08.02.1951
Neðri deild: 65. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það hafa orðið nokkrar umræður, eins og raunar við mátti búast, út af því, sem ég sagði fyrr við umr., þar sem ég minntist á þær greiðslur, sem ríkissjóður hefur á undanförnum árum orðið að inna af höndum vegna ábyrgða. Mér þótti ástæða til að vekja athygli á þessu í sambandi við afgreiðslu ríkisreikningsins, ekki sízt fyrir það, að þess er ekki getið í aths. yfirskoðunarmannanna að þessu sinni. En eins og þessi reikningur ber með sér, þá hafa þessar greiðslur í árslok 1948 numið samtals um það bil 11,25 millj. kr. og voru komnar einu ári síðar í rúmlega 15 millj. kr., og er hér vitanlega um alvarlegt mál að ræða. Það hefur komið fram hér í ræðu hæstv. fjmrh., að rn. hefur gert ráðstafanir út af þessu máli og gert sér far um að fylgjast með þessu og afstýra tjóni fyrir ríkissjóð, eftir því sem unnt er, og tel ég ástæðu til að fagna því, að þar sé verið á verði í þessum efnum, eftir því sem hægt er, því að eins og hæstv. ráðh. gat um, er þess mikil þörf, meðal annars vegna þess, að svo getur farið, að vanskilamennirnir verði fleiri eftir því, sem tímar líða, ef ekki verður gert allt, sem unnt er, til þess að komast hjá greiðslum úr ríkissjóði vegna ábyrgða, en ábyrgðirnar í heild eru mjög miklar, og þarf því mjög vakandi eftirlit með þessu máli. Rn. þarf að vera mjög vel á verði um það að greiða ekki út upphæðir vegna ábyrgða, nema óhjákvæmilegt sé og eftir að hafa athugað það mál til hlítar, að viðkomandi skuldunautar séu ekki færir um að inna greiðslurnar af höndum á þeim tíma, þegar greiðslurnar eiga að fara fram, og einnig í öðru lagi að gera það, sem unnt er, til þess að tryggja endurgreiðslu á því fé, sem ríkissjóður verður að inna af höndum á vissum tíma vegna ábyrgða. Ég fagna því, að komið hefur fram í ræðu hæstv. ráðh. vilji fyrir því að koma þessu máli í viðunandi horf, til þess að afstýra þarna tapi fyrir ríkissjóð vegna ábyrgða, eftir því sem frekast er unnt. Og það var einmitt það, sem fyrir mér vakti með því að hreyfa þessu máli, að vekja menn til umhugsunar um það, hversu alvarlegt það væri, ef færu hækkandi greiðslur úr ríkissjóði vegna ábyrgða.