26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

95. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég benti á það við fyrri umr. þessa máls, að það væri brýn nauðsyn á að fjölga prestsembættum hér í Reykjavík, og ég sé, að kirkjuráðið hefur einnig hreyft þessu í þeim aths., sem komið hafa frá því við frv. Ég sé þó ekki ástæðu til að flytja brtt. við frv. á þessu stigi, þar sem mér skilst, að verði frv. samþ., verði ekki önnur breyt. en sú, að lögð verða niður prestsembætti, sem enginn maður er í hvort sem er, og er það engin breyt. í sjálfu sér. — Ég vil taka undir það, sem fram hefur komið, að þrátt fyrir þessa breyt. er rík ástæða til að endurskoða prestakallaskipunina með tilliti til starfssviðs prestanna, en ég vil beina því til hæstv. kirkjumrh., að hann láti þá endurskoðun fara fram með það fyrir augum, að prestar verði fluttir úr mannfærri héruðunum á þá staði, sem fólkið hefur flutzt til. Það eru auðvitað hlutfallslega miklu fleiri prestar í sveitum en kaupstöðum, og það er alveg greinilegt, sérstaklega í Reykjavík, að prestar eru orðnir allt of fáir, ef menn á annað borð hafa trú á þeim og störfum þeirra, eins og löggjöfin gerir ráð fyrir og byggist á. Þess vegna mundi ég leggja á það mikla áherzlu, þó að þetta frv. verði samþ. með brtt. n., að Reykjavíkurprófastsdæmi yrði skipt í fleiri prestaköll en nú.