20.02.1951
Efri deild: 75. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ástæðurnar fyrir því, að fjhn. þessarar deildar hefur óskað eftir umræðum um ríkisreikningana, eru tvær, — annars vegar af löngun til að fá bót á þessu fyrirkomulagi. Ef þetta á að haldast, er það sýnilegt, að eftir ár er þetta allt þýðingarlaust. Þá er þýðingarlaust að hafa nokkra fjvn. Það er sýnilegt, að fyrir árið 1948 eru greiðslur á annað hundrað millj. kr. fram hjá fjárlögum, alveg án heimilda.

Frá mínu sjónarmiði er of mikið starf lagt í afgreiðslu fjárlaga á hverju ári. Það sitja 9 menn minnst 2–3 tíma á dag vikum saman og reyna að komast að samkomulagi, svo þegar búið er að koma fjárlögunum í gegnum Alþingi með mesta erfiði, virðast dyr vera opnar fyrir ríkisstj. til að nota fé takmarkalaust. Þetta á að athuga síðar meir, sumpart við afgreiðslu aukafjárlaga og sumpart í sambandi við ríkisreikninginn. En það þykir hótfyndni að vera að fást um þetta. Nú eru aðrir menn komnir að völdum og þá víst hinir úr ábyrgð, og þá á bara að samþykkja þetta möglunarlaust. Það er hægt að hafa þá aðferð að vísa málinu til aðgerða Alþingis, en það er bara þýðingarlaust. Það finnur enginn hjá sér hvöt til að gera neitt í þessu. Nú má segja, að hver einstakur þm. hafi rétt til að taka málið upp og bera fram breytingar á einstökum atriðum. En þetta er ekki mál einstakra þm., heldur mál allrar ríkisstj. Er þetta ekki sagt sem nein ásökun á ríkisstj. Þetta hefur verið í mörg ár svo, og er alls ekki sæmandi að láta þetta ganga svona lengur. Það hlýtur að veikja afstöðu og tilraunir fjvn. og fjárhagsráðs til að semja skynsamleg fjárlög, ef þetta á að festa rætur. Meðal annars er reynt að sjá um, að fjárlög séu ekki afgr. á annan hátt en að fengin sé full jöfnun á gróða og þau séu talin viturleg. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvaða trygging er frá Alþingi fyrir því, að ekki verði farið langt út fyrir þennan ramma. Er nokkur trygging fyrir því, að ekki komi stórfelldar greiðslur? Svo er aldrei gert neitt í þessu, því að viðkomandi menn eru á bak og burt og aðrir komnir í þeirra stað. Ef þessu fyrirkomulagi verður ekki breytt, er allt þetta til einskis. Vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann vildi beita sér fyrir því, að hér verði hafður á annar háttur.

Þetta er önnur ástæðan fyrir því, að fjvn. óskaði umræðna. Hin er sú, að svör ráðuneytanna eru alveg út í bláinn og varla sæmandi fyrir þau að láta slík svör fara frá sér. Þetta hefur verið rætt í n., og var ég að hugsa um að setja þetta á sérstakt nál., en gerði það ekki, því að ég gat alveg eins látið aths. koma hér fram. Hv. frsm fór lítið út í þetta og ekki í að ræða athugasemdirnar, auk þess sem hann gekk fram hjá einu atriði.

