20.10.1950
Efri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

36. mál, togarakaup ríkisins (lántökuheimild)

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það barst í tal, þegar fjárl. voru til 1. umr., að nokkuð hefði verið leitazt fyrir um lán vegna togarabygginga til, viðbótar því, sem áður var tekið, og boðað, að frv. um það yrði lagt fram. Nú er hér lagt fram frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka 16 millj. kr. lán til viðbótar því, sem áður var tekið. Það skal tekið fram, að ekki er séð fyrir endann á þessum umleitunum, en þetta stóð þannig, að hægt var að fá lán, 350 000 sterlingspund, en aðeins til eins árs, og var ekki hægt að koma því öðruvísi fyrir. Hins vegar mun ekki þurfa að veðsetja togarana fyrir því láni, en samt sem áður tel ég rétt, að það verði látið standa í frv., að veðsetja megi togarana með 2. veðrétti. Ef það skyldi takast síðar að útvega annað lán, sem væri lengra, þá væri gott að hafa þá heimild.

Ég vil leyfa mér að fara fram á, að þessu máli sé hraðað gegnum d., vegna þess að það þyrfti að ganga frá málinu í næstu viku, og ef þessu máli er komið til fjhn., þá vil ég beina því til hennar, hvort hún gæti ekki tekið málið fyrir fyrir helgi, þannig að það væri hægt að afgr. lánsheimildina frá deildinni. Leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði vísað til fjhn.