23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

95. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Barð., að hann telur orsökina til þess, að ekki fást prestar í sum prestaköll, þá, að jarðirnar séu svo illa farnar. Ég vil því mælast til þess, að hæstv. dómsmrh. vildi skýra frá því, hve langt áleiðis er komið því, sem hæstv. ríkisstj. og honum var falið að gera með samþykkt í Sþ. fyrir 2 eða 3 árum, en það var að athuga og samræma leigukjör í húsum, sem byggð eru handa opinberum starfsmönnum, þannig að ein lög gildi í þessu efni um presta, lækna, fógeta, skólastjóra o.s.frv., en það er nú ekkert samræmi í greiðslu á leigu fyrir þessi hús. Ég var þess hvetjandi, þegar hv. 1. þm. Rang. flutti þessa till. um, að ríkisstj. væri falið að gera þessa athugun, en síðan hefur ekkert heyrzt eða gerzt í máli þessu, en þegar prestsseturshús eru nú komin í 400 þús. kr.,

þá er nú orðin full ástæða til að gefa gaum að leigukjörum þessara húsa. Hæstv. forseti sagði áðan, að ég hefði aðeins rétt til að gera aths., og það er ef til vill ekki rétt að misnota leyfi hans, en ég kalla það ekki ræðu, er ég tók fyrst til máls, því að ég var aðeins að óska eftir, að málið væri tekið af dagskrá. — Það eru ekki nema tveir liðir í frv. þessu, sem hníga að prestaköllum, þar sem eru ungir prestar, sem ætla má, að verði til frambúðar, hinir liðirnir fjalla annars allir um prestaköll, sem eru laus eða eru að losna, og þess vegna er frv. byggt upp eins og það ætti að vera. N. hefði gjarnan mátt hafa meiri tíma til að athuga málin og gera aths. við það. Hún hefði t.d. mátt athuga um Hofteig, sem enginn prestur hefur fengizt að, síðan séra Þormar fór þaðan að Laufási einhvern tíma milli 1920 og 1930, og síðan aldrei fengizt prestur þangað. Af hverju er þetta ekki tekið, eða þá Mjóifjörður, og hvaða gagn er að því að hafa Kálfafellsprestakall, sem hefur verið prestslaust í 10 ár? Og enn vil ég benda á það, ef n. semur upp 1. gr., sem ég vona, að hún geri, þá verði tekið upp svipað fyrirkomulag og með læknishéruðin, að kenna prestaköllin við aðsetursstað prestsins, svo að maður fari ekki í grafgötur um, við hvað er átt, og að ekki sé verið að kenna prestaköllin við staði, þar sem prestarnir kannske sátu fyrir mörgum hundruðum ára. Hvaða þýðingu hefur t.d. að kenna prest við Prestsbakka, þegar hann er fluttur að Kirkjubæjarklaustri, eða Stað í Steingrímsfirði, þegar hann situr á Hólmavík og mun sitja þar í framtíðinni? Annars er ég á þeirri skoðun, að allur fjöldinn af hinum yngri prestum séu ekki menn til að stunda búskap, og þegar launalögin voru sett, fengu þeir laun með það fyrir augum, að þeir þyrftu ekki að stunda búrekstur. Í gamla daga stunduðu prestarnir búskap, af því að þá höfðu þeir lægri laun, en eftir að launin hækkuðu, eiga þeir ekki að stunda slíkt, því að í flestum tilfellum kunna þeir ekkert til þess og níða niður jarðirnar.