24.10.1950
Neðri deild: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

36. mál, togarakaup ríkisins (lántökuheimild)

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég býst við, að ekki standi á því, að allir verði sammála um þetta mál. Ætla ég ekki að orðlengja sérstaklega um þessa heimild, sem í frv. felst. En hitt þætti mér vænt um að fá að heyra frá hæstv. fjmrh., hvort ríkisstj. hefur þegar gert nokkrar ráðstafanir viðvíkjandi úthlutun á þessum togurum. Nú mun það vera svo, að útlit sé fyrir, að nokkurn veginn muni standa heima um, að þessir togarar verði til á þeim tíma til afhendingar, sem þeir áttu að vera. Þannig munu vera líkindi til þess, að jafnvel þrír af togurunum verði til um nýár. Og þá er vitanlegt, að þeir, sem ætluðu að reka þessa togara, mundu nú þegar verða að gera ýmsan undirbúning í því sambandi. Og það mundi vafalaust verða til tafar, ef ekki væri búið að úthluta þessum togurum þannig í tíma, að þeir, sem hafa sótt um að fá þá og geta fengið þá, gætu í tíma gert nauðsynlegar ráðstafanir til undirbúnings rekstri þeirra. — Við vitum, að nöfnin á togurunum hafa verið valin án þess að tilvonandi eigendur gætu ráðið þar um. Og væri gott að fá að vita, hvort nöfnin eiga að fylgja þeim, ef þeir t.d. verða seldir úr landi.

Síðast, þegar svipað frv. þessu var til umr. í þinginu, þá voru af hálfu Alþ. teknar nokkrar ákvarðanir um lánveitingar, sem miðuðu að því að reyna að létta tilvonandi eigendum að geta fengið umráð yfir togurunum. Og Alþ. hefur þannig sýnt áhuga fyrir því að reyna a.m.k. að stuðla að því, — þó að maður viti, að margir erfiðleikar séu í vegi, — að ekki sízt gætu t.d. eignazt þá bæjarfélög, sem hafa haft mikinn áhuga á og í raun og veru mikinn a.m.k. félagslegan hagnað af rekstri hinna nýju togara. Og þau mundu hafa ákaflega mikinn áhuga á að fá þessa nýju togara, þó að þau hins vegar hafi ekki eins mikla getu til þess. Og þessar breyt., sem gerðar voru á frv. til þeirra l., sem hér er frv. um viðauka við, miðuðu allar í þá átt að reyna að létta aðilum að kaupa togarana. — Hins vegar er líka hugsanlegt, að hæstv. ríkisstj. hugsaði sér, að ríkið ætti þessa togara og ræki þá. A.m.k. þætti mér viðkunnanlegt, að þingið fengi að heyra, hvað hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér um þessi mál, um þennan rekstur, og hvenær mætti búast við, að ákvarðanir yrðu teknar um það, sem ég hef spurt um.