12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vildi nú þegar við þessa umr. drepa aðeins á eitt atriði í sambandi við þetta frv. Það er í sambandi við 2. gr. þess, en þar stendur, að af láni því, sem um ræðir í 1. gr., skuli heimilt að verja allt að 3 millj. króna til iðnaðarlána. Það kemur jafnframt fram í grg. frv., að ætlunin er að stöðva frv. það um stofnun iðnaðarbanka, sem flutt var fyrir nokkru af meiri hl. iðnn. Ég vil taka það fram, að ég er á sömu skoðun um það og áður, að brýna nauðsyn beri til að afla iðnaðinum aukins lánsfjár, bæði stofnlán og lán til rekstrarins, og það er ljóst, að engin lánsstofnun eða banki er til í landinu, sem telur það sitt hlutverk að styðja iðnaðinn í þessu efni. Því var það, að meiri hl. iðnn. taldi rétt að verða við óskum iðnaðarmanna um að flytja frv. til l. um stofnun banka, sem hefði það hlutverk að styðja iðnaðinn í landinu. Nú hefur ríkisstj. svarað þessari málaleitan í grg. fyrir þessu frv., og segir þar, að hún telji ekki tímabært að setja nýja löggjöf um fyrirkomulag lánastarfsemi til iðnaðarins nú á þessu þingi. Um það atriði skal ég ekki ræða að sinni, þar sem tækifæri gefst væntanlega til þess síðar. En hins vegar vildi ég segja það, að þegar ríkisstj. hefur í hyggju að útvega lán til landbúnaðarins og iðnaðarins, sem ég geri ráð fyrir, að hún muni geta, þá virðist mér, að þessum atvinnuvegum sé mismunað mjög. Landbúnaðurinn, sem haft hefur sinn eigin banka á þriðja tug ára, á að fá 15 millj. króna af þessu láni, en iðnaðurinn, sem hefur engan banka, á aðeins að fá 3 milljónir. Með þessu er iðnaðurinn, sem hefur orðið útundan í lánveitingum, enda þótt hann hafi brýna þörf fyrir bæði stofnlán og rekstrarlán, settur skör lægra en landbúnaðurinn.

Ég skal þó ekki draga í efa, að landbúnaðurinn þurfi lánsfjár við, eins og oftar en einu sinni hefur komið fram hér á Alþ. En fyrst hæstv. ríkisstj. fór á annað borð að taka fjárveitingu til iðnaðarins inn í þessa lántökufyrirætlun sína, þá hefði mátt ætla, að þessi atvinnuvegur fengi ríflegri skammt en honum er ætlaður með þessu frv. Ég vildi láta þetta sjónarmið koma fram þegar við þessa umr.