03.03.1951
Neðri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós hryggð mína yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki ætla að leggja fram annað lagafrv. um þessi mikilvægu mál, sem hér er um að ræða, heldur en frv., sem hér liggur fyrir sem 193. mal þingsins. Hæstv. ráðh. hafði þó í útvarpsumr. ekki aðeins gefið í skyn, heldur beinlínis lýst því yfir, að frv. mundi verða lagt fram um málið í heild. Samt hefur þingheimur ekki fengið að sjá annað en þetta litla frv., sem er ófullnægjandi og veitir enga heildaryfirsýn yfir þá lausn, sem fyrirhuguð er, og kveður alls ekki í einstökum atriðum á um mikilvæga þætti málsins. Þeir virðast eiga að véra algert framkvæmdaratriði. Þeim aðilum, sem hlut eiga að máli um framkvæmdina, virðist ætlað að eiga allt undir ríkisstj. að sækja og verða að hlíta úrskurði hennar hverju sinni.

Það er rétt, þó að hæstv. viðskmrh. hafi andmælt því nokkuð áðan, að sé miðað við nágrannalönd okkar, er það eins dæmi nú á þessu ári og því síðast liðna, að gerðar hafi verið víðtækar ráðstafanir til þess að draga verulega úr verðlagseftirliti. Sú stefna var hins vegar uppi á fyrstu tveimur árunum eftir stríðslokin. Víða hefur verið horfið frá henni og að því að auka verðlagseftirlit á ný. Þessar ráðstafanir, sem hér á að gera, eru því vægast sagt fjögur til fimm ár á eftir tímanum — eins og reyndar fleira hjá hæstv. ríkisstj. — Það er og mjög mikill misskilningur hjá hæstv. viðskmrh., að hægt sé að bera ástandið í Bretlandi og brezk verðlagsmál saman við það ástand, sem hér mun skapast, ef þetta frv. nær fram að ganga. Hæstv. viðskmrh. sagði, að þar væri ekkert verðlagseftirlit á mjög mörgum vörutegundum og að mér skildist á mikilvægum vörum. Það er rangt. Bretar hafa hjá sér mjög víðtækt verðlagseftirlit. Þeir hafa á þessu sviði eftirlitskerfi, sem veitir ríkisvaldinu mjög ríka hlutdeild um verðlag í landinu. Fyrst og fremst gilda bein hámarksákvæði um ýmsar mikilvægar vörur, sem á markaðnum eru, og í öðru lagi eru nokkrar helztu neyzluvörur Breta greiddar niður með mjög miklu framlagi úr ríkissjóði. Í þriðja lagi er þar skipulögð framleiðsla á standardvörum, sem almenningur notar mikið af, þ.e.a.s. utility-vörum, og hefur það mikil áhrif á myndun verðlags í landinu og afkomu almennings. Í fjórða lagi er þar strangt bann við hækkun á húsaleigu, nema eftir vissum, nánar tilteknum reglum. Víðtækar ráðstafanir eru gerðar þar í húsnæðismálum. Og að nefna þetta fyrirkomulag hjá Bretum í sömu andrá og það, sem nú á að innleiða hér, er vægast sagt mikil fáfræði eða bein óskammfeilni.

Þá vil ég spyrja hæstv. ríkisstj., og vil fá glögg svör frá henni um, hvað hún ætlar sér að gera til þess að tryggja, að útgerðarmenn fái í raun og veru 96 aura verð fyrir fisk sinn. Ég leyfi mér að skora á hæstv. ríkisstj. að gefa um það upplýsingar, hvar sé nú þegar greitt 96 aura verð hér á landi fyrir fisk til útvegsmanna. Ég hygg, að sannleikurinn sé, að í landinu sé nú ekkert ákveðið fiskverð, og mér finnst þm. eigi heimtingu á því að fá að vita, hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. ætlar að gera, til þess að þetta 96 aura fiskverð verði fast verð á vertíðinni, sem nú stendur yfir. Og fyrst hæstv. ríkisstj. ætlar sér ekki að leggja sérstakt lagafrv. fram um málið í heild, þá væri æskilegt, að hún gerði grein fyrir, hvað hún ætlast fyrir, til þess að koma í veg fyrir brask með þessar vörur, sem hér koma til greina, svo að álagningin, sem á innflutningsskírteinin kemur, lendi öll í vasa útvegsmanna, en ekki að mjög verulegu leyti í vasa milliliða og margvíslegra braskara.

