23.02.1951
Neðri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

95. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. um skipun prestakalla, er stjfrv. og var lagt fyrir hv. Ed. Alþ.

Eins og sjá má af nál. menntmn. þessarar hv. d., sem fékk málið til meðferðar, hefur náðst samkomulag í n. um að afgr. málið með þeim breyt., sem þar getur á þskj. nr. 714.

Ég vildi um leið leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta mál í heild. Ég vil taka fram, að þau orð mín eru ekki fyrst og fremst fyrir n. hönd allrar, heldur vil ég nota þetta tækifæri til þess að láta í ljós mínar skoðanir á þessu máli. — Frv. fór upphaflega fram á það, að niður yrðu lögð ellefu prestaköll, Sandaprestakall, Stóra-Núpsprestakall, Staðarhraunsprestakall, Breiðabólstaðarprestakall á Snæfellsnesi, Staðarhólsþing, Hrafnseyrarprestakall, Staðarprestakall í Aðalvík, Tröllatunguprestakall, Tjarnarprestakall á Vatnsnesi, Auðkúluprestakall og Hvammsprestakall í Laxárdal.

Frv. er byggt á áliti svo kallaðrar skipulagsnefndar prestssetra, sem hafði það meginverkefni að athuga, hvernig væri unnt að greiða úr byggingar- og ræktunarþörf á prestssetrum. Og einn liður í áliti þessarar n. var sá, að unnt væri að fækka prestaköllum nú á næstunni um þessi ellefu. Úr þessu nál. tók svo hæstv. ríkisstjórn þennan þátt og flutti inn í þingið með þessu frv. — Í meðferð hv. Ed. tók málið allmiklum breyt. Menntmn. hv. Ed. hafnaði fækkun þriggja af þessum ellefu prestaköllum, tók út úr frv. niðurlagningu Stóra-Núpsprestakalls, Tjarnarprestakalls á Vatnsnesi og Hvammsprestakalls í Laxárdal, en tók hins vegar upp sjálf till. um niðurlagningu tveggja prestakalla, sem áður greind skipulagsn. ekki hafði gert till. um niðurlagningu á, sem eru Hofteigsprestakall í Jökuldal og Mjóafjarðarprestakall. Þannig var málið afgr. frá hv. Ed.

Nú er það svo, að ég ætla, að flestir geti verið sammála um, að sanngjarnt sé og réttlátt og eðlilegt að sameina eitthvað af prestaköllum úti á landi, af ýmsum ástæðum, ba:ði vegna mjög bættra samgangna síðan 1907, þegar lögin um skipun prestakalla voru sett, og auk þess vegna fólksfækkunar víða í þessum prestaköllum. Hitt er ljóst, frá mínu sjónarmiði, að jafnhliða því, sem þannig mætti fækka prestaköllum með sameiningu, þá er nauðsynlegt að fjölga prestum, þar sem fjölmennið er mest. Í lögum frá 1940 um prestaköll í Reykjavík er sett fram sú meginregla, að einn prestur skuli vera á hverja fimm þús. íbúa. Það þýddi, að í höfuðstaðnum ættu nú að vera ellefu prestar, eftir þeirri meginreglu, sem Alþ. lögfesti þá.