Ætla ég þá fyrst að fara inn á aths. Þar gera endurskoðendur aths. við kostnað við rekstur útvarpsins. Hvernig svarar svo ráðuneytið? Þessu er svarað þannig, að útvarpsstjóri svarar. Nú vill svo til, að núv. fjmrh. fór þá með útvarpsmálin. Hvers vegna er útvarpsstjóri látinn svara? Hvers vegna ekki ráðuneytið? Það er ráðuneytið, sem á að bera ábyrgðina. Það er óviðeigandi og óhæft, að forstjóri fyrirtækisins, sem endurskoðendur eru að gagnrýna, sé látinn svara án aths. frá ráðuneytinu, að láta undirmann ráðuneytisins svara því, sem ráðun. ber ábyrgð á. Það er ekki að furða, þó að haldið sé áfram í þessu sukki, þegar þessir aðilar hafa ekkert aðhald úr ráðuneytinu. Mér er kunnugt um frá fjvn., að við höfum þann sið að kalla þessa menn til okkar, ræða við þá. óska eftir samvinnu og reyna að lækka gjöldin. Ég veit, að við erum taldir gagnrýnendur af þeim. En jafnskjótt sem þeir eru komnir út fyrir dyrnar í fjvn., finnst þeim þeir vera komnir í skjól ráðuneytisins og geta haldið sukkinu áfram. — Þetta sýnir sig bezt, ef við athugum svörin. Í nr. 5 er aths. við kostnað stjórnarráðs. Er bent á, að eytt hafi verið fram yfir fjárlög nærri 565 þús. kr. Hvert er svar ráðun. við þessu? Svar ráðun. er, að þetta gefi ekki tilefni til svars. Ég verð að segja, að ef notuð er meira en 1/2 millj. kr. umfram fjárlög og sagt, að það gefi ekki tilefni til svars, er ekki von, að hægt sé að laga þetta mál. Hver einasti starfsmaður sér, að í þessu svari er lögð blessun ráðun. yfir allt sukkið, sem - ég segi ekki að þurfi að vera, — en kann að vera þar. Þá er ekki von, að spyrnt sé við fótum. Ég er ekki með ásökun um, að hægt sé að komast af með minni greiðslur, en ráðun. gerir ekki tilraun til að athuga það. Það ættu að koma fram skýringar eins og frá hæstv. dómsmrh. við aths. nr. 6. En slíkar skýringar er ekki komið með, heldur leggja ráðun. blæju blessunarinnar yfir eyðslu fyrirtækisins og kalla þannig fram áframhaldandi eyðslu. Frsm. gerði aths. við nr. 6. Verð ég að segja, að svör hæstv. dómsmrh. skýrðu, hvers vegna kostnaður hefði farið fram úr áætlun, en svörin við nr. 5 er ekki hægt að taka gild.

Þá ætla ég að snúa mér að nr. 7, en það er aths. við dómgæzlu og lögreglustjórn. Hæstv. dómsmrh. hefur gefið skýringu á þessu, en í landsreikningnum kemur fram, að þetta gefi ekki tilefni til svars, en hæstv. dómsmrh. skýrði frá því, af hverju umframgreiðslan stafaði. En ef þetta svar, að aths. gefi ekki tilefni til svars, hefði farið til endurskoðenda, hefðu þeir eflaust tekið það til greina, svo vaða þeir í sömu villu eftir sem áður, þar sem ekki er gefið upp, hvers vegna greiðslur fara fram úr áætlun. Nú hefur það verið upplýst af hæstv. dómsmrh., að þetta stafi af sukki og eyðslu hjá strandferðaskipunum. Væri ekki hægt að gera ráðstafanir til að athuga, hvort koma á athugun á rekstri strandferðaskipanna og strandgæzlunnar og reka á annan hátt? Þetta er ekki sagt sem ádeila á neina stofnun, heldur væri það heppilegt fyrir alla aðila. Mér skilst, að þessi athugun hafi verið stöðvuð, og furða ég mig ekki á því, þar sem þetta gefur ekki tilefni til svars, eftir því sem stendur við athugasemdina.

Í nr. 9 er talað um, að fjárhagsráð hafi farið um 11/2 millj. kr. fram úr áætlun. Hverju er þessu svarað? Með nokkrum línum frá fjárhagsráði sjálfu, en ekki frá ríkisstj. Það væri gaman að fletta upp og sjá, hvað endurskoðendurnir segja. Jú, þeir segja, að þetta sé ágætt til eftirbreytni framvegis. Þessi virðulega og ástkæra stofnun, sem þjóðin hefur elskað frá byrjun og elskar sjálfsagt enn! En þetta er alvarlegt mál og ekki til að hlæja að. Þetta eru fjármál þjóðarinnar, fjöregg þjóðarinnar. Það hefur aldrei verið hugsað, að ríkissjóður bæri einnar krónu kostnað af þessari stofnun. Mig undrar — og ég trúi ekki fyrr en ég tek á, — að gjöldin séu 31/2 millj., en tekjur 2 millj. Það hefur ávallt verið ætlað, að stofnunin standi sjálf undir sér, og hefur hún ekki heimild til að taka krónu úr ríkissjóði. Nú hefur hún tekið 11/2 millj. kr. og ríkisstj. virðir endurskoðendur ekki svars. Er stofnuninni gefið ákveðið vald til að svara út í hött í þessu máli?

