02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

95. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Enda þótt ég sé óánægður með þetta frv. eins og það er og telji, að það náist ekki með því nema lítill hluti af því, sem á að nást, þá mun ég samt fylgja því. En það eru 2 atriði, sem ég vildi benda á, og alveg sérstaklega til athugunar fyrir þá n., sem með þetta kann að fara. Það fyrra er, að það er alveg nauðsynlegt að taka til gagngerðrar athugunar, að í mörgum prestaköllum í landinu hefur þurft að færa til prestssetrin, og það hefur verið gert þannig, að þau liggja svo illa og óhagstætt við þeirri þjónustu, sem presturinn á að veita, að það er nauðsynlegt að færa prestssetrin til. Á móti þessu virðist mótspyrna víða. Þetta er svo, að prestaköllin eru kölluð eftir prestssetrunum sem er raunverulega búið að leggja niður og flytja fyrir nokkru síðan. En hitt, sem ég vildi benda á, er það, að ég tel rétt að taka upp heiti á prestaköllum eftir prestssetrum. Það er ekkert vit í því að vera að kalla prestaköllin eftir prestssetrum, sem búið er að leggja niður fyrir áratugum; það er sjálfsagt að taka upp heiti á þeim eftir prestssetrunum, og ég vil láta athuga, hvar prestssetrin eiga að vera, og því þarf verulega að breyta. — Að öðru leyti skal ég ekki taka þátt í þessum umr. Ég hef áður látið það álit uppi, að ég teldi enga nauðsyn á því, að prestar væru fleiri en læknar, og ég hef ekki orðið var við það í mínu lífi, að það þyrfti oftar á manni að halda til að lækna andlega séð heldur en lækni, og ég tel ekki þörf á fleiri læknum, en það er annað sjónarmið, sem ég geri ekki ráð fyrir, að verði tekið tillit til. En hins vegar verður að hafa prestssetrin þannig, að þau séu vel sett nú, en ekki þar, sem þau voru vel sett fyrir 100–200 árum, því að atvinnuhættir hafa breytzt, og það nær ekki nokkurri átt annað en að færa mörg þeirra.