03.03.1951
Neðri deild: 81. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það fór dálítið fram hjá mér, sem hv. þm. sagði, en ég hygg, að það hafi verið um vörur, sem erfitt væri nú orðið að fá til landsins, og hvað ríkisstj. ætlar að gera í því efni.

Mér er kunnugt um, að það er farið að verða erfitt að afla vissra vörutegunda, en það hafa ekki komið til ráðuneytisins neinar beinar beiðnir frá innflytjendum eða notendum um aðstoð, nema í sambandi við járn- og stálplötur í lýsistunnur. Þetta mál hefur verið tekið upp af ráðuneytinu, bæði í Ameríku og Evrópu. Það stendur þannig af sér, eins og hv. þm. e.t.v. veit, að þau lönd, sem eru í Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, hafa haft þetta mál til umræðu, og fulltrúi okkar í París hefur fylgzt mjög nákvæmlega með því, sem þar hefur gerzt, og það, sem um er rætt, er skipting á þeim hráefnum, sem helzt er þurrð á, en mér vitanlega hefur ekki enn náðst samkomulag um að skipta þessum vörum í ákveðnu hlutfalli til þeirra landa, sem í bandalaginu eru. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að að því dragi, að það verði gert, og þá fá Íslendingar að sjálfsögðu sinn rétt í hlutfalli við aðrar bandalagsþjóðir. Okkar þarfir eru að vísu ekki þær sömu og stærri þjóða, sem þurfa mikið af ákveðnum vörutegundum til hernaðarþarfa, en að sjálfsögðu notum við ýmsar þær vörur, t.d. járn og stál o.fl. Ráðuneytið mun hafa vakandi auga á þessu og gera það, sem hægt er með opinberum aðgerðum, til þess að þær vörur fáist til landsins. Hins vegar er ekki hægt nú, eins og var á ófriðarárunum, að semja við ríkisstjórnirnar um afgreiðslu á slíkum vörum. Ríkisstjórn Bandaríkjanna er ekki enn þá a.m.k. aðili til að láta Íslendinga hafa vissan „kvóta“ af vörutegundum, sem okkur skortir.

Ég vil nú ekki fara að deila við hv. þm. um, hvort hér sé um lagaheimild að ræða. Lögfræðingar, sem hafa athugað þetta, telja, að næg heimild sé í fjárhagsráðslögunum til að framkvæma það form, sem þarf til þess, að þetta geti komizt í gang. En það. að ég hafi heitið útvegsmönnum, að þeir skyldu fá viss fríðindi út úr þessu, er rangt. Þeim hefur aldrei verið heitið, að þeir skyldu fá vissa álagningu; þeim hefur heldur aldrei verið sagt, að þetta yrði ekki háð höftum eða takmörkunum, en þeir mundu fá út úr því eftir því sem eftirspurn gæfi, en engin trygging gefin fyrir, að þeir hafi ákveðinn hagnað af innflutningsréttindunum.

Ég get ekki gefið hv. þm. önnur svör um þetta, því að þetta eru í rauninni ekki mjög fjölþættar framkvæmdir. Þessum mönnum verður gefin eins konar innflutningsheimild, sem þeir svo geta selt öðrum fyrir það verð, sem þeir kunna að fá fyrir það, og ríkisstj. hefur engin áhrif á, hvar þeir selja þessar heimildir eða verð á þeim.