03.03.1951
Neðri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal svara nokkrum atriðum, sem komið hafa fram í ræðum hv. þm., sem talað hafa um málið. — Hv. 8. landsk. þm. (StJSt) sagði, að hér væri verið að gefa fjárhagsráði heimild til þess að afnema verðlagsákvæði. Ég vil benda þessum hv. þm. á, að hér er ekki um neina nýlundu að ræða, vegna þess að áður en nýju lögin um verðlagseftirlit voru sett, þá voru lögin um fjárhagsráð þannig, að fjárhagsráð hafði í hendi sér, hvaða vörur væru settar undir verðlagseftirlit, og hafði þá að sjálfsögðu fullt vald til þess að undanþiggja vörur verðlagseftirliti, sem það hafði sjálft sett á. Þetta hlýtur hv. þm. að vera kunnugt, því að þetta gilti, þegar hann var forstöðumaður ríkisstj. Hann sagði, að það væri eins dæmi annars staðar, skildist mér, að vörur væru ekki settar undir verðlagseftirlit. Þetta er mikill misskilningur hjá hv. þm. Ég vil benda honum á, að t.d. í Bretlandi á stríðstímanum, sem hafði af að segja mikilli vöruþurrð, þá voru þar margir vöruflokkar, sem ekki voru settir undir verðhámarkseftirlit, og þeir vöruflokkar, sem ekki töldust brýnar nauðsynjar almennings. Nú hafa þeir, eftir því sem ég veit bezt, að mjög miklu leyti upphafið verðlagseftirlitið hjá sér. Það kann vel að vera, ef þeir fara að vígbúast af kappi, að þeir verði að setja strangt verðlagseftirlit á vörur, sem ganga inn í hergagnaframleiðsluna. — Og það er svona um hámarksákvörðun verðlags í Ameríku.

Sami hv. þm. talaði um, að þetta lán, sem hér er um að ræða að taka, væri gjaldeyrislán, sem gæti verið mjög hættulegt fyrir landið að taka. Ég vil í því sambandi benda á, að Landsbankinn tekur slík yfirdráttarlán. T.d. á árinu sem leið tók Landsbankinn 45 millj. kr. yfirdráttarlán í Englandi til þess að kaupa fyrir nauðsynjar til landsins. einmitt á því tímabili. sem gjaldeyrisöflun þjóðarinnar stendur lægst. Og það er ekki nema eðlilegt, að við þurfum að taka slíkt lán, þegar útflutningsvara okkar er aðallega send út og fæst greidd síðari helming ársins. Að vísu kemur inn nokkur gjaldeyrir á fyrra helmingi ársins. En sérstaklega ef vörur eru verkaðar, eins og þurrfiskur, þá dregst mjög fram á árið, að gjaldeyrir fáist fyrir þær afurðir. Og þá verður dautt tímabil viðkomandi gjaldeyrisinntektunum að því leyti fyrri hluta ársins og fram yfir mitt ár. — En það sýndist nú ekki, að það væri nein goðgá, eins og sakir standa nú um ýmsar nauðsynlegar vörutegundir, þó að beinlínis væri tekið gjaldeyrislán, til þess að tryggja, að nauðsynlegar birgðir væru af ýmsum vörum í landinu, eins og t.d. rekstrarvörum bátaútvegsins. Þetta er í raun og veru sú stefna, sem ætti að taka undir núverandi kringumstæðum. Er þess vegna furðulegt, að menn skuli amast við því. Það kemur nokkuð þvert við það, sem hv. þm. Ísaf. drap á í sinni ræðu, þar sem hann vildi víkja því að ríkisstj., að hún hugsaði ekki nóg um að sjá um, að fluttar væru inn nauðsynlegar rekstrarvörur til landsins. — Hv. þm. Ísaf. spurði um, hvort það yrðu ekki sett sérstök lög í sambandi við þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera til hjálpar útvegsmönnum, og tók fram, að hann teldi það ekki í anda lýðræðis, ef ekki væri lögð fyrir þingið sérstök heimild handa ríkisstj. til þess að framkvæma þessar aðgerðir, sem hún nú hefur í hyggju. Ríkisstj. hélt í byrjun, að hún mundi þurfa að gera þetta. En við nánari athugun af hennar sérfræðingum hefur hún komizt að þeirri niðurstöðu, að það séu til nægar heimildir til þess að gera þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða. Og ef slíkar heimildir eru til, virðist það vera að bera í bakkafullan lækinn að koma til þingsins og óska nýrra heimilda, þó að ríkisstj. sé ljóst, að það séu til heimildir fyrir þessu. Ég sé ekki, að það sé að fara í kringum lýðræðið að biðja ekki um heimild um það eða til þess, sem ríkisstj. hefur í hendi sér að lögum að gera. Það getur verið í þessu efni, eins og um mýmargt annað, að menn geta náttúrlega deilt um hlutina. Það sýnist ekki vera auðvelt að setja lög, sem tveir lögfræðingar geti ekki deilt um. — Hv. þm. spurði enn fremur, hvernig ríkisstj. ætlaði að tryggja, að þessi hlunnindi kæmu útvegsmönnum að notum. Ég held, að það sé ekki hægt að svara því öðruvísi en á þann veg, að það sé undir útvegsmönnum sjálfum komið, að þeir noti sér þessi hlunnindi, því að framkvæmdirnar eru í þeirra höndum. Ríkisstj. lætur þá hafa verkfærin að vinna með, og svo er það þeirra að hagnýta sér það. — Hv. þm. gat enn fremur um það, að hér væri um svo stóran hluta innflutningsins að ræða, að það væri ekki vogandi annað en að sérstakrar heimildar væri aflað handa ríkinu í þessu efni. Það er rétt, að þetta má kalla verulegan hluta innflutningsins. En hvaða eðlismunur er þá á því að þurfa að afla slíkrar heimildar, ef um er að ræða annars vegar 80–90 millj. kr. innflutning eða hins vegar 30 millj. kr. innflutning? Því að þegar gotugjaldeyririnn var hér til meðferðar á síðasta ári, þá hygg ég, að andvirði hans hafi farið upp undir 30 millj. kr., en ég þori þó ekki að fullyrða um upphæðina. En það var að verulegu leyti svipaðs eðlis eins og það, sem nú er hér um að ræða, og þá var ekki talin þörf á að afla sérstakrar heimildar til þess að gera það löglegt, sem þá var gefið frjálst í sambandi við þann gjaldeyri, né það talið neitt brot á lýðræði, þó að slíkt væri gert, enda er ég ekki í vafa um, að fjárhagsráð hefur heimild til þess að gera slíkar ráðstafanir.

Ég hef nú ekki miklu að svara því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. En ég get ekki fallizt á þá till. hans, að þetta frv. verði nú leyst upp í þrjú frv., sem er sams konar tili. og kom fram í hv. Ed. Eftir hans meiningu ætti að láta aðeins eina grein ganga í gegnum hv. þd. nú. Ég get ekki fallizt á þá tili. hans. Um þessa brtt. hans, sem mér skilst að hann ætli að gera um takmörkun á 2. gr., þá skilst mér, að það muni vera sama till. og borin var fram í hv. Ed. af einum flokksbróður hans, og virðist vera ákaflega óeðlilegt að setja slíka kvöð í sambandi við þessa yfirdráttarlánsheimild.