01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

79. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Vafalaust er hvert orð rétt í því, sem hv. þm. N-Ísf. mælti fram til meðmæla því, að þessum mönnum sé veittur borgararéttur.

Ég ætla þess vegna ekki að andmæla einu einasta orði af því, sem hann sagði um það. En þrátt fyrir þau góðu meðmæli með umsækjanda undir bókstaf b á brtt., þá er mér kunnugt, að í Ed. næst ekkert samkomulag um, að honum verði veittur ríkisborgararéttur. Af því má ráða, hver vandkvæði eru um afgreiðslu þessa máls, ef breyt. verður gerð. Þetta má hafa sem sýnishorn. Æskilegast hefði verið, ef hv. þm. N-Ísf. hefði ekki látið þessar till. koma undir atkv. í þessari d., en gæti fallizt á að taka þær til baka. Ég skil vel hans tilfinningu fyrir því að geta veitt þessu fólki réttindi. En þannig stendur á um margar umsóknir, sem allshn. sá sér ekki fært að sinna af þeim ástæðum, sem ég færði fram í fyrri ræðu minni. Og það er engan veginn af hálfu n. gert með glöðu geði að leggja til að samþ. frv. óbreytt. En engum væri greiði gerður með breytingu. Það yrði aðeins til þess, að öllum yrði synjað. En ég álít, að Alþ. verði næst að taka upp allt aðra stefnu og byggja á öðrum grundvelli en gert er í Ed. Og þó að þessi d. fallist á þessa afgreiðslu að þessu sinni, er það aðeins með það fyrir augum, að nokkrum umsækjendum verði þó veitt úrlausn.