20.02.1951
Efri deild: 75. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv. og borið það saman við ríkisreikninginn 1948. Eru allar tölur úr ríkisreikningnum rétt teknar upp í frv. og því ekkert við frv. að athuga í því efni. Enn fremur hefur nefndin kynnt sér aths. endurskoðenda við reikninginn sem og svör ráðh. og till. yfirskoðunarmanna, og óskar n. eftir nánari upplýsingum frá ráðh. um þær aths. endurskoðenda, sem þeir telja 6„til eftirbreytni“ eða „athugunar framvegis“. Ég sé ekki ástæðu til þess hér að rekja aths. endurskoðenda nákvæmlega, því að menn hafa fyrir sér ríkisreikninginn 1948 og geta lesið þar og kynnt sér athugasemdirnar, svör ráðh. og till. yfirskoðunarmanna. Ég skal þó aðeins drepa á, hvað það er, sem n. óskar sérstaklega nánari upplýsinga um. Það er þá fyrst í sambandi við 2. aths. endurskoðenda, sem er um það, að allmikið fé var óinnheimt af tekjum ríkissjóðs. Um þetta segja yfirskoðunarmenn: „Þess er að vænta, að alúð verði lögð við innheimtuna, og er aths. því til athugunar framvegis.“ Nú er það spurning n.: Hvað hefur verið gert af hálfu stj. til að bæta horfur í sambandi við innheimtu á tekjum ríkisins?

4. aths. endurskoðenda er viðvíkjandi útvarpinu, þar sem bent er á það, að það hafi notað allmiklu meira fé en gert var ráð fyrir á fjárlögum sama árs. Um þetta segja yfirskoðunarmenn sem ályktun: „Yfirskoðunarmenn telja, að stofnunum ríkisins beri að fara eftir fjárlögum til hins ýtrasta, og er athugasemdin til eftirbreytni framvegis.“ Nefndin óskar enn fremur upplýsinga um það, hvað lagazt hefur í þessu efni. — 5. aths. endurskoðenda er svo varðandi stjórnarráðið, en þar hafa umframgreiðslur numið um 1/2 millj. króna, eða 564.847,89 kr. Um þetta segja endurskoðendur: „Yfirskoðunarmenn telja, að ráðuneytinu beri að fara eftir ákvæðum fjárlaga, svo sem kostur er, og er aths. til eftirbreytni.“ Það er sama spurningin af hálfu nefndarinnar um þetta atriði og ég hef áður getið. Þá gerðu yfirskoðunarmenn aths. út af utanríkismálum, en til þeirra var veitt nokkru meira fé en áætlað hafði verið í fjárlögum, eða kr. 1.436.073,21 fram úr áætlun. Þeir segja svipað um þetta atriði og hin fyrri: „Þess er að vænta, að fyllsta hóf verði haft á greiðslum í þessu skyni, og er aths. til athugunar framvegis.“ — Sama er að segja um dómgæzlu og lögreglustjórn, að þar hafa umframgreiðslur numið um 11/2 millj. króna og hafa yfirskoðunarmenn svipuð ummæli um þau. Sama er að segja um 8. og 9. aths., sem er um ýmiss konar opinbert eftirlit. Greiðslur umfram fjárlögin hafa og verið þar miklar, og telja yfirskoðunarmenn, að það beri að halda sig við ákvæði fjárl. eins og framast er unnt, og er því aths. til eftirbreytni. — Út af 11. aths., sem er varðandi strandferðirnar, þá er þess óskað, að komið verði á heppilegra fyrirkomulagi á starfseminni, og er því aths. til athugunar framvegis. Þess er enn fremur vænzt, að upplýsingar fáist hér um það, hvað hefur verið unnið í þá átt, að lagfæring geti orðið í þessum efnum. Þá er það í sambandi við kennslumál, en þar hafa umframgreiðslur numið á árinu yfir 2 millj. króna. Yfirskoðunarmenn telja þessar auknu greiðslur athyglisverðar, og er aths. til athugunar framvegis. Ég geri ráð fyrir, að hér megi einkum um kenna, að greiðslur til þessara mála hafi ekki verið nægilega áætlaðar í fjárlögum, því að þessar greiðslur fara eftir lögum, og það er ekki gott að komast hjá að framfylgja þeim. — 14. aths. yfirskoðunarmanna er um nefndakostnað ríkisins. Þessar nefndir, sem oft hafa verið skipaðar til ýmiss konar hluta, hafa löngum verið mikill ásteytingarsteinn manna, og einkum hefur það verið mikið áhugamál þeirra, sem eru að byrja þátttöku sína í stjórnmálum, að slátra þessum nefndum. Og vitanlega er það eðlilegt, að óskað sé eftir því, að sem fæstar nefndir séu á launum, þótt auðvitað verði að hlíta því, er Alþingi ákveður svo um, að nefnd skuli sett til þessara og þessara starfa. Um þetta atriði segja yfirskoðunarmenn: „Yfirskoðunarmenn viðurkenna, að ekki sé með öllu unnt að komast hjá nefndaskipunum, en telja, að gæta beri meira hófs um greiðslur fyrir slík störf, og er aths. til athugunar framvegis.“ Þess er nú jafnframt óskað, að fá upplýsingar um það, hvað úr þessu svo kallaða nefndafargani hefur dregið. — Þá er 15. aths. endurskoðenda um það, að of mikið hafi verið gert að því að veita styrki til utanfara. Slíkt er auðvitað alltaf álitamál, en í gjaldeyrisvandræðum ber að sjálfsögðu að hafa alla gát í því efni. — Þá kvarta endurskoðendur yfir því í 16. aths., að reikningur fyrir áætlunarferðirnar til Hafnarfjarðar hafi ekki legið fyrir og telja það til athugunar við ríkisreikninginn 1949, og mundi þá verða nógur tími til að ræða það, er sá reikningur liggur fyrir Alþingi. — Þá er 17. aths. út af landhelgissjóði og bókfærslu landhelgissjóðs og ríkissjóðs, sem ber ekki saman. Um þetta segja yfirskoðunarmenn: „Rétt virðist, að ráðstafanir verði gerðar til breytingar á bókfærslufyrirkomulaginu. Er málið til athugunar framvegis.“ Mætti þá um það spyrja, hvort bókfærslufyrirkomulagi landhelgissjóðs hafi verið breytt til samræmingar við bókfærslufyrirkomulag ríkissjóðs.

