03.03.1951
Neðri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Ed. Það hafa komið fram raddir um það, að formið á þessum lögum væri ekki sem æskilegast, þar sem þrjár óskyldar greinar eru settar saman í eitt lagafrv. Ég get viðurkennt, að þetta er alveg rétt, en hins vegar er þetta engin nýlunda á Alþingi, þegar hraða þarf málum af því að komið er að þinglokum. Ég minnist á þetta, því að þetta atriði olli nokkrum deilum í hv. Ed., þar sem þetta form þótti ekki Alþingi boðlegt; en þetta hefur sem sagt oft verið gert áður, eins og ég hef þegar tekið fram.

Það hefur orðið ágreiningur um það, hvernig skilja beri 4. gr. l. nr. 35 4950, um verðlag og verðlagseftirlit. Samkv. lögum um fjárhagsráð, sem þessi grein tekur til, var það ekki talin skylda fjárhagsráðs að leggja hámark á allar vörur, heldur aðeins þær, sem það teldi æskilegt að leggja hámarksverð á, en nú er því haldið fram, að samkv. 4. gr. hinna nýju verðlagslaga sé fjárhagsráði skylt að setja hámarksverð á allar vörur. Það var aldrei tilætlunin með þeim lögum, því að það var einmitt ætlazt til, að það væri á valdi fjárhagsráðs, á hvaða vörur hámarksverð skyldi sett, og það gæti síðan numið úr gildi ýmis ákvæði, ef því þætti það mega. Þess vegna verður með þessari lagagrein tekinn af allur vafi í þessum efnum.

Að því er varðar 2. gr. frv., þá er Ísland þátttakandi í Greiðslubandalagi Evrópu. öll lönd, sem í Greiðslubandalaginu eru, hafa leyfi til yfirdráttarheimildar. Upphæðin, sem Ísland hefur, er 15 millj. dollara, en yfirdrátturinn á að vera greiddur á næstu 3 árum eftir að bandalagið lýkur störfum, en það á að ljúka störfum 1. júlí 4952, ef starfstími þess verður ekki framlengdur. Ef það hættir þá störfum, fellur skuldin í gjalddaga 3 árum eftir, ef löndin hafa ekki samið um annað. Hér er farið fram á að nota af þessu fé 4 millj. dollara, ef nauðsynlega þarf á að halda, og er hér í rauninni ekki um lán að ræða, en ríkisstj. vill hafa heimildina, svo að hún geti notfært sér þetta. Þetta er því ekki lán í þess orðs venjulegu merkingu, eins og komið hefur fram í blöðum, heldur er þetta eins og venjulegur bankayfirdráttarreikningur, sem greiða má hvenær sem er. Þetta er gert til hagræðis fyrir viðkomandi lönd, svo að þau geti greitt aftur inn í reikning sinn, þegar gjaldeyrisástæður þeirra verða betri. — Ég gat þess áðan, að heimild Íslands nemur 15 millj. dollara, en ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að biðja um nema 4 millj. dollara.

3. gr. frv. fjallar um niðurfellingu söluskatts á bifreiðum. Þessi skattur var settur til þess að hefta svartamarkaðsbrask á bílum. Það má telja, að þessi svarti markaður sé að mestu horfinn og því ósanngjarnt að hafa svo háan skatt. Ég hygg, að nýir bílar muni komast upp í svipað verð og verið hefur á svörtum markaði. Eitt atriði kemur hér enn til greina, sem ekki er veigaminnst, en það er, að nú munu hækka varahlutir í bifreiðar á næstunni í sambandi við útvegsmannagjaldeyrinn, og er því talið sanngjarnt að létta einhverju af bifreiðunum.

Ég óska, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr., en hins vegar legg ég ekki til að vísa því til n., en mæli heldur ekki gegn því. Það er nauðsynlegt að fá frv. þetta afgr. úr hv. deild í dag.