02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hér hafa orðið langar og harðar umræður um landsreikningana, og var ekki óeðlilegt, þótt athugasemdir væru gerðar við ýmsa liði þeirra. Af þessu skal ég nú ekkert endurtaka. En ég vil benda á það, að þær aths., sem gerðar hafa verið, hafa haft við rök að styðjast, og mest af þessu hefur verið viðurkennt af hæstv. ríkisstj. og hefur verið þess eðlis, að ástæða hafi verið til að gagnrýna og það harðlega. Þess er að vænta, að allt þetta verði tekið til athugunar og slíkt komi ekki fyrir aftur. Ég vil ekki vera að rekja hér þær deilur, sem hér hafa orðið, en vil undirstrika það, að ég vænti þess, að ríkisstj. sjái til þess, að það komi ekki fyrir, að greiddar verði úr ríkissjóði fjárfúlgur í heimildarleysi, eins og hér hefur komið fyrir. — Og þykir mér ekki þörf að ræða þetta mál að öðru leyti.