03.03.1951
Neðri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla að segja nokkur orð viðvíkjandi þessu máli. — Ég held, að hæstv. ráðh. hafi lítinn áhuga á því, að þetta mál fari í gegn í dag. Ég held, að það eigi endilega að aðgreina þetta frv., og ef stj. leggur áherzlu á að afgreiða það, held ég, að heppilegast væri, að það væri aðeins 1. gr. Hún er aðalatriðið, og ég fæ ekki séð, að það sé hægt með nokkru móti að koma 2. gr. undir þau lög. Þetta atriði ætti að bætast aftan við heimild um lántöku. Mér finnst verða að gæta þess, þegar lög eru afgr., að hafa þau ekki of snúin, svo að ekki sé of erfitt að fara eftir þeim. Ég sé ekki, að það sé neitt óeðlilegt að greina þetta sundur, og það gerir ekkert til, þó að þetta verði ekki afgr. fyrr en eftir helgi. Ég vil taka undir það. að málið fari til fjhn., og skjóta því til hæstv. ráðh., hvort hann geti fallizt á þetta. Þegar lögfræðingar d. lesa grg., sjá þeir, að hér er allt of harkalega tekið til orða. Þegar búið er að samþ. lögin, geta þeir engum öðrum um kennt en sjálfum sér. Hins vegar er greinilega farið fram á að gefa fjárhagsráði víðtækari heimild. Ég held, að út af fyrir sig sé ófært að afgr. það að gefa einni nefnd rétt til að ákveða, á hvaða vörum skuli vera hámarksverð. Þar er gert annað en ætlazt er til. Það er átt við að fella niður verðlagseftirlit um 15%. Fjárhagsráð getur notað þetta til að fella það niður um 90–100%. Mér finnst ákaflega óeðlilegt að gera þetta. — Ég er andvígur 1. gr. frv.

Viðvíkjandi 2. gr. mun ég bera fram brtt. Í fyrsta lagi legg ég til, að henni sé bætt við önnur lög. Í öðru lagi álít ég, að við verðum að takmarka nokkuð þessa lánsheimild við framleiðslutæki og byggingarefni, til þess að tryggja, að þetta verði til að spara fé eða framleiða gjaldeyri. Þeir peningar, sem fara í Sogs- og Laxárvirkjanirnar, fara aðeins til að framleiða orku, en ekki til að framleiða gjaldeyri eins og þeir, sem fara í áburðarverksmiðju. Ég held, að við verðum að gæta vel að okkur að verja meira fé til að efla framleiðsluna. Möguleikinn er, að við verðum í vandræðum með að borga gjaldeyrinn, ef við hugsum ekki um þetta. Ég vil vekja athygli á því, að þó að Marshallaðstoðin sé komin upp í 500 millj. kr., sem við fáum til ráðstöfunar, þá er litlu af því varíð til aukinna framleiðslutækja til að auka útflutninginn. Þá býst ég við, að við sjáum, hve tæpt við stöndum. En ég mun taka þetta til athugunar, þegar málið kemur síðar til umr.

Um 3. gr. frv. er samkomulag. Það hafa áður komið fram frá fjhn. till. um þessa breyt., og er nú komið frá ríkisstj. að taka þetta upp.

Ég skal ekki tefja neitt fyrir þessu máli nú. En ég vil taka undir það með fjhn. Ed., að efni frv. gæti betur farið, með því að vera í fleiri en einu frv., en óska, að skattívilnunin í 3. gr. fengist afgr. á þessu þingi. En að öðru leyti vil ég segja um frv., að það er óviðkunnanlegt, að við hroðum þessum málum svona af. Og við erum búnir að sjá, að slík hroðvirkni hefur leitt til þess, að bæði hafa deilur skapazt út af því, og ríkisstjórnin hefur á sama þingi sem hún hefur hroðvirknislega sett lög þurft að gefa út brbl., vegna þess að gætni hefur vantað í tíma við afgreiðslu mála.