Ég hef nú aðeins drepið á það, sem nefndin óskar eftir að fá skýringu á, um leið og ríkisreikningurinn er afgr. Þess ber þó að gæta, að yfirskoðunarmenn hafa ekki vísað neinum af sínum aths. til aðgerða Alþingis, og því hefur fjhn. ekki séð neina ástæðu til að gera nokkrar till. út af þessum aths., en leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þess skal þó getið, að hv. 1. landsk. var ekki viðstaddur, er málið var afgr. af nefndinni, og er því ekkert vitað um afstöðu hans til þess.

Það er óneitanlegt, að Alþ. hefur ekki undanfarið tekið ríkisreikninginn og yfirleitt reikningsskil hæstv. ríkisstj. þeim tökum, sem mundi sennilega rétt vera. Yfirskoðunarmenn hafa t.d. oft vísað mörgum aths. til aðgerða Alþ., en það hefur engan árangur borið. Ég get í fljótu bragði ekki séð, hver ætti að hafa frumkvæðið að því, að Alþ. gerði ráðstafanir út af slíkum málum. Umframgreiðslur, sem ekki hafa sérstaka heimild á bak við sig í fjárlögum, eru venjulega settar á fjáraukalög, og ef ástæður eru til þess, að gerðar verði ráðstafanir út af reikningsskilum ríkisstj., þá virðist mér í raun og veru, að þær ráðstafanir ætti að gera í sambandi við afgreiðslu fjáraukalaganna, því að samþykkt á ríkisreikningnum er ekkert annað en staðfesting á þeim tölum, sem í honum eru, að þær séu réttar. En ef sú aðferð er ekki viðhöfð að gera ráðstafanir í sambandi við fjáraukalögin, þá sýnist mér, að það standi engum nær að bera fram till. um þetta efni en þeim yfirskoðunarmönnum, sem eiga sæti hér á Alþ., en það hafa þeir aldrei gert mér vitanlega. En á þetta þyrfti að komast betri skipan, og það verður að vera vitað, hverjum ber skylda til að ganga fram í þessum málum. Ég nefni þetta nú vegna afgreiðslu Alþ. á ríkisreikningi og fjáraukalögum í mörg ár og frá upphafi vega, en ekki vegna þess, að ríkisreikningurinn 1948 gefi sérstakt tilefni til að ræða um þessa hluti, því að eins og ég sagði áðan, hafa yfirskoðunarmenn ekki vísað neinu úr honum til aðgerða Alþ. Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en vænti svara frá hæstv. fjmrh., þótt hann kunni að standa illa að vígi að svara fyrir ríkisreikning þessa árs, þar sem hann var ekki fjmrh. þá. En Alþ. hefur ekki til annars að snúa sér í þessu efni.