24.10.1950
Neðri deild: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

36. mál, togarakaup ríkisins (lántökuheimild)

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég greindi frá því, er ég flutti framsöguræðuna um fjárl., hve mikið væri búið að fá af lánsfé til togarakaupa, og benti á, hvað við værum búnir að leggja fram í bili til togarakaupanna, að viðbættum vöxtum, en að þá vantaði um 20 millj. kr., að viðbættum vöxtum. Ég boðaði þá, að ríkisstj. mundi leggja fyrir Alþ. frv. til l. um heimild til þess að taka viðbótarlán, til þess að greiða þessar fúlgur, og er það frv. það, sem liggur nú hér fyrir hv. Nd. og hefur farið gegnum hv. Ed.

Sé ég ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum. En vegna þess, að það liggur nokkuð á afgreiðslu málsins, vil ég vonast til þess, að hv. þdm. greiði fyrir því og að hv. fjhn. gæti tekið málið til meðferðar í dag, þannig að það gæti orðið til endanlegrar afgreiðslu á morgun. Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. fjhn.