05.02.1951
Efri deild: 64. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

79. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur lagt mikla vinnu í þetta frv. Það bárust feikilega margar umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar, og þurfti nefndin að athuga, hverja leið bezt væri að fara í þessum efnum. Hún byrjaði á að bera saman frv. dómsmrh. við umsóknirnar og samþ. allar þær umsóknir, sem þar voru. Því næst flokkaði nefndin niður aðrar umsóknir og tók fyrst inn í frv. alla þá menn, sem voru af íslenzkum ættum og höfðu skjöl sín í lagi. En nefndin lagði þó ekki til, að konur, sem ekki höfðu gengið frá skilnaði sínum, yrðu teknar inn í frv. Þá tók nefndin einnig einn mann af dönskum uppruna, sem dvalizt hefur hér í 10 ár, inn í frv. En allir þeir norrænu menn, sem teknir voru í frv., fullnægðu skilyrðunum um ríkisborgararétt, eins og lög gera ráð fyrir. Um þessa menn alla hefur nefndin orðið sammála.

En er hér var komið, gat n. ekki verið á einu máli um þær umsóknir, sem eftir var að taka afstöðu til, og út frá þessu skapaði n. við afgreiðslu þessa máls þá reglu, að leggja til að taka nú eingöngu í þetta frv. menn af íslenzkum ættum og þá norræna menn, sem ég nú hef getið hér um. Eins og nefndin tekur fram í nál., er hér ekki um neina allsherjarreglu að ræða. En málið liggur þannig fyrir nú, að óvenjumargir menn af ísl. bergi brotnir óska eftir því að öðlast ríkisborgararétt. En ef ganga ætti lengra í þessum efnum, eins og ýmsir mundu vafalaust vilja, þá yrði að fara út í einstaklingsmat. Þess vegna vill nefndin ekki fara lengra í þessum efnum að svo stöddu, því að hún telur, að frv. næði frekar fram að ganga, ef ekki væri farið út í einstaklingsmat. Þess vegna hyggur hún, að betra sé að hafa frv. í þeim búningi, sem það nú er í.

Það má til sanns vegar færa, að rétt sé að taka menn af skandinavískum uppruna fram yfir aðra, en þannig mun það vera á hinum Norðurlöndunum. Og þess vegna leyfir n. sér að vænta þess, að hv, deild og Alþingi veiti frv. brautargengi eins og það er lagt hér fyrir.

Við höfðum samband við allshn. Nd., til þess að kynna henni sjónarmið okkar, og litum við svo á, að með því móti gengi málið hraðar í gegnum þá hv. deild. Með þessum formála leyfi ég mér svo að vænta þess, að málið fái skjóta afgreiðslu í þessari hv. deild.