15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Emil Jónason:

Herra forseti. Ég get verið mjög fáorður, vegna þess að bæði hefur flokksbróðir minn, hv. 3. landsk. þm., og hv. 8. landsk. þm. tekið fram mikið af því, sem ég annars mundi hafa séð ástæðu til að svara hæstv. fjmrh. En ég kvaddi mér hljóðs, þegar hann fór nokkrum orðum um mínar aths. við frv., þegar það var síðast til umr. Sérstaklega kvaddi ég mér hljóðs til þess að mótmæla þeirri aðalfullyrðingu eða eiginlega eina svari hæstv. ráðh. til mín, að þessar aths. væru bornar fram af mér vegna þess að ég væri landbúnaðinum fjandsamlegur. En það er síður en svo sé, að mínar aths. hafi átt á nokkurn hátt rót sína að rekja til þess háttar hugleiðinga. Því að ég hef bent bæði einum og öðrum á það, að ég hika ekki við að fylgja málum þessa atvinnuvegar, þegar hann þarf á að halda, þegar till. um stuðning við hann eru bornar fram með sanngirni og rökum. — Þessi mótmæli vildi ég færa fram gegn ræðu hæstv. fjmrh.

Hins vegar voru í mínum aths. þrjú atriði, sem ég gerði sérstaklega að umtalsefni og hæstv. ráðh. skaut sér að mestu hjá að minnast á í sinni ræðu. Fyrsta atriðið