15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 5. þm. Reykv. Honum fannst skorta upplýsingar um lánsfjárþörf landbúnaðarins. Það hafa nú þegar verið sendar til fjvn. upplýsingar um þetta mál, og það er ekki nema sjálfsagt, að menn fái sem mestar upplýsingar um það í einstökum atriðum, og vil ég stuðla að því. Ég hygg, að það upplýsi ástandið nokkuð, að ef ekki er hægt að útvega nýtt lán til Búnaðarbankans, þá verður ekki hjá því komizt að minnka lán stofnlánadeilda hans frá því, sem var á árinu 1950. Ég hygg, að þetta gefi svo glögga mynd af ástandinu, að það ætti ekki að vera þörf að skýra þetta nánar. Það mundi þýða samdrátt í þessum framkvæmdum, ef ekki væri hægt að afla þessara lána. Hvað slíkt mundi þýða fyrir afkomu þjóðarinnar, er óþarfi að taka fram. — Það er sjálfsagt, að allar þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru, komi til fjhn.

Fjárhæð sú, sem hér er ætluð til iðnaðarlána, er miðuð við það, að ríkið búi sig undir að veita aukin lán til iðnaðarins og að ríkið leggi þar fram nokkurn hluta á móti, og verði því safnað innanlands. Ef til vill hefði mátt safna þessu öllu innanlands á löngum tíma, en úr því að farið var á annað borð að taka lán, þá taldi ríkisstj rétt að taka það einnig til þessa atvinnuvegar, og vildi með því sýna, að hún hefur engan hug á því að gera hinum ýmsu stéttum þjóðfélagsins misjafnlega hátt undir höfði.