Þá kem ég hér að 12. aths., sem er um fjárveitingu til kirkjumála. Þar hefur verið varið kr. 4.129.552,30, sem er 855.002,30 kr. umfram það, sem veitt var til þessara mála á fjárlögum. Hverju svarar svo hæstv. ríkisstjórn þessu? „Gefur ekki tilefni til svars.“ Gefur ekki tilefni til svars! Ég hygg, að þessi hæstv. ráðh. hafi þá farið með þessi mál. Ég veit ekki, hvort hann hefur samið svarið, en hann hefur haft þá skoðun, að heimilt væri að eyða þarna tæpri millj. umfram fjárlög, athugasemdalaust og án þess að gera Alþ. nokkra grein fyrir því. Síðan segja yfirskoðunarmenn: „Verður við svo búið að standa.“ Þeim er ljóst, að það verður ekki komið fram ábyrgð á hendur ráðh. síðar meir.

Svo er það 11. aths., sem er um strandferðirnar. Þar er önnur umframgreiðsla, sem nemur kr. l.674.838,99. Til þeirra hefur alls verið varið kr. 4.565.326,63, og er það kr. 2.165.326,63 umfram fjárlög. Þessu svarar ríkisstj. ekki neinu öðru en því, að hún tekur upp svar forstjóra Skipaútgerðar ríkisins við aths., en sjálf ríkisstj. hefur ekkert um málið að segja. Með þessu er ríkisstj. raunverulega að leggja blessun sína yfir það fjármálasukk, sem á sér stað í þessari stofnun. Nú sagði hæstv. ráðh. áðan, að þetta kæmi til af því, — þ.e. tapið af strandferðunum, — að það væri svo mikil samkeppni við bílana og flugfélögin, það væri meginástæðan fyrir þessu tapi. Nú vil ég spyrja, ef þetta er rétt, hvort ekki sé ástæða til að láta fara fram verulega athugun á rekstri þessarar stofnunar, ekki til þess að leita að einhverjum smávægilegum misfellum eða gá að, hvort eitt eða annað hefði mátt fara betur á undanförnum árum, — það er aukaatriði, — heldur til að koma sér niður á, hvort ekki sé hægt að reka þessi mál á annan og hagkvæmari hátt, svo að ekki þurfi að eyða stórfelldu fé til að greiða halla á rekstrinum á hverju einasta ári. Hæstv. ráðh. sagði, og það kemur einnig fram í svari forstjóra Skipaútgerðarinnar, að þeir fái minni greiðslu af matvörum og öðrum vörum en önnur skipafélög, en það fæst ekkert upplýst, hverju þetta nemur, en það hafa þó endurskoðendurnir spurt sérstaklega um, en þeir fá ekkert svar. Það er aðeins sagt, að um mörg ár hafi strandferðaskipin orðið að flytja fyrir miklu lægra verð fyrir önnur skipafélög, líklega S.Í.S., en það er ekkert sagt um, hve miklu þessi upphæð nemur, sem þarf hér að gefa eftir.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Þykir honum ekki eðlilegt, að gefnu tilefni frá Alþ., að nánari athugun verði látin fara fram á þessum málum öllum, athugun á, hvort ekki sé hægt að reka Skipaútgerðina og strandgæzluna á annan og hagkvæmari hátt en gert er, og hvaða raunverulegar ástæður liggi fyrir þessu? Ég get bent á, að á hverju ári höfum við fengið upplýst, að á uppskipun í Reykjavík hafi verið 400–500 þús. kr. rekstrarhalli á hverju ári. Er útilokað, að hægt sé að koma þessu máli svo fyrir, að þessi halli geti horfið? Mér er kunnugt um, að upp- og útskipun annars staðar á landinu er ekki rekin með neinum halla. Þar eru það einstaklingar, sem taka þetta að sér, og þeir mundu ekki hafa það ár eftir ár, ef það væri rekið með tapi. Það hefur meira að segja þótt svo góður atvinnuvegur, að það hefur verið gerð tilraun til þess af Alþingi að tryggja ákveðnu bæjarfélagi rétt til að hafa upp- og útskipun á hendi, meðan það sjálft greiðir halla af því í sjálfri höfuðborginni. Það er eitthvað bogið við slíkt fyrirkomulag. Það er ekki hægt að taka afsökun þeirra manna, sem svona stjórna, gilda í alvöru og vil því mjög óska þess, að hæstv. ráðh. lýsi hér yfir, að hann vilji stuðla að því, að athugun fari fram á rekstri Skipaútgerðar ríkisins og landhelgisskipanna á þeim grundvelli, hvort ekki sé hægt að láta starfræksluna halda áfram með minni útgjöldum, t.d. með því að skapa samvinnu milli þeirra aðila, sem hafa svo erfiða samkeppni og baka útgerðinni stórfellt tjón.

