02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

95. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er nú ofsagt hjá hv. þm. Barð., að ég hafi sótt þetta mál með kappi. Það er mjög ofsagt, því að eins og hv. þm. er kunnugt hér og öllum hv. alþm., þá er þetta mál undirbúíð af svo kallaðri prestakallanefnd. Og í þeirri nefnd er ritari biskups, skrifstofustjóri í kirkjumrn., sem hefur farið með þessi mál í mörg ár, og nýbýlastjóri, sem á að vera kunnugur því, hvaða prestssetur ætti að leggja niður og hvernig þeim ætti að skipta í nýbýli. Svo að það er ekki eins og þetta mál sé borið fram af einhverri þrákelkni af minni hálfu. Sannleikurinn er miklu frekar sá, að það hefur beðið allt of lengi, að nefndin hafi skilað áliti um þessi mál og gert það, sem hún átti að gera. Og það eru nú ekki vandfundin rök fyrir því, þar sem skilríki liggja um það á borðunum fyrir framan okkur, að lögboðin eru nú prestssetur á öllum þeim stöðum, sem við stefnum nú að að leggja niður sem prestssetur, án þess þó, að það hafi fengizt þangað prestur, og án þess líka, að mönnum detti í hug, að það komi prestur á flesta þessa staði. Ég skal ekkert segja um Rafnseyri. — Og svo fer, eins og oft fara vill, þegar mál eru borin fram, að sú stétt, sem þarna er um að ræða, vill vitanlega öllu ráða um málið. En ég hef nú bent þessum ágætu mönnum sem hafa komið til mín, bæði biskupi og kirkjuráðinu, á, að þeir hafi ekkert gert í þessu máli fram til þessa, þótt þeir hafi horft á það t.d., að í Austur-Skaftafellssýslu væri einn prestur og yfir honum prófastur, sem er sami maðurinn. Svona er það þar, sem erfiðast er yfirferðar. Og þessir aðilar, sem ég nefndi áðan, hafa horft á það, að lögin hafi verið brotin, — því að prestssetur, sem lög eru fyrir, á að auglýsa, en það hefur ekki verið gert um sum þau afskekktari. En svo vilja þeir þó skipta sér af þessu. Þarna er einn prestur í Austur-Skaftafellssýslu, eins og ég sagði. En í sveit eins og Rangárvallasýslu, þar sem ekki er erfitt yfirferðar, þar eru sex prestar ónandi. Í Skagafirði þar sem akvegir eru góðir og hver á er brúuð innan fjallahringsins, þar eru átta prestssetur og sjö þjónandi prestar. Hér er því mikið ósamræmi.

Nú viðurkenni ég að sjálfsögðu það, sem hv. þm. Barð. segir, að þetta er ekki fullkomin endurskoðun á lögunum, sem hér er verið með. Það er alveg rétt. En það fer nú svo, þó að þessir menn, sem hv. þm. Barð. taldi, að ættu að vera til ráðuneytis, hafi ekkert skipt sér af þessu ástandi til að bæta úr því, þá koma þeir nú og vilja ráða. Og það sýnir þá þrákelknina — eða hitt þó heldur — í þessu máli, að eftir að hafa talað við kirkjuráð og biskup og spurt: Hvað viljið þið í þessu? - þá er þetta mál hér flutt í samkomulagi við þá. Þeir sættu sig við það. — Í sambandi við frv. skulum við taka til dæmis Auðkúluprestakall, sem losnar í vor. Það hefur verið byggð brú yfir Blöndu þarna nálægt, og eftir það er auðvelt fyrir einn prest að þjóna beggja vegna við ána á þessum stað. Ég er ekki í vafa um, að það vilja ýmsir prestar fá þetta prestakall, Auðkúluprestakall, þegar það losnar í vor, að lögum óbreyttum. Þetta er framúrskarandi jörð og mjög hægt prestakall. Og hvernig á ég að neita um að auglýsa það, að óbreyttum lögum? Aftur á móti segir hv. þm. þessa kjördæmis, Austur-Húnavatnssýslu, sem sjálfsagt hugsar um hag þess, að það megi ekki koma fyrir, að þetta prestakall verði auglýst. En þessari jörð má skipta í nýbýli. — Og lítum á Kollafjarðarnes. Ég tel ekki þörf á því, og prófasturinn í Strandasýslu telur ekki þörf á því, að þar komi prestur aftur. Um það eru annars skiptar skoðanir. En ég er ekki í vafa um, að eftir svo sem tvö ár verða allar ár orðnar brúaðar þarna á strandlengjunni, og verður þá allt öðruvísi að fara þarna um heldur en þegar fjórtán ár voru þarna óbrúaðar. Í Kollafjarðarnesi er mikið æðarvarp og nokkur reki og framúrskarandi tún og möguleikar til að stækka það. Ég get þó ekki staðið gegn því, að þetta prestakall verði auglýst, að óbreyttum lögum. En eftir frv. og því samkomulagi, sem ég gat um áðan, er mér ekki skylt að auglýsa þessi tvö prestaköll fyrir næstu áramót, þar sem þau eru samkv. frv. lögð niður, þannig að málið liggur þá kyrrt og ég brýt ekki lög með því að auglýsa ekki þessi prestaköll til umsóknar. Síðan er sagt með ákvæðum þessa frv. — þessum lögum, ef frv. verður samþ., — við biskup og kirkjuráð: Nú á að endurskoða lögin. Og þá er ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sé að breyta til, t.d. með Rafnseyri, ef vilji er fyrir því hér á Alþ. — Svo að ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Barð. sannfærist um, að ég hafi ekki verið né sé með offors í þessu máli. — Til mín komu tveir ágætir prestar, prófessor og prófastur, sem ég virði mjög mikið báða. Og ég gat ekki fundið annað en að þeir yrðu að fallast á þau rök, að af því að það hefur bjargazt þannig fram til þessa, að menn sækja ekki eftir þessum prestaköllum, af þeim ástæðum að þau eru illa byggð, þá væri réttara að leggja þau niður en að láta þau vera eins og þau nú eru. — Og eins og ég sagði við sr. Sveinbjörn Högnason, vil ég nú segja við hv. þm.: Hvernig haldið þið, að litið yrði á það í Fljótshlíðinni, ef prestakall þar losnaði og ég léti prestssetursjörðina níðast niður með því að leigja hana frá ári til árs? Því að það endurbætir enginn jörð, sem hann getur búizt við að þurfa að yfirgefa þá og þegar. En þetta hefur átt sér stað um þau prestssetur, sem ekki hefur verið sótt um. — Og svo koma prestssetrin Auðkúla og Kollafjarðarnes, þar sem prestaköllin losna, og væri það lögbrot af minni hendi, ef ég ekki auglýsti þau. Ég held því, að við verðum sammála um, að þarna í frv. hafi verið tekin öll sjónarmið til greina, sem rétt hafi verið að taka tillit til í þessu máli. Og ég talaði við herra biskupinn, strax er hann kom heim frá Vesturheimi, og ég gat ekki betur fundið en að hann væri ásáttur um þetta samkomulag, sem í raun og veru var orðið við kirkjuráð í þessu máli.