23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

95. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það mátti við því búast, að fram kæmu mismunandi sjónarmið hvað viðvíkur fækkun prestssetra. En hér var reynt að fá þá menn til að gera tillögur um þetta efni, sem góða þekkingu ættu að hafa á þessum efnum. þá ritara biskups, skrifstofustjóra kirkjumálaráðuneytisins og Pálma Einarsson frá búnaðarsamtökunum, og kirkjumálaráðuneytið tók við tillögum þessara þriggja manna eins og þær liggja fyrir í því frv., sem hér er til umr. Og þegar ég tók till. nefndarinnar, eins og þær lágu fyrir í frv.-formi, þá gerði ég það vitanlega vegna þess, að þarna eru þrír menn, sem skipaðir hafa verið í n. til þess að rannsaka og gera till. um þessi mál. Og ég geri mér fyllilega ljóst, að málið er það viðkvæmt, að það er ákaflega erfitt fyrir ráðun. að gera aðrar till. en þessi n. gerir. Með þessu móti, að n. vinni þetta verk, jafngagnkunnug þessum málum sem undirbúningsn. er, má gera ráð fyrir, að verkið sé sæmilega unnið og hlutdrægnislaust, enda þótt sjálfsagt sé, að málið sé athugað í þingn. En það er eðlilegt, að þetta mál sé rætt og gefnar séu sem ýtarlegastar bendingar um það, áður en það fer í n. til athugunar. Og eðlilegast er, að sú n., sem fær málið til athugunar, krefji þá nefnd upplýsinga, sem hafði undirbúning málsins með höndum — hvort hún var skipuð af Alþ., man ég ekki — og er skipuð gagnkunnugum mönnum þessum málum. Og þeir munu vitanlega koma á fund menntmn.

Það hafa komið hér fram ýmis sjónarmið. Sumir álíta, að það eigi jafnvel verulega að taka tillit til þess, um hvaða staði er að ræða, þegar á að ákveða, hvaða prestaköll skuli lögð niður, og án tillits til samgangna og án tillits til fólksfjölda innan prestakalla, svipuð sjónarmið eins og komu fram um Hóla í Hjaltadal. Þetta sjónarmið hefur komið hér fram viðkomandi Rafnseyri og Þingvöllum. Það getur vel verið, að það þurfi að hafa ýmis sjónarmið í þessu máli og taka tillit til margra hluta. En ég er ákaflega hræddur um, að um þetta verði nú ekki allir sammála. Það er eitt meðal annars, að ég hef nú nýlega fengið upplýsingar um annan þessara staða, sem ég nefndi, að það er sáralítill tilkostnaður viðkomandi þjónustu á Þingvöllum. Prestunum, sem skipta þessu starfi á milli sín, er borgað alveg sérstaklega lítið fyrir það, en það er vitanlega ekkert afgerandi fyrir það sjónarmið, hvort eigi að hafa prest á Þingvöllum. En þegar rætt er um að hafa prest á þessum og þessum stað, af því að staðurinn sé helgur í hugum manna að einhverju leyti, og talað er um það jafnframt, að ekki megi fækka prestum í sveitum, vegna þess að þeir séu einu menntamennirnir á stórum svæðum, þá er rétt að taka tillit til þess gagnvart síðara atriðinu — með allri virðingu fyrir prestum —, að það eru vitanlega ýmsir menn í sveitum landsins, sem eru eins gagnmenntaðir og prestar og þeirra jafnokar á flesta lund, fyrir utan guðfræðikunnáttuna. Það þekkjum við, sem þekkjum til í sveitum þessa lands. Þjóðin er orðin það menntuð, að það er nokkurt annað viðhorf nú en var hér fyrr á tímum í þessum efnum. Og vitanlega er engin trygging fyrir því, — það verður að segjast eins og það er, því að prestar eru misjafnir eins og annað fólk — að heiðurinn fyrir staðinn sé annað en nafnið að hafa prest á einhverjum stað, sem menn vilja halda í heiðri með því að hafa þar prestssetur. Slíkt fer allt eftir því, hvernig valið tekst á prestinum. Sumir prestar eru til lítils sóma eða gagns, alveg eins og aðrir embættismenn. Og það á ekki frekar við um presta en aðra embættismenn. Það er svo um allar stéttir í okkar þjóðfélagi. Það gæti því hæglega farið svo, að staðnum sé ekki sá sómi sýndur með því að hafa þar prest, sem hins vegar gæti verið, ef vel tækist til.

