08.02.1951
Neðri deild: 65. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Pétur Ottesen:

Já, ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við gagnrýni hv. frsm. fjhn., þm. V-Húnv., út af því, — að ríkissjóður hefði orðið að hlaupa undir bagga og inna af hendi fyrir Andakilsárvirkjunina nokkrar greiðslur í sambandi við þær ábyrgðir, sem ríkissjóður hefur tekið á sig fyrir þetta fyrirtæki. Fjmrh. hefur nú þegar að miklu leyti tekið af mér ómakið að gefa skýringu í sambandi við þetta, og ég get því skírskotað til þess, sem hann sagði. Ég vil aðeins til viðbótar við það bæta því við, að orsökin til þessa liggur í því, að ekki hefur verið hægt að fá markað fyrir nema tiltölulega litinn hluta af því mikla rafmagni, sem framleitt er á þessum stað. Fyrst eftir að þessi virkjun hóf starfsemi sína, voru það eingöngu Akranes og Borgarnes, ásamt Hvanneyri, sem fengu rafmagn frá þessari virkjun, og þá var þannig ástatt á þessum stöðum, að ekki var hægt að hagnýta nema tiltölulega lítinn hluta aflsins, því að það vantaði þau tæki, sem nota þurfti. Þá er einnig þess að geta, að á Akranesi eru þrjú hraðfrystihús og fiskimjölsverksmiðja, og það liðu 2–3 ár, áður en hægt væri að skipta um rekstrarafl í þessum stóru fyrirtækjum, þannig að nota mætti rafmagn í stað olíu, þar sem ekki fengust fyrr innflutningsleyfi fyrir stórum rafmagnsmótorum, en hjá einu þessara frystihúsa mátti þó sýna fram á, að verð mótora, sem þurfti að kaupa handa því, nam ekki meiru en olíuverðinu til orkurekstrar þeirra véla, sem þar voru fyrir, árlangt. En þetta er ein orsökin til þess, að ekki hefur verið hægt að nota nema svona lítið af aflinu. Síðan hefur nú úr þessu rætzt nokkuð, auk þess sem hafin hefur verið lagning á linum úti um héraðið, og hefur það vitanlega orðið til þess að bæta aðstöðu þessa fyrirtækis, en þó er ekki lengra komið en svo, að enn er ekki notað nema tæplega 60% af því rafmagni, sem framleitt er í stöðinni. En samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. gaf hér, standa sakir þó þannig hjá fyrirtækinu, að á þessu ári eru ekki neinar líkur til þess, að grípa þurfi til þeirra ráðstafana, að ríkið greiði áfram af láninu fyrir fyrirtækið, og líkur eru til, að á næsta ári verði hægt að byrja að endurgreiða ríkinu það fé, sem það hefur þegar orðið að inna af hendi fyrir þetta fyrirtæki, svoleiðis að fyllstu vonir standa til þess, að ríkið verði ekki þarna fyrir neinum halla í sambandi við ábyrgðina, heldur muni ekki liða langur tími, þar til þetta fyrirtæki geti greitt ríkinu aftur það fé, sem það hefur þegar orðið að leggja út fyrir það. Og þetta stendur þannig af sér, að ríkisstj. hefur það nokkuð í hendi sinni, að fyrirtækið geti komið þessu í kring á tiltölulega skömmum tíma, með því að stuðla að því, að það fé, sem lagt er til lagningar raflína og dreifingar rafmagns, verði aukið á þessum stað, því að það er vitanlega sá ráðh., sem þau mál heyra undir í ríkisstj., sem staðfestir eða samþykkir þær till., sem raforkuráð ber fram í hverju tilfelli, svoleiðis að ríkisstj. hefur þetta nokkuð í hendi sinni, hvað það tekur langan tíma fyrir Andakílsárvirkjunina að inna að fullu af hendi greiðslu á þeirri skuld, sem þar er komin við ríkið. Og ég vildi mjög vænta þess, að það þyrfti ekki að taka langan tíma að ljúka þessum greiðslum.

Ég vildi aðeins gefa þessar upplýsingar í sam. bandi við þennan sérstaka lið. Hins vegar má fullkomlega taka undir það, bæði með frsm. og fjmrh., að það þarf náttúrlega að gæta fullrar varúðar í sambandi við ábyrgðir af hálfu ríkisins, og það, sem hér hefur skeð í því efni, gefur náttúrlega meðal annars fullkomlega aðvörun um það.