02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er varla hægt að segja um fjhn. þessarar hv. deildar, að hún sé ein hjörð. Hvort hægt er að segja, að einn sé hirðirinn, læt ég liggja milli mála, en tvístraðri hjörð hef ég varla séð. Svo á að heita, að hér séu einar samlokur af n., en hitt er allt á tjá og tundri. Skal ég ekki fara langt út í þau atriði.

Ég hef nokkra sérstöðu í n. hvað viðkemur 3. gr. frv. Gat ég ekki fellt mig við till. hinnar ágætu stjórnar, sem ég hef reyndar reynt að fylgja eftir mætti, en það má offylla hvert ker. Mér finnst varhugavert að afnema skatta, sem hafa reynzt vel og hafa gefið ríkissjóði drjúgan skilding. Ég veit ekki, hvort ríkisstj. finnst ríkissjóður of fleytifullur, og skal láta ósagt um það. (GJ: Hvernig er með bókasöfnun?) Ég veit ekkí, en ég sé, að þm. eru farnir að temja sér bókasöfnun, sparisjóðsbókasöfnun, og er hv. þm. Barð. þar líklega framarlega. En þar er ekki sú lausn, sem sumir halda. Ég vil geta þess, að sú reynsla, sem fengin er af þessu gjaldi, spáir í raun og veru ekki góðu, ef það á að afnema það allt í einu. Sumir hafa selt bíla sína og greitt gjaldið, aðrir fara þá leið að leigja sína bíla í bili í von um, að hringlandi yrði á Alþingi, og þeir sleppa alveg. Það er altíða, að bílar gangi í öðru héraði en þeir eru skrásettir í, en eigendurnir þora þó ekki að láta þá gera það lengi, þar sem þeir eru ábyrgir, ef bílarnir eru skrásettir annars staðar en í lögsagnarumdæminu. Þetta er ágalli, sem menn fara að varast, og þeir eru búnir að semja víða um söluna. — Þá kemur að því atriði, að ekki er talað um, hvenær bílaskatturinn hverfi og hvort skrásetning fari fram þann dag, sem sala fer fram. Ef svo er, er ég hræddur um, að ýmsir láti kaupin ganga aftur í bili. Hér vantar ákvæði um þetta. Þetta og ýmislegt fleira gerir það að verkum, að ég get ekki sætt mig við að hlaupa frá þessari tekjulind, því að þetta kemur helzt niður á þeim mönnum, sem geta borgað. Kaup eru kaup, og maður kaupir ekki bíl, sem hann telur sér óhag í að eignast. Ég held, að það sé að fara inn á refilstigu að hlaupa af þessari braut. En þetta er fum og fálm eins og svo oft hjá blessaðri ríkisstj. Ég hygg, að þetta verði ekki til bóta, heldur til þess, að það verður enn meiri launsala og óákveðnir samningar, sem standa viðskiptalífi þjóðarinnar fyrir þrifum.

Nú stend ég með hv. þm. Barð. og fylgi fast að brtt. hans verði samþ.