Það hefur enn fremur komið hér fram það sjónarmið, að prestar ættu fyrst og fremst að vera þar, sem þéttbýlið er og þar sem þeir geta náð til fólksins. Þetta er rétt sjónarmið. En þetta er ekki heldur einhlítt að fara eftir. Og það skal ég benda á einmitt í sambandi við annað sjónarmið, sem hér kemur áberandi fram, sem er það sjónarmið, að það eigi að leggja niður þau prestaköll, þar sem ekki hefur fengizt prestur til að þjóna í nokkur ár undanfarið, eða um lengri tíma. Það er gersamlega útilokað að fylgja þessu sjónarmiði. Og ég get bent á alveg full rök fyrir því. Ég skal taka dæmi, sem minnzt var á hér og ég þurfti að minnast á hvort sem var. Það er Árnes í Árneshreppi. Það er talsvert margt fólk í þeim hreppi. En þannig stendur á þar, að þangað hefur ekki fengizt prestur um lengri tíma — ekki fyrir það, að ekki hafi verið boðizt til þess að gera fyrir prestssetrið eða til þess að gera fyrir prestinn eins og bezt er gert við presta, því að það var samþ. hér fyrir tveimur til þremur árum að veita fé til byggingar þar fyrir prestinn. Það var boðið fram, þegar hann vildi ekki flytja í hús, sem er mjög nýlegt og svo til ágætt, hús læknisins, en læknir fæst ekki þangað heldur. Og þá bauðst ríkið til að byggja hús yfir prestinn. Hann flutti samt burt. Þetta prestakall hefur verið auglýst a.m.k. tvisvar og látið fylgja þetta tilboð, sem ég gat um. En það fæst nú enginn prestur þangað, og það er af því, að þetta prestakall er afskekkt. Hins vegar er útilokað að leggja þetta prestakall niður, og það er af þeirri ástæðu, að þessa sveit skilur fjallgarður að norðan frá öðrum sveitum, og að sunnan er einn erfiðasti fjallgarður, sem er til á þessu landi, og er oft ekki hægt að komast til þessarar sveitar landveg að sunnan, nema eftir ströndinni, þar sem eru tvær ófærur, sem líka heita Ófærur, Veiðileysuófæra og Kambsófæra, þar sem farið er undir klettum og sætt sjávarföllum stundum. — Það er alveg útilokað að fylgja þeirri reglu gagnvart þessu prestakalli að leggja prestakallið niður, þó ekki hafi fengizt þangað prestur undanfarið til að vera þar. Það eru nú margir, sem stunda guðfræðinám í háskólanum, og það eru vonir til þess, að það fáist maður til að gegna prestsembætti þarna, ef á ekki að fylgja þeirri reglu að segja: Þið fáið engan prest, — það fæst enginn læknir til ykkar og enginn prestur hefur fengizt til ykkar undanfarið, þar af leiðir, að þið fáið engan prest. — Það er útilokað, að í framtíðinni þjóni læknirinn á Hólmavík þarna í Árneshreppnum. Það er aðeins haft þannig vegna vandræða nú. — En um prestssetursjörðina þarna er það svo, að hvenær sem prestur býðst til að vera þarna, stendur honum öll jörðin til boða með byggingum til að búa á, sem er ein bezta jörðin í hreppnum. — Hvaða trygging er fyrir því, að það fáist prestur að Stað í Grunnavík, þegar séra Jónmundur hættir sínu starfi? Allar líkur eru til, að það fari eins með prest þangað og með það að fá lækni og prest til að vera í Árneshreppnum. Og þó er útilokað að leiða það í lög, að prestssetrið þar verði lagt niður, — alveg eins og það er fráleitt að leggja með l. niður að hafa læknissetur á þeim sjö stöðum, þar sem enginn læknir hefur fengizt til að setjast að undanfarið. Menn bíða betri tíma um ný sjónarmið þeirra manna, sem fást munu til að starfa á þessum stöðum, nefnilega, að þeir fáist til að starfa þar, þó ekki sé eins gott um samgöngur til þessara staða og annarra.

