03.03.1951
Neðri deild: 81. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að beina tveim fyrirspurnum til hæstv. viðskmrh., áður en málið verður endanlega afgreitt. Ég beindi til hans nokkrum fyrirspurnum við 1. umr. málsins, og svaraði hann þeim, og þar á meðal því, að mér skildist, að engra lagaheimilda yrði leitað til að tryggja útvegsmönnum og sjómönnum þau fríðindi, sem þeim hefur verið lofað, né heldur til að tryggja almenning gegn þeirri dýrtíðaröldu, sem afgreiðsla þessa máls hlýtur að valda í landinu. Enn fremur er fullt útlit á, því miður, að þeir spádómar ætli að rætast sem hér hafa verið fluttir um, að þetta muni ekki koma útvegsmönnum að því gagni, sem hæstv. ríkisstj. ætlast til, en verða landsmönnum til því meira ógagns. Það lítur því miður út fyrir, að þessir spádómar séu á fullum rökum reistir.

Þá svaraði hæstv. viðskmrh. því til, þegar ég spurði hann, hvort ekki yrði leitað lagaheimildar að öðru leyti, að ríkisstj. teldi sig hafa fulla lagaheimild. Ég tel fyrir mitt leyti, að svo sé ekki, ég tel, að ekki sé til heimild fyrir þessu í núgildandi lögum og þess vegna sé þegar af þessari ástæðu mjög óviðfelldið og ólýðræðislegt í alla staði að afgreiða þetta mál, eins og gert hefur verið, utan þings. Ég hef lýst þessari skoðun minni áður og skal ekki fara nánar út í það nú, en af því að mér er ókunnugt um þær lagaheimildir, sem hæstv. ríkisstj. byggir á, vil ég biðja hæstv. viðskmrh. að segja mér, hvar þær eru, og benda mér á þær greinar í lögunum, sem hann helzt byggir ráðstafanir sínar á og ætlar útvegsmönnum að framkvæma.

Þá beindi ég þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskmrh. áður, hvort hann teldi ekki ástæðu til nokkurra eftirgrennslana um birgðir á helztu rekstrarvörum, bæði fyrir sjávarútveginn og landbúnaðinn, og nokkurrar fyrirgreiðslu í þessu efni af hálfu ríkisstj., hversu sem verzluninni yrði að öðru leyti hagað. Ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi ekki svarað þessu, og óska því eftir, að hann láti þessari hv. deild í té álit sitt á þessu máli, því að ég hygg, að það sé mikilsvert, að hæstv. ríkisstj. veiti þessu nokkra athygli umfram það, sem mér er kunnugt um, að hún hefur gert.