01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja hér nokkur orð út af ræðu hv. þm. Barð. — Það er nú auðheyrt, að það er þungt í hv. þm. út af því, að gagnrýnd voru kaup hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar á Otradal fyrir hærra verð en matsverð jarðarinnar nam, en við því, að jörðin væri keypt hærra verði en nam mati, var auðvitað ekkert að segja, en engin heimild var til fyrir kaupunum, og því var þetta gagnrýnt, en þau voru svo látin ganga til baka eftir beiðni hv. þm. Barð. sjálfs, en samt sem áður er þessi hv. þm. mjög móðgaður út af þessu máli. Honum er því mjög í mun sumpart af þessum ástæðum að reyna að sýna, að fleira hafi verið gert í heimildarleysi en kaupin á Otradal. En gagnrýni hv. þm. er byggð á misskilningi. Skálholt er keypt samkv. þingheimild og sömuleiðis það að veita ábúandanum erfðaábúð þar, en hann hafði setið jörðina lengi undir hinum erfiðustu kringumstæðum. Og svo spyr hv. þm. um ástæðuna til þess, að Jörundur Brynjólfsson flutti burt frá Skálholti, en hv. þm. veit vel, að það stafaði af því, að þar átti að byggja bændaskóla, og þess vegna var gangskör gerð að þessu. Ég býst við, að Jörundur Brynjólfsson hafi ekki verið ofsæll af því verði, sem hann fékk fyrir eignir sínar í Skálholti, og þeim viðskiptum öllum saman. — Þá sagði hv. þm., að skólinn hefði ekki enn verið byggður og búið væri að byggja jörðina öðrum manni. Ætlunin var að hefja byggingu skólans fyrir tveim árum, en þá fékkst ekki fjárfesting til þeirra framkvæmda, og eru framkvæmdir ekki enn hafnar þar, en þegar svo fór, að ekki fékkst fjárfesting til skólabyggingarinnar, þá reyndi Skálholtsnefndin að búa í haginn fyrir skólann og notaði nokkuð af fé skólans í því skyni, og gerði hún það ekki í heimildarleysi, því að það var tekið af fé skólans og geta því talizt byrjunarframkvæmdir að skólastofnuninni. Það sýnir ekki, að jörðin hafi verið leyst að ófyrirsynju, þó að ekki hafi enn verið byggður þar skóli, en nefndinni þótti hagfellt, þegar liðin voru tvö ár án þess að hafizt væri handa um skólabygginguna, að byggja jörðina í stað þess að reka þar búskap sjálf, því að slíkur búskapur hefur ekki gengið vel. Nefndin taldi því heppilegra að leigja jörðina til tveggja ára, og það kemur fram í skjölum n. Nefndinni var óhætt að byggja Skálholt til tveggja ára, þar sem ekki er enn byrjað á framkvæmdum við skólastofnunina, því að slíkar stórbyggingar taka að jafnaði langan tíma. Ég sé því ekki annað en þetta sé allt með eðlilegum hætti, og að þessi gagnrýni sé byggð á misskilningi. Hv. þm. hafði stór orð um þetta og talaði í því sambandi um fjársukk og beindi því til mín, en ég hef ekkert haft með þessi mál að gera. Eftir því, sem stendur í skýrslunni um þennan undirbúning og Skálholtsnefndina, þá sé ég ekki betur en að um misskilning sé að ræða, þegar hv. þm. Barð. er að tala um, að búið sé að eyða á aðra milljón kr. í þetta, en mér skilst, að hann hafi þar tekið skakkar tölur, en til þessara mála hafa nú verið greiddar 515 þús. kr. og til fyrirhugaðs skólastjóra 104 þús. kr. (GJ: Ég meinti, að það kostaði þetta, þegar með væri talið ævintýrið um Jörund.) Ég held nú samt, að hv. þm. hafi sagt hitt. Þá er einnig kaup nefndarinnar og framkvæmdastjóra hennar og enn fé til endurbóta á bústöðum og undirbúningur undir skólastofnunina. Ég held, að hv. þm. Barð. muni leiðrétta sig í því, að hér sé um sérstakt sukk að ræða. Nefndarkostnaðurinn og laun til framkvæmdastjóra, 24 þús. kr., sýnist vissulega nokkuð hár, en þar sem ég veit ekki, um hve mikið starf hér er að ræða, þá get ég ekki um það dæmt, hvort það er of hátt.

Ég skal ekki ræða hér um Kaldaðarnesmálið, það hefur verið svo mikið rætt hér í þinginu, að ástæðulaust er að innleiða hér um það umræður að nýju. Hv. þm. Barð. sagði, að varið hefði verið fé til hreinsunar á landinu í Kaldaðarnesi, en slík ummæli stafa af þekkingarleysi. Þegar heilbrigðisstjórnin tók að sér hælið, þá tók hún að sér þessa hreinsun, og þegar Jörundur Brynjólfsson tók við Kaldaðarnesi, þá tók hann að sér hreinsunina, og var það metið í sambandi við kaupin, svo að ég sé ekki annað en ummæli hv. þm. stafi af því, að hann hafi ekki kynnt sér málið nægilega.

Þá minntist hv. þm. á upp- og útskipunina hjá skipaútgerðinni. Ég hafði rætt þetta mál við hlutaðeigandi aðila, því að ég hef áhuga á að þetta sé rekið hallalaust hér eins og annars staðar, því að víða taka menn slíkt að sér í hagnaðarskyni. Og nú var farið fram á að hækka taxta við upp- og útskipun, en nú skilst mér, að það hafi ekki fengizt, en ég hélt, að þetta væri komið í lag, og mun ég nú athuga, hvort ekki sé hægt að kippa þessu í lag.