 £ tn., og þá standa vonir til þess, að þeir menn, sem eiga þennan sjóð, verði betur settir en hinir, sem aldrei fengu neitt úr þorskveiðasjóði. Þetta ber að taka til athugunar, og þess vegna er fram komin ósk hv. fjhn. um, að tekið verði til athugunar, hvernig endurgreiðslum skuli háttað. Þessir menn eru ekki að styrkja neina aðra með því, heldur eru þeir að byggja upp sinn eigin sjóð. — Þetta er eitt atriði. Svo er annað. Hvernig færi nú, ef frv. yrði fellt, ef svo margir sætu hjá, að það fengi ekki nægan stuðning? Hvað skeður þá? Það er þegar búið að framkvæma lögin, og í 1. gr. þeirra segir: „Þó er sjóðsstj. heimilt á árinu 1950 að skerða stofnfé síldveiðideildarinnar, að fengnu samþykki ráðherra.“ — Samkv. þessu er ekki heimilt að skerða stofnféð á neinu öðru tímabili en árinu 1950, og ég hef upplýsingar fyrir því, að enda þótt frv. yrði fellt, þá stæði þetta. Ég get ekki skilið annað en að ábyrgðin til endurgreiðslu hvíli á ríkissjóði.

Þegar nú er búið að samþ. frv., þá skulu skv. því 67% af tekjum hlutatryggingasjóðs fara til þess að endurgreiða þetta 21/4 millj. kr. lán, og allan þann tíma er því ekki hægt að byggja upp sjóðinn, og ekki stendur sjóðurinn sig við það, ef illa fer um aflabrögðin. Það er því fjarstæða að gera að skilyrði, eins og nú standa sakir, nokkra bindingu um að efla sjóðinn. Hitt er svo annað atriði, að það þarf að efla sjóðinn, en það verður að gerast eftir öðrum leiðum. Ég vil efla sjóðinn, og ég var einn af þeim, sem börðust fyrir því, þegar lögin um hlutatryggingasjóð voru sett, að aldrei mætti skerða stofnfé hans, og þykir mjög verr farið, að það hefur verið gert. En hitt er verra, að hér er farið inn á hættulega braut, sem aldrei er hægt að vita, hvenær tekur enda, því að maður veit ekki, hvenær bankarnir krefjast þess næst, að fé sé tekið af stofnfé sjóðsins, og þetta er kannske það versta í málinu, því að það er mjög hættulegt, þegar farið er inn á þá braut að skerða stofnfé sjóðsins, án þess að ríkissjóður bæti það aftur á fjárlögum.