Það hefur verið nokkuð mikið um það rætt í sambandi við þetta mál, að Alþfl. hafi ekki bent á nein úrræði, sem komið geti í staðinn fyrir þau úrræði, sem ríkisstj. ætlar að framkvæma. Af hálfu Alþfl. hefur verið á það bent, að hann teldi fiskábyrgð í vissu formi koma til greina og vera heppilegri leið fyrir útvegsmenn og neytendur en þá leið, sem hæstv. ríkisstj. er að fara. Þetta hefur verið talið fráleitt, og hæstv. ríkisstj. hefur hliðrað sér hjá að ræða þessi úrræði Alþfl. að neinu ráði. Ég skal skýra lauslega frá því, hvaða skipan Norðmenn hafa á þessum málum, en Norðmenn eru sú þjóð, sem Íslendingar eiga í harðastri samkeppni við á fiskmarkaðnum og hafa svipaðasta aðstöðu og er hér á landi. Norðmenn skipta landinu í fiskverðlagssvæði, og er Lofoten-svæðið stærst. Á hverju verðlagssvæði gildir ákveðið fiskverð, sem allir kaupendur eru skyldir til að greiða. Þetta verð er ákveðið áður en vertíð hefst. Og verðið er samningsatriði á milli sjómanna og útvegsmanna annars vegar og samtaka kaupendanna hins vegar, sem eru frystihúsaeigendur og fisksaltendur. Jafnframt er svo ákveðið í norskum lögum, að ef þessi samtök ná ekki samkomulagi sín á milli um fast fiskverð, þá hefur norska verðlagsstjórnin heimild til þess að ákveða verðið á eigin spýtur. M.ö.o., í Noregi er talið fráleitt að hefja vertíð án þess að ákveðið sé fast fiskverð, sem útvegsmenn og sjómenn megi treysta. Hér aftur á móti er það stefna ríkisstj. að láta fiskverðið vera alveg frjálst samningsatriði milli útvegsmanna og fiskkaupenda, og gerir það öryggi sjómanna mjög lítið. Þetta er stefna, sem norsk stjórnarvöld telja ekki boðlega sínum sjómönnum og útgerðarmönnum. Þeir telja þar ekki boðlegt annað en að þegar vertíð hefst, þá geti þessir aðilar, sjómenn og útvegsmenn, gengið að föstu, ákveðnu fiskverði. Það verð, sem gildir í Noregi á þessari vertíð, er 107 aurar íslenzkir fyrir hausaðan fisk, en 821/3 aurar fyrir slægðan fisk með haus, m.ö.o., um 9% hærra fyrir sambærilegan fisk heldur en var hér á síðustu vertíð og hefur verið hér til skamms tíma. Og svo kynni að fara, að verðið yrði verra en þetta á þessari vertíð hér hjá okkur, ef ríkisstj. gerir ekki eitthvað, sem hún hefur ekki enn tilkynnt, til þess að tryggja fast verð á fiskinum. — Þó segir þetta ekki alla söguna, því að auk þess sem norskum sjómönnum og útvegsmönnum er tryggt 821/3 aura verð fyrir fiskinn, þá eru veiðarfæri og aðrir kostnaðarliðir útgerðarinnar greiddir niður með miklum framlögum, sem gert er ráð fyrir að á þessu ári verði um 22 millj. norskar kr. Norðmenn inna m.ö.o. af hendi svipaðar uppbótagreiðslur á mikilvægum kostnaðarliðum bátaútvegsins og Alþfl. hefur lagt til hér, að teknar verði upp. Eins er enn að geta í skipan Norðmanna á þessum málum, sem er mjög athyglisvert og þeir gera til þess að hækka raunverulegt fiskverð til sjómanna. Auk þess sem hraðfrystihúsin þar og saltendur eru skyldug til þess að greiða hið ákveðna og auglýsta fiskverð, þessa 821/3 aura, þá eru hraðfrystihúsin skyldug til að greiða í verðjöfnunarsjóð, ef þau flytja út við verði, sem færir hraðfrystihúsunum í heild hagnað. Það er reiknað út, hvað sé nauðsynlegur frystingarkostnaður frystihúsanna, og ef þau græða umfram það, sem svarar til hins nauðsynlega kostnaðar, verða frystihúsin að greiða gjald í verðjöfnunarsjóð, og hann er síðan notaður til þess að bæta fiskverðið á þeim stöðum, þar sem afli bregzt, og er þetta fyrirkomulag mjög til fyrirmyndar.

Þessa stuttorðu lýsingu á skipan Norðmanna á þessum málum læt ég nægja, en hún sýnir, hve hlægilegt það er, þegar ríkisstj. segir í sambandi við þær aðgerðir, sem hún er nú í þann veginn að hrinda í framkvæmd, að engin önnur leið komi til greina en sú, sem hún er nú að halda inn á. Ríkisstj. þyrfti þó ekki að gera annað en afla sér upplýsinga um ráðstafanir Norðmanna á þessu sviði, og mundi þá sjást, að þeir hafa á þessu gerólíka skipan, sem ég hygg, að allir muni sannfærast um, að sé miklu heppilegri en sú stefna, sem nú á að taka, ef hæstv. ríkisstj. fær að ráða. Og þessi stefna, sem Norðmenn hafa fylgt hjá sér í þessum efnum, er einmitt sú stefna, sem Alþfl. vill, að tekin verði upp hér á landi í meginatriðum. Kostirnir við norska fyrirkomulagið eru fyrst og fremst þeir, að fiskverðið er fast og því fylgir stóraukið öryggi fyrir fiskimenn og sjómenn; í öðru lagi, að hagur útgerðarmanna og sjómanna er mjög bættur með niðurgreiðslum úr ríkissjóði, og í þriðja lagi er komið í veg fyrir óhæfilegan gróða frystihúsanna með þeim verðjöfnunarsjóði, sem þar er um að ræða.

Ég hef rakið þetta til þess að sýna fram á, hve fráleitt það er í raun og veru, þegar ríkisstj. ásakar Alþfl. fyrir, að hann bendi ekki á neinar leiðir í þessu máli, og að ríkisstj. talar eins og ekki geti komið til greina nein önnur leið en sú, sem hún er að fara.