Það þykir einkennilegt að leggja niður sem prestssetur staði, þar sem nú eru prestar. Það er vitanlega ekki einkennilegt. Ég skal taka fleiri dæmi úr Strandasýslu. Prófasturinn í Strandasýslu situr nú í Kollafjarðarnesi, sem eftir frv. á að leggja niður sem prestssetur. Og þetta er gert með hans samráði. En þó að ég breytti því ekki í frv., þá ætla ég að minnast á það við n., að það er rétt hjá hv. þm. Barð., að það ætti að leggja Óspakseyrarsóknir undir Prestsbakkaprestakall. En ef prestur er í Árnesi og ef prestur er á Hólmavík og prestur á Prestsbakka og ef presturinn á Prestsbakka tekur Óspakseyrarprestakall, þannig að það verði lagt undir Prestsbakkaprestakall, þá á ekki að vera nein ofraun þremur mönnum að þjóna þessum stöðum, þannig að þetta er orðið allt annað, þegar bættar samgöngur koma til greina. Þegar verið er að berjast fyrir því hér á Alþ. að koma vegum eftir strandlengjunni — og hv. þm. Barð. hefur orðið var við það, — hvað þýðir það? Það þýðir, að því er lokið að brúa átta vatnsföll á því svæði, sem ég hef verið að tala um, sem hafa verið tálmanir miklar á þessum leiðum og sum verið ófærur, eins og Tunguá, sem brúuð var síðast og nú er búið að ljúka. Nú er þess vegna svo margfalt auðveldara fyrir þrjá menn alls að þjóna þarna í prestsembættum heldur en það var fyrir fjóra, áður en þessar samgöngubætur voru gerðar. Og þetta eru þau eðlilegu laun fyrir það, sem lagt hefur verið fram í þessu efni, að auðveldara er fyrir embættismenn að þjóna á þessum stöðum.

Fleiri dæmi skal ég taka. Í Skagafirði er fast sorfið að í frv., eða hitt þó heldur. Ekki er lagt til, að Barð í Fljótum verði lagt niður sem prestakall. Prófasturinn í Skagafirði segir, að hægt sé að þjóna því frá Hofsósi. Það er ekki langt frá Hofsósi þangað né til Hóla. Þar er prestur. Og það er ekki orðið ákaflega torfarið, þegar ágæt braut er komin eftir Blönduhlíð, og ekki sérlega erfitt fyrir prestinn á Miklabæ að þjóna á stærra svæði en nú. Þarna eru austan Héraðsvatna nú fjórir prestar og ágætar samgöngur um svæðið. — Og vestan Héraðsvatna er lagt til, að Hvammur í Laxárdal verði lagður niður sem prestssetur og presturinn á Sauðárkróki þjóni í núverandi Hvammsprestakalli. En þá er þess að gæta, að Sauðárkrókur er orðinn nokkuð mannmargur, og er ekki óeðlilegt, að presturinn þar hafi ekki stærra svæði en er. — Þá höldum við áfram. Hér er ekki lagt til neitt um Glaumbæ eða Mælifell.

