13.02.1951
Neðri deild: 68. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál mun nú fara til n., en áður en það verði, vil ég sæta lagi og spyrja nokkurra spurninga í sambandi við það. Ég vil þó áður taka það fram um fyrsta hluta lánsins, til togaranna, að ég álít, að sú lántaka geti verið eðlileg. En það kemur þá líka í ljós í sambandi við það, hvort heppilegra hefði verið að gera þá nýsköpun atvinnuveganna, sem gerð var, síðar, — hvort þau atvinnutæki, sem þá voru keypt, væru búin að skila þeim gjaldeyristekjum, ef þau hefðu verið keypt seinna.

En það er hitt lánið, sem snertir landbúnaðinn og iðnaðinn. Það er í fyrsta lagi sú spurning, hvort það er nauðsynlegt fyrir landbúnaðinn að fá þessa peninga í erlendum gjaldeyri. Er óhjákvæmilegt að fá þetta lán í erlendum gjaldeyri? Ég veit, að hann skortir innlent lánsfé. Það er mikið talað um, að landbúnaðinn skorti fé, og ég veit, að hann hefur fulla þörf fyrir það. En ég efast mjög um, að allar þessar 15 milljónir fari til landbúnaðarins í erlendum gjaldeyri, heldur að hluti af því fari til annars. Ég efast ekki um, að Búnaðarbankinn þarf á þessu fé að halda, og þess vegna á að taka það og láta Landsbankann gefa út sem því svarar í innlendri mynt. En ég spyr að þessu vegna þess, að mig grunar, að hér eigi að fara að taka 15 millj. kr. lán til þess eins að knýja seðladeild Landsbankans til að gefa út seðla. Af því að ríkisstj. þorir ekki að segja afdráttarlaust við seðladeildina, að á þessu sé þörf, ætlar hún að reyna að knýja hana fram með þessu. — Ef það er svo, að ríkisstj. þori ekki að segja seðladeildinni, að hún eigi að lána Búnaðarbankanum þetta, þá held ég, að Alþingi ætti að gera henni það ljóst.

Þá væri æskilegt að fá að vita það, hvort í hyggju er að lána þetta fé út til bænda með sömu vöxtum og greiðast af erlenda láninu, eða hver það er, sem á að standa undir vaxtabyrðinni. Þetta vildi ég gjarnan fá að vita.

Þá skildist mér á hæstv. ráðh., að stofnlánadeildarsjóðir Búnaðarbankans væru þrotnir að fé. Þetta mun vera rétt, enda hefur ekki verið staðið við allar skuldbindingar um greiðslur til bankans, — en er það þrátt fyrir það óhjákvæmilegt að knýja fram erlenda lántöku vegna þess?

Í því sambandi væri fróðlegt að vita, að hve miklu leyti seðladeild Landsbankans væri tæmd. Og hvað álítur ríkisstj., að séu takmörkin fyrir leyfilegri fjárfestingu? Ég er þeirrar skoðunar, að við séum enn þá langt frá hinum leyfilegu takmörkum. Og ef þetta takmark er eitthvað framar, þá álit ég, að Alþingi eigi kröfu á að vita, við hvaða hámark er miðað. Því að það er þetta hámark, sem skammtar atvinnu í landinu. Það má ekki vera eitthvert óákveðið mark, sem miðað er við, þegar út í það er farið að skammta mönnum atvinnu í landinu og ákveða, hvað sé hæfileg fjárfesting. Og ég álít, að sá samdráttur, sem orðið hefur í atvinnulífinu, sé að verða okkur hættulegur.

Í sambandi við það, sem stendur í grg. frv., að allt bankakerfið í heild sé í endurskoðun, vil ég benda á það, að síðast þegar þau mál voru endurskoðuð, var sett heil endurskoðunarnefnd, og þá fékk Alþingi yfirleitt að fylgjast með því, sem gerðist. Nú kemur það fram í dularfullri grg. fyrir undarlegu frv., að bankakerfið í heild sé í endurskoðun. Nú vil ég leyfa mér að spyrja: Hver hefur haft þessa endurskoðun á hendi, og í hvaða átt á hún að ganga? Hefur ríkisstj. ekki þótt það viðurkvæmilegt að gefa upplýsingar um, í hvaða átt breytingarnar skuli ganga og hvaða afleiðingar þær geti haft í för með sér á fjárhagskerfi þjóðarinnar?

Mér virðist eðlilegt að fá að vita, í hvaða átt endurskoðun á starfsemi bankanna gengi. — Að síðustu vil ég segja þetta viðvíkjandi þeim hluta lánsins, sem á að ganga til iðnaðarins. Það er ekki í fyrsta sinn á Alþingi, að frv., sem borin eru fram af meiri hl. nefnda og hafa fylgi meiri hluta þings, séu stöðvuð. Frv. um iðnaðarbankann og frv. um afnám skömmtunar á byggingarvörum til smærri íbúða voru stöðvuð af hæstv. ríkisstjórn og svo eiga menn að sætta sig við þennan hluta lánsins til iðnaðarins.

Ég vil endurtaka það: Eiga þessar 3 millj. að fara til iðnaðarins hér og þá til kaupa á vélum erlendis frá, eða ef svo er ekki, þarf þá að taka lán í erlendum gjaldeyri? Er þá ekki hægt að taka lánið hér innan lands hjá seðladeild Landsbankans? Treystir þá ríkisstj. sér ekki til að fá lán hjá seðladeild Landsbankans nema að veifa framan í hann erlendum gjaldeyri? Ég vil vona, að svona illa sé ekki komið hjá okkur, þó að vont sé að þurfa að auka innlend lán. Ég vænti, að hæstv. fjmrh. geti gefið mér upplýsingar um þessi atriði, og mun ég greiða atkv. með frv. til 2. umr. og n. og sjá síðan til, hvaða afstöðu ég álít affarasælasta fyrir land og þjóð.