02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Það kennir nú margra grasa í þessu frv., því að það er um breyt. á l. um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm í fyrsta lagi; enn fremur er það breyt. á l. nr. 100 1948 um að afnema söluskatt á bifreiðum. Þetta eru breyt. á tvennum óskyldum l., og loks er það lagafyrirmæli, sem undir venjulegum kringumstæðum er flutt sem sjálfstætt frv., um heimild til að taka lán til kaupa á neyzluvörum. — Nefndin hefur klofnað um málið og fyrst og fremst þannig, að meiri hl. vill samþ. frv. efnislega, en ég er algerlega andvígur stefnu frv. Hins vegar hefur n. í raun og veru, eins og hv. frsm. tók fram, þríklofnað, eða fjórklofnað, þó að það séu ekki nema þrjú nál., þar sem einn úr meiri hl. er andvígur einu atriði af þessum þrem atriðum, sem í frv. eru. Hins vegar vill 2. minni hl. skipta því í þrjú frv., eins og eðlilegra hefði verið, þar sem hér er um þrjú atriði að ræða. En meginágreiningurinn á milli mín og hinna hv. nefndarmanna er um sjálft efni frv., þ.e.a.s. 1. og 2. gr. þess.

Með þessu frv. er ríkisstj. að biðja um staðfestingu á því, sem hún er raunar búin að gera fyrir löngu. Þetta á að vera staðfesting á ráðstöfunum, sem ríkisstj. hefur gert, meðan Alþ. hefur setið á rökstólum, án þess að spyrja þingið og án þess að skýra frá þeim, fyrr en núna við eldhúsumræðurnar. Þó er hér um að ræða aðgerðir, sem skipta munu meira máli og verða örlagaríkari fyrir efnahag íslenzku þjóðarinnar en nokkurt það mál, sem fjallað hefur verið um á þessu þingi. Mér sýnist, að með þessu háttalagi sé verið að flytja hið formlega æðsta vald þjóðarinnar úr höndum Alþ. til ríkisstj., en hið raunverulega vald er í útlöndum. Ef svona heldur áfram, þá mun innan skamms verða lítið eftir af þingræðinu.

Um málið sjálft hefur verið rætt áður allýtarlega. Með 1. gr. er verið að biðja um eins konar staðfestingu á útgerðarmannagjaldeyrinum. Það er ekki gert af virðingu fyrir þinginu, því að hæstv. ráðh. sagði, að sennilega væri þessi lagasetning óþörf, en þó höfðu einhverjir lögfræðingar talið vissara að setja þessi fyrirmæli í lögin. En þessi grein fjallar sem sagt aðeins um formsatriði frá sjónarmiði hæstv. ráðh. En úr því að þingið er spurt, er bezt, að það svari, og ég lít svo á, að svarið geti aðeins verið á einn veg. Alþ. á að fordæma þetta athæfi hæstv. ríkisstj., bæði aðferðina og ekki síður efnið sjálft, því að ég tel það fráleitt. Hér er verið að gera ráðstafanir til hækkunar á vöruverði, og með þeim hætti, að ákveðnir menn fái einokun á verzlun, sem grípur yfir 1/6 hluta af innfluttum vörum til landsins. Þessum mönnum er ætlað að græða á þessari vöruhækkun um 50 millj. kr. á ári, auk annars verzlunargróða, því að það er augljóst, að hér eru opnaðir möguleikar fyrir keðjuverzlun, en það hefur aftur í för með sér, að mikill hluti gróðans fer til annarra en útgerðarmannanna sjálfra. Ég hef heyrt formælendur þessa máls segja, að menn geti bara látið vera að kaupa þessar vörur; menn geti látið vera að kaupa sápu, klósettpappír og aðrar hreinlætisvörur. Þeir, sem eiga bifreið, geta látið vera að kaupa varahluti í hana. Nú, þeir, sem eru að byggja hús, þurfa þá ekki að kaupa baðker eða lása eða hjarir á glugga. Maður talar nú ekki um óþarfa eins og húfur og hatta. Með slíkt hafa menn ekkert að gera. Þetta hefur maður heyrt margendurtekið. Og það skyldi þá ekki bráðlega fara að verða alger óþarfi að ganga í fötum?

Með þessu frv., ef að lögum verður; er ríkisstj. að gefa heimild til að afnema verðlagseftirlit með öllu, og það virðist líka vera ætlunin nú. Hvaða afleiðingar slíkt kann að hafa, erum við ekki búnir að sjá fyrir endann á. En það, sem ríður þó baggamuninn frá mínu sjónarmiði í þessu máli, er það, að þessar aðgerðir munu ekki ná þeim tilgangi, sem þeim er ætlað að ná, sem sé að hjálpa hinum raunverulegu framleiðendum fisksins. Nýlega hafa verið gefnar þær upplýsingar, að það væri ekki til neitt fast verð á fiski í landinu. Víðast hvar mun það þó vera 75 aurar, og það eru litlar horfur á því, að sjómenn fái nokkuð af þessum svartamarkaðsgróða, og hætt er við, að útgerðarmenn muni í mörgum tilfellum ekki sjá mikið af honum heldur. Það eru því allar horfur á því, að lítill hluti þessa gróða lendi til framleiðendanna sjálfra, og þar af leiðandi munu þessar aðgerðir ekki bera ávöxt. Verkfalli útgerðarmanna hefur að vísu verið aflétt, en eftir sem áður eru þó dauðamörk á þessari framleiðslu. Þetta var nú um 1. gr. frv.