En í raun og veru eru Glaumbær og Mælifell þægilegt prestakall fyrir einn prest. En þannig getur hins vegar staðið á víða, þar sem prestssetur eru á góðum jörðum, sem eru eftirsóttar vegna hlunninda og þar sem þessar jarðir eru ekki afskekktar, og þar sem þó hvert prestakallið er við annað, að nógir fáist til að sækja um þessi prestaköll. Þannig er t.d. í Árnessýslu. En það er ómögulegt samkv. eðlilegum sjónarmiðum að komast hjá því að leggja til, að eitthvað af þessum prestaköllum sé lagt niður sem sjálfstæð prestaköll. Þannig er lagt til hér, að nokkur slík prestaköll verði lögð niður. En prestar hafa sótt eftir þessum prestaköllum í Árnessýslu, því að prestssetrin eru góðar jarðir og í þéttbýli, og þar er ágætt að vera.

Ég held, að í þessu frv. sé mjög í hóf stillt. Og vitanlega er ritari biskups, sem unnið hefur að undirbúningi þessa frv., einn í þeirra tölu, sem hafa manna mestan áhuga fyrir kristinni kirkju. Og hann gerir sér það fyllilega ljóst, sá góði maður, að það er ekki hægt að halda áfram þessari skipan, sem nú er, því að krafan hlýtur, vegna aukinna samgöngubóta, að verða sú, að fækkað verði prestaköllum sums staðar á landinu. — Hér er gert ráð fyrir, að Auðkúluprestakall sameinist Bergsstaðaprestakalli. Og þm. kjördæmisins segir, að það sé engin þörf á presti á Auðkúlu eftir að lokið sé byggingu brúar yfir Blöndu. En sjálfsagt yrði það svo, ef Auðkúluprestakall væri ekki lagt niður, að fjöldi presta sækti um Auðkúluprestakall, því að jörðin er góð og í góðu héraði.

Ég skal svo ekki fara öllu fleiri orðum um þetta mál. — Það hefur verið kvartað undan því, að þetta frv. kæmi ekki heim við l., sem það er stílað við. Og það kann að vera, að það megi að því finna, og er auðvelt að gera á því umbætur, og sjálfsagt er að ræða um það við þann mann, sem séð hefur um að semja frv., sem er skrifstofustjórinn í kirkjumálaráðun. og var einn af mönnunum í undirbúningsn.

En byggingar á prestssetrum eru, eins og hv. þm. Barð. er kunnugt, mikið vandamál. Það hefur verið reynt að koma því til vegar, að þessum málum miðaði áfram. Og þó að það væri gert, sem ég tók fram gagnvart Árnesi, þá er ekki á það að draga dul, að byggingar á prestssetrum eru á eftir tímanum, og lágu fyrir í ráðun., þegar ég tók við þar, skrifleg loforð um byggingar á prestssetrum, sem ekki voru uppfyllt, en átti að vera búið að uppfylla á þeim tíma. Í Eydölum átti að byggja 1949, en engir peningar hafa verið til þess, og presturinn hefur orðið að búa annars staðar.

Ég veit, að þetta mál er mjög viðkvæmt. En ég er jafnframt viss um það — og ég nefndi eitt dæmi um það, Skagafjörðinn, — að það er ekki nærri sorfið í þessu máli. Ritari biskups dissi, að það var ekki hægt að komast hjá fækkun prestakalla, og hann sá, að eðlilegt var að gera tili. um fækkun, en hann vildi gera þær sem allra minnstar sem starfsmaður kirkjunnar.

Ég vil biðja þá menn, sem athuga þetta mál í n., að tala við n., sem undirbúið hefur málið, og reyna að koma réttlátum breyt. á þessum málum áleiðis gegnum þingið. Og þó ég sé þeirrar skoðunar, að réttmætt sé að fækka prestaköllum, þá er ég líka þeirrar skoðunar, að ef gengið sé lengra en hér er gert í frv., þá muni málíð stranda. Því að það er nú einu sinni svo, að þó að allir tali um, að það þurfi að fækka embættismönnum, þá eru á því ýmsir annmarkar, þegar á að fara að framkvæma það.