Ég vil leyfa mér að upplýsa, að eins og hæstv. ráðh. minnist, var skipuð hér árið 1943 milliþinganefnd til að skipuleggja strandferðirnar. Í þeirri nefnd var fullt samkomulag, og áætlun lá fyrir um, að ef Skipaútgerðin fengi þann skipakost, sem hún óskaði eftir, væri hægt að láta þá smábáta, sem hún hafði á sínum vegum, hverfa. Ég veit, að þær tekjur, sem þar voru lagðar til grundvallar, hafa aukizt, þó að gjöldin hafi auðvitað aukizt líka. En allar þessar vonir hafa brugðizt, skipaútgerðin hefur fengið þann skipastól, sem hún taldist þurfa, en rekstrartapið hefur aukizt. Það þarf því að rannsaka þessi mál til þess að sjá, hvort ekki sé hægt að koma betra rekstrarfyrirkomulagi á. Annað aðalskipið hefur verið tekið og sett í millilandasiglingar mikinn hluta ársins. Það hefur ekkert verið gefið upp um, hvort þær millilandasiglingar hafa borgað sig, hvort þetta er sérrekstur, né neitt annað í því sambandi. Þetta þyrfti einnig að rannsaka. Ég vildi því, að hæstv. ráðh. lýsti hér yfir, að hann vildi stuðla að því, að þetta yrði gert.

Næst kemur 13. aths., sem er um kostnað við kennslumál. Þar var áætlunin kr. 27.355.313,00, en kostnaðurinn varð kr. 29.517.489,84, en ríkisstj. svarar: „Gefur ekki tilefni til svars.“ Það gefur ekki tilefni til, að endurskoðendum sé svarað, hvernig 21/2 millj. hefur verið eytt.

19. aths. Það er einmitt sá kaflinn, sem hv. frsm. gekk fram hjá, annaðhvort viljandi eða af því, að hann hefur veigrað sér við að ræða um það. Ég vil athuga það dálítið nánar. (BSt: Það er hvorki „til eftirbreytni“ né „athugunar framvegis“.) Aths. 19 hljóðar svo, með leyfi forseta:

„J.P. og S.Á.Ó. gera svofellda aths. um stofnun bús í Skálholti:

Á árinu 1948 hefur verið stofnað ríkisbú í Skálholti. Stofnkostnaður í árslok nam kr. 310.323,95. — Rekstrarkostnaður á árinu hefur orðið, að meðtöldum greiðslum til framkvæmdastjóra Skálholtsnefndar (H.G.) og nefndarinnar sjálfrar samtals kr. 84.696,09. — Kaup framkvæmdastjóra (H.G.) er kr. 24.000,00. — Kaup bústjóra og verkafólks hefur numið samtals á árinu kr. 22.191,50. Var nokkur nauðsyn að stofna þetta bú, áður en búnaðarskólinn tók til starfa?“

Og í sambandi við 20. aths. kemst hv. fyrri þm. Árn. jafnvel ekki hjá að gera aths. við þessi mál. Hann segir svo:

„J. B. vill taka fram eftirfarandi:

Eftir að stofnað var til búreksturs í Skálholti á vegum ríkisins hefur ríkisbókhaldinu engin skilagrein borizt um þann rekstur. — Það fé, sem greitt hefur verið úr ríkissjóði til starfseminnar í Skálholti, hefur verið ávísað og fært sem stofnkostnaður bændaskólans í Skálholti.

Öllum ríkisstofnunum ber að senda ríkisbókhaldinu skilagrein yfir, hvernig fé ríkisins er varið, og er þetta fyrirkomulag, sem hér hefur átt sér stað, aðfinnsluvert.

Þá sýnist og ekki vert að færa þá fjármuni, er varið er úr ríkissjóði til búrekstursins, sem stofnkostnað hins nýja skóla.