Þá er það 2. gr., sem er að vísu um annað efni, en stendur þó í sambandi við ráðagerðir ríkisstj. í þessu máli, þar sem það var skilyrði fyrir, að útgerðarmenn fengju þennan gjaldeyri til ráðstöfunar, að ríkisstj. gæti útvegað einhvern veginn lán erlendis frá. Mér virðist það dálítið undarlegt hátterni að fara fram á heimild til lántöku erlendis, á sama tíma og ríkisstj. hrósar sér af því, að nú sé gjaldeyrisástandið betra en það hafi verið um langt skeið og það fari batnandi og auk þess muni nú Marshallgjafafé verða stóraukið á næstunni, eða um 100 millj. kr. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki ætlazt til, að þessi lánsheimild yrði notuð. Til hvers er þá verið að biðja um hana? Mér sýnist, að þetta séu einmitt rök fyrir því, að það eigi ekki að veita hana, þar sem þessi orð sýna ljóslega, að það eru engar ástæður fyrir hendi, sem réttlæta að taka þetta lán. Ég tel ekki rétt að taka erlend lán til kaupa á neyzluvörum, nema þá í ýtrustu neyð, en sem betur fer veit ég ekki til, að nokkuð slíkt sé yfirvofandi. En að fara inn á þessa braut að öðrum kosti, tel ég vera að stefna beint að því að glata efnahagslegu sjálfstæði, því að öllum mun ljóst, að ef lántökurnar miða ekki að því að auka framleiðsluna, þá verður ástandið mun verra en áður, er lánin þrjóta og liður að skuldadögum. Slík eyðslulán hljóta að kalla á ný eyðslulán. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri ekki eyðslulán, sem hér væri verið að fara fram á heimild til að taka, því að andvirðið í krónum yrði lagt inn í sérstakan reikning í Landsbankanum. Við þetta er að athuga í fyrsta lagi, að það veit enginn, hvers virði þessar krónur verða, þegar á að fara að nota þær til „greiðslu á láninu“, og í öðru lagi verður lánið aldrei greitt með þessum krónum, heldur í erlendum gjaldeyri, nokkur hluti þess meira að segja í dollurum, og þess gjaldeyris verðum við að afla. Nú eru í uppsiglingu miklar verðhækkanir í viðskiptalöndum okkar, og ef við tökum slíkt eyðslulán nú, þá eigum við það á hættu að gera mikil kaup á verðbólgutímum, en greiða skuldina á krepputímum. Því hefur verið haldið fram, að þessi lántaka sé nauðsynleg, til þess að hægt verði að flytja inn nægar vörur og bæta með því verzlunarástandið. Mér sýnist nú, að litlar horfur séu á bættu verzlunarástandi, ef verðlagseftirlit verður nú afnumið að miklu eða öllu leyti, samtímis því að ætlazt er til, að mikill hluti neyzluvaranna verði seldur á svörtum markaði, enda mundi lítill hagnaður að því að fylla alla búðarglugga af vörum rétt meðan verið væri að eyða láninu, því að ástandið mundi versna mjög, þegar það væri uppurið, svo framarlega sem engar ráðstafanir yrðu gerðar til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Það hefur aldrei þótt ráðlegt að láta volgan vökva drjúpa í skó sinn í frosti. Hitt er svo annað mál, að það getur oft verið sjálfsagt að taka erlend lán til kaupa á framleiðslutækjum. Slík lán auka gjaldeyristekjurnar í stað þess að rýra þær. Af þess konar lánum má t.d. nefna lán til áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju o.s.frv. Sömuleiðis tel ég rétt að taka láu til kaupa á byggingarefni, ef enginn kostur er að fá það á annan hátt. Að eðlilegum hætti ætti það ekki að vera nauðsynlegt, en staðreyndin er sú, að stjórnin er að stöðva byggingar að mestu leyti og ber við gjaldeyrisskorti. Hér er um allt annað en kaup á neyzluvörum að ræða, þar sem gjaldeyririnn er lagður í varanleg verðmæti, og ef nokkur innflutningur getur lækkað verðbólguna, þá er það innflutningur á vörum til byggingar íbúðarhúsa, enda er ástandið í þessum málum síður en svo gott núna, þar sem nú er verið að afnema húsaleigulögin. Ég læt þetta svo nægja um aðalefni frv.

Hvað snertir 3. gr. frv., þá er ég henni samþykkur. Ég held, að það sé ekki mikið gagn að hafa þetta ákvæði lengur í lögum, og ég mun því greiða þeirri gr. atkv. Hins vegar legg ég til á þskj. 762, að 1. gr. falli niður, en 2. gr. breytist þannig, að á eftir orðunum „allt að fjórum milljónum dollara“ komi: til kaupa á framleiðslutækjum, efnivörum til framleiðslutækja og byggingarefni.