16.01.1951
Efri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

86. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frumvarp þetta er flutt af ríkisstjórninni og er í samræmi við það frumvarp, sem þegar hefur verið samþykkt hér í efri deild um að lækka nokkuð sektir fyrir landhelgisbrot. Það er eðlilegt, að frumvörpin fái sömu afgreiðslu, því að það eru sömu ástæður, sem koma til greina um þau bæði. Þessi hv. d. hefur þegar samþ. frv. um botnvörpuveiðar, og hv. neðri deild hefur einnig samþ. það, með nokkrum breyt. að vísu, en í meginefnum er hún sammála um að gera þá breyt., sem hér um ræðir. — Þessi hv. d. hefur þegar tekið ákvörðun um meginefni þessa máls, og vil ég vænta þess, að málinu verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni 1. umr.