Óskað er eftir, að ráðin verði bót á þessu framvegis.“

Ég verð að segja, að það verða víst mörg ár þangað til Skálholtsskóli kemst upp, ef öllu því fé, sem til hans er veitt, er varið til að bæta upp rekstrartap á búinu í Skálholti. Ég veit ekki, hvað hv. 2. þm. Árn. segði, ef hann sæti á þingi og fengi upplýst, að öll hans barátta fyrir Skálholtsskóla hefur farið í tóma vitleysu við búrekstur þar. Hann er sannarlega heppinn að vera fjarverandi til að þurfa ekki að líða þær þrautir, sem því hefðu verið samfara að hlýða á þetta.

Ráðuneytið svarar þessum aths. svo þannig, fyrst varðandi 19. aths.:

„Landbúnaðarráðuneytið svarar þessari aths. þannig:

„Á undanförnum árum hefur kostnaður við Skálholtsnefnd og framkvæmdir þær, er nefndin hefur látið gera í Skálholti, ávallt verið greiddur af fé því, sem á fjárlögum hefur verið ætlað til Skálholtsskóla. Hefur nefndinni verið ávísað fénu, en hún gert grein fyrir notkun þess með reikningum, er hún hefur lagt fram árlega. Hefur nefndin ávallt afhent reikningana í tvíriti og hefur ráðuneytið afhent endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins annað eintakið.

Er keyptar voru eignir Jörundar Brynjólfssonar í Skálholti fyrir kr. 173.700,00, voru þær ekki greiddar af fé því, sem veitt var til Skálholtsskóla, en í þess stað voru þær látnar bætast við jarðeignir ríkisins, en til þeirra taldist Skálholt áður. Var hið keypta fært þar til eignar með fasteignamatsverði, kr. 28.600,00“.“

Hér er þá upplýst, að það hefur hent hæstv. ráðh. Framsfl. á sínum tíma að kaupa eign fyrir kr. 173.700,00, sem virt er í fasteignamati á kr. 28.600,00. Það er eitthvað annað en sú afstaða þess flokks nú, er hann hefur tekið til slíkra kaupa, en þm. hans hafa verið með alls konar persónulegar svívirðingar á mig, — þeir ættu að kynna sér, hvernig þeir hafa farið með þessi mál á kostnað ríkissjóðs, eytt fé hans óleyfilega til þessa, en það er víst allt í lagi.

Í svarinu við 19. aths. segir enn fremur:

„Á fundi Skálholtsnefndar, sem haldinn var 11. maí 1948, fól landbrh. Skálholtsnefndinni að reka bú í Skálholti, er jörðin losnaði úr ábúð Jörundar Brynjólfssonar í fardögum á því sama vori.“ (Hvers vegna er ekki sagt rétt frá? Það vita allir, að Jörundur var keyptur af jörðinni.) „Ráðherrann beindi því til n. að hafa það sem höfuðsjónarmið við væntanlegan búskap í Skálholti, að reka þarna svo alhliða búskap sem kostur væri á, vanda sem mest val á búpeningi, svo að væri ofan meðallags, bæta húsakost, ræktun og umgengni þannig, að allt þetta mætti vera samboðið þessum merka sögustað. Enn fremur benti ráðherrann á, að nefndin þyrfti að hafa hugfast, að búið þyrfti að vera orðið það fullkomið, er bændaskólinn yrði reistur í Skálholti, að það gæti talizt gott kennslutæki í verklegri fræðslu víð skólann.

Búið í Skálholti var selt á leigu frá því í fardögum 1950, og er því eigi lengur um búrekstur á vegum ríkisins á staðnum að ræða.“

Þetta eru deilurnar um Skálholt. Þar hefur verið eytt stórkostlegu fé til þess að bæta sams konar fjárstofn og varið er milljónum til þess að skera niður annars staðar. — Ráðh. hefur gengið út; hann hefur ekki þolað að hlusta á þessar umræður. — Að hugsa sér að fara þannig með fé ríkissjóðs, að leyfa sér að taka í óleyfi það fé, sem verja á til að byggja fyrir skóla, og kaupa fyrir það bústofn, sem vitað er, að skera á niður á næstu árum, og láta það standa undir búrekstrartapi. Þarna er sannarlega gengið lengra en nokkur ráðh. hefur áður gengið. Það ætti að kalla hann til ábyrgðar um meðferð á fé ríkissjóðs, ef hægt væri.