Ég er ekki viss um, að það horfi til bóta né sé eðlilegt, að fram fari fækkun presta í heild, heldur sé eðlilegra og sjálfsagðara að framkvæma tilfærslu, sameiningu og fækkun þeirra, þar sem fækkað hefur fólkinu, en fjölgun þar, sem fólkinu hefur fjölgað. — Í þessu stjfrv. kom ekkert fram um það, að rétt væri eða eðlilegt að fjölga prestum, þar sem fólksfjölgun hefur orðið veruleg. — Í annan stað var þetta mál borið fram í þinginu án þess að haft væri samráð um það við þá aðila, sem eftir eðli málsins hefði átt að hafa samráð við, og jafnvel samkv. lögum. Í lögum um kirkjuráð er gert ráð fyrir því, að leitað sé umsagnar og haft samráð við kirkjuráðið um slík mál sem þessi. Hins vegar leitaði menntmn. hv. Ed. til kirkjuráðs og fékk frá því umsögn, sem birt er sem fylgiskjal með nál. efrideildarnefndarinnar á þskj. 530. Kirkjuráð gagnrýnir mjög frv. og telur höndum til þess kastað, þannig að undirbúningur þess sé ekki nærri nógu góður og að á frv. séu margir gallar. Kirkjuráðið telur, að nauðsyn sé á, að fram fari ýtarleg athugun á prestakallaskipun landsins í heild, og verði biskupi falið að láta framkvæma hana og leggja síðan frv. til laga um skipun prestakalla fyrir prestastefnu og kirkjuráð til umsagnar. Þrátt fyrir þetta var nú málið afgr. frá hv. Ed. með þessum hætti og þessari breyt., sem ég gat um. — Menntmn. hv. Nd., sem fékk málið til meðferðar, ræddi málið á ég ætla fjórum fundum, og voru mjög skiptar skoðanir í n. um afgr. þess. Sumir hv. nm. vildu láta samþ. frv. að mestu óbreytt. Ég, fyrir mitt leyti, var þeirrar skoðunar, að eðlilegast væri að fresta málinu eða afgr. það með rökst. dagskrá, sem fæli það í sér, að allsherjarendurskoðun skyldi fara fram á skipun prestakalla, áður en nokkuð væri lögfest um þessi mái. N. átti viðræður við kirkjumrh. og varaformann kirkjuráðs, Ásmund Guðmundsson, og síðast átti form. n. viðræður við biskupinn, eftir að hann kom heim. Í þessum viðræðum kom í ljós, að hæstv. kirkjumrh., og að því er virtist ríkisstjórnin í heild, lagði á það áherzlu að fá málið samþ. á þessu þingi. Hins vegar taldi kirkjuráðið og biskupinn það ekki hæfa að afgr. slíkt mál nú þannig, að til framkvæmda kæmi strax, án þess að nánara samráð hefði verið haft við forráðamenn kirkjunnar í þessu máli. Eftir ýtarlegar viðræður í n. og samningatilraunir um þetta, tókst loks að ná samkomulagi á þeim grundvelli, sem getur í brtt., sem n. flytur. Og þær brtt. eru í stuttu máli þessar. Frv. verði að vísu samþ., en komi ekki til framkvæmda fyrr en um næstu áramót. En nú þegar sé, eins og kirkjuráð og biskup hafa farið fram á, efnt til allsherjarendurskoðunar á löggjöfinni um skipun prestakalla í landinu, og verði kostað kapps um að ljúka þeirri endurskoðun fyrir næsta haust, þannig að frv. um heildarskipun

prestakalla verði lagt fyrir haustþingið. Með þessu er reynt að ná þeim tilgangi að verða við óskum kirkjumrh. um það að afgr. nú frv., en hins vegar að mæta þeim sanngjörnu og sjálfsögðu óskum yfirmanna kirkjunnar og trúnaðarmanna hennar, að lögin komi ekki til framkvæmda fyrr en í samráði við þá og fram fari gagngerð endurskoðun á þessum málum, og Alþ. hafi átt þess kost að nýju að taka þessi mál til meðferðar. Þess vegna er svo fyrir mælt í þessari brtt. síðari, sem n. flytur, að ríkisstjórnin skuli nú þegar efna til endurskoðunar á löggjöfinni um skipun prestakalla, og skuli kostað kapps um að ljúka endurskoðuninni svo fljótt, að frv. um heildarskipun prestakalla verði lagt fyrir Alþingi næsta haust. Við þá endurskoðun skal hafa náið samband við biskupinn yfir Íslandi, kirkjuráð, Prestafélag Íslands og prestastefnu.

Í jafnþýðingarmiklum málum eins og þessum, sem snerta þjóðkirkjuna jafnverulega, verður það auðvitað ekki talið hæfa að gera verulegar breyt. á skipan þessara mála, skipan prestakalla, án þess að þessum forráðamönnum og trúnaðarmönnum þjóðkirkjunnar gefist nægur kostur og tími til þess að fjalla um þau mál, þannig að þeirra skoðanir komi fram. Auðvitað kann svo að fara, að ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar annars vegar og trúnaðarmenn þjóðkirkjunnar hins vegar, þessir aðilar, sem hér eru nefndir, nái ekkí samkomulagi um endanlega afgr. málsins, og verði þá Alþ. að skera þar úr á sínum tíma að lokum. En þá hefur Alþ. a.m.k. sýnt fulltrúum kirkjunnar og þjóðkirkjunni í heild þann velvilja og það tillit að gefa henni kost á að túlka sín sjónarmið og láta sinn vilja koma fram.

Ég skal ekki láta þessi orð vera fleiri að sinni. En ég taldi rétt að láta koma fram mína skoðun persónulega á málinu, auk þess að gera grein fyrir afstöðu n. til málsins og afgr. þess í n. En þeirri afgr. lauk svo, þrátt fyrir verulegan skoðanamun í upphafi, að það náðist óskipt fylgi með frv., ef þær brtt. væru samþ., sem greinir á þskj. 714.