01.03.1951
Efri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé að hæstv. ráðh. liggur á að fá stimpil hv. Alþ. á nokkurn hluta af þeim ráðstöfunum, sem sumpart eru byrjaðar og sumpart fyrirhugaðar sem bráðabirgðalausn í sambandi við sjávarútveginn. Í þessu sambandi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðh. í tilefni af yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., hvort ætlunin sé að leita eftir samþykki Alþingis til þess að taka 1/6 af innflutningnum og binda þannig ákveðið magn innflutningsins í því skyni, að lögð verði á hann álagning, sem nemur 50–60%. Ég vil ekki fullyrða, að stjórnin fremji stjórnskipunarbrot með þessu, en þetta er gersamlega óþingræðislegt og ekki samboðið hæstv. ríkisstj. á nokkurn hátt. Hér eru hafðar sex umræður um örsmá fjárveitingaratriði, en hér er um að ræða hvorki meira né minna en álagningartoll, sem nemur minnst 50–60 millj. kr. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi svar við þessari fyrirspurn og svari jafnframt, hvernig á því getur staðið, að þingræðisstjórn í þingræðislandi hefur slíka háttu á við afgreiðslu hinna þýðingarmestu mála.

Meginatriði þessa frv. eru þrjú:

Fyrsta atriðið og það veigamesta er að afnema verðlagseftirlitið í landinu með öllu. Það skal að vísu játað, að orðalag 1. gr. segir þetta ekki beinlínis, en málflutningur hæstv. ríkisstj. undanfarna daga sannar, að þetta er tilætlunin. Hefur komið ljóslega fram í ræðum hæstv. ráðh., að þeir telji samkeppni og frjálsa verzlun skapa hið eðlilega og lægsta verð á vörunum, og er það röksemd þeirra fyrir því að afnema verðlagseftirlitið. Er þessi lagabreyt. gerð með þetta fyrir augum. Það er augljóst, að afleiðingin verður sú, að enginn getur flutt inn ákveðna vöruflokka til landsins nema þeir, sem hafa B-lista gjaldeyri, og er það tilætlunin, að þessar vörur verði skattlagðar um 50–60 millj. kr. En jafnframt er augljóst, að tilætlunin er að fella niður verðlagseftirlit á frílistavörum, sem nema 60% af innflutningnum til landsins, — umboðslaunum, þóknun og öðru, sem máli skiptir um verðlag í landinu. En þá eru eftir vörur í landinu — um 20% af innflutningnum — sem engar yfirlýsingar liggja fyrir um af hálfu ríkisstj., hvað gera eigi við.

Í sambandi við fyrirhugaðan frílista langar mig til þess að spyrja um tvennt. — Í fyrsta lagi, hvort hæstv. ríkisstj. hefur tekizt að fá önnur lönd innan Greiðslubandalags Evrópu til þess að taka okkar fisk upp á frílista hjá sér. Mér virðist ómögulegt að opna okkar land fyrir frílistainnflutningi án þess að vita fyrir fram, hvort okkar aðalútflutningsvörur sæti sömu kjörum. Mér þætti vænt um, að hæstv. ráðh. upplýsti þetta. — Í öðru lagi, hvort ríkisstj. telji sig hafa heimild til þess að taka 60 millj. kr. lán, en enginn veit, hve margar krónur það verða, er greiðslan hefst eða þegar henni er lokið. Þetta lán er ekki tekið til þess að stofna til ákveðinna framkvæmda, atvinnuaukningar, til þess að auka verðmæti með auknum framleiðslutækjum eða til húsabygginga o.fl., heldur til þess að kaupa mat í fólkið til viðbótar 100 millj. kr. gjöfum til matarkaupa, af því að 100 millj. kr. andvirði útflutningsverðmætanna er bundið til kaupa á öðrum vörum, sem ríkisstj. telur ekki beinlínis nauðsynlegar, heldur æskilegar. Ég hef heyrt skýringar hæstv. ráðh. á því, að andvirðið eigi ekki að vera notað sem eyðslufé og ríkissjóður leggi það inn á sérstakan reikning í Landsbanka Íslands.

Þriðja atriði er um það að afnema söluskatt af bifreiðum, og út af fyrir sig skal ég ekki finna svo mjög að því. Það er rétt, að þessi skattur hefur ekki gefið af sér miklar tekjur, en mér er ekki grunlaust um, að ríkisstj. hafi ekki sýnt sérlega mikla röggsemi hvað innheimtu þessa skatts snertir. Það er rétt, að þessi skattur er óvinsæll af þeim, sem þurfa að greiða hann, en ég veit ekki til þess, að hann hafi verið óvinsælli en aðrir skattar, svo að það er ekkert sérstakt um þennan skatt. En röksemd ríkisstj. er út af fyrir sig ekki þessi; heldur sú, að nú sé komið það „paradísarástand“ hér, að nú sé ekki þörf á þessum skatti hér lengur, sem sagt, að það hefði gerzt hér, að verð á bifreiðum væri nú það sama og það var, er svarti markaðurinn var í algleymingi. En mér er ekki fullkomlega ljóst gildi þessara raka. Verð á bifreiðum hefur hækkað mikið síðan þessi skattur var lagður á, af því að innflutningur á bifreiðum hefur verið stöðvaður um nokkurt skeið. Í öðru lagi græða þeir, sem selja gamlar bifreiðar fyrir margfalt kaupverð þeirra, enda þótt það geti vel verið rétt, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta atriði.

Annars ætla ég ekki að fara að karpa um þessa gr. frv., ég get verið henni samþykkur að mestu leyti.

Ég vil svo að lokum bera hér fram tvær spurningar, sem mér þætti vænt um, að hæstv. viðskmrh. vildi svara: Telur hæstv. ríkisstj., að hún hafi lagaheimild til þess að breyta skipulagi innflutningsins í það horf, sem hún hefur gefið yfirlýsingar um, með þessu frílistafyrirkomulagi? Og í öðru lagi: Hvað hefur ríkisstj. gert til þess og hvaða tryggingu hefur hún fyrir því, að höfuðframleiðsluvörur okkar verði settar á frílista í helztu viðskiptalöndum okkar í Greiðslubandalagi Evrópu?