Ráðh. segir enn fremur í sambandi við 20. aths.: Athugasemdin er að nokkru svar við næstu athugasemd á undan. — Það er rétt að finna að því, að reikningar Skálholtsnefndar hafa ekki verið sendir ríkisbókhaldinu, en hins vegar hafa þeir árlega verið afhentir landbúnaðarráðuneytinu og endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins.“

Svo að landbúnaðarráðuneytið hefur átt að hafa endurskoðun á sínum eigin gerðum!

Enn segir: „Í athugasemdinni er bent á, að ekki sýnist vert að færa fjármuni þá, er varið er úr ríkissjóði til búreksturs í Skálholti, sem stofnkostnað hins nýja skóla. — Færslur þessar eru gerðar samkv. fyrirmælum hlutaðeigandi ráðherra. Telur ráðuneytið, að þær séu í samræmi við þá ákvörðun um búrekstur í Skálholti, sem getið er hér að framan í sambandi við aths. 19. Ef það taldist nauðsyn að efna til búreksturs í Skálholti þá þegar, vegna stofnunar skólans, jafnvel þótt skólahald drægist nokkuð, verður að teljast eðlilegt, að kostnaður við þá framkvæmd sé greiddur af fé því, sem ætlað er til stofnunar skólans.“ — Sannleikurinn er sá, að Alþ. hefur aldrei tekið neina ákvörðun um, að það ætti að byrja búrekstur í Skálholti áður en skóli verður settur þar upp. — „Hins vegar telur ráðuneytið, að betur hefði farið frá upphafi að skipta útgjöldum varðandi undirbúning stofnunar skóla í Skálholti þannig, að það eitt hefði verið fært sem stofnkostnaður, er telja má eign skólans til frambúðar, en nefndarkostnaður, rekstrarhalli á búi o.fl. hefði verið fært á annan hátt.“ — Það er mikið, að ráðuneytið kemur auga á þetta, en það er líklega af því, að það er kominn annar ráðherra. — „Með því að nota af fé því, sem veitt var í fjárlögum til bændaskóla í Skálholti, til að greiða hinn margvíslega undirbúning að skólastofnun, sem fram hefur farið, var ekki tekin nein ákvörðun um að telja þær framkvæmdir allar og tilkostnað til stofnkostnaðar. Að svo hefur orðið, stafar eingöngu af þeim mistökum, að ríkisbókhaldinu hefur ekki verið látin í té árlega skýrsla um notkun fjárins í einstökum atriðum.“

M.ö.o., þetta svar hæstv. ráðh. gefur tilefni til að halda, að viðkomandi þáv. ráðherra hafi af ásettu ráði falið þessa reikninga fyrir ríkisbókhaldinu, svo að ekki væri hægt að stöðva þetta óhóflega fjármálasukk, og það er þetta, sem hér hefur verið gert af viðkomandi landbúnaðarráðuneyti.

Alls hafa verið veittar til Skálholtsskóla kr. 1.925.000,00. Nú vildi ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hve miklu af þessu er búið að eyða í sukk í sambandi við þennan búskap? Alþ. á heimtingu á að fá að vita, hve mikið af þessari upphæð, kr. 1.925.000,00, sem búið er að veita á fjárlögum, er til. Skólann er ekki farið að reisa. Það vita allir menn. Mér þótti full ástæða til að láta þessi mál koma til umræðu við afgreiðslu landsreikningsins. Ég fullyrði, að það hefur ekki verið nein heimild fyrir ráðuneytið til að taka þetta fé, sem um getur í 20. gr. og veitt er til skólabyggingar, og eyða því í alls konar sukk í Skálholti.

Þær aths., sem ég hef minnzt á, eru þess eðlis, að það er ekki von, að neinn maður vilji koma með tillögur eða halda uppi baráttu til úrbóta, meðan þær mæta ekki meiri skilningi en þetta frá ráðuneytinu. Fyrsta skilyrðið til að koma þessu í horf er, að hæstv. ríkisstj. taki upp aðrar aðferðir, og ég vona, að hún beiti sér fyrir því, að málin verði ekki höfð framvegis eins og hingað til. Ég er ekki að kenna neinum sérstökum ráðh. um þetta. Þessi svör koma frá hinum ýmsu ráðuneytum og virðist hafa verið sameiginleg skoðun þeirra, þetta er því ekki ásökun á einn frekar en annan, en ef hafa á nokkur tök á fjárlagaafgreiðslunni annars vegar og fjármálum ríkisins hins vegar, þá á ekki að hafa sama hátt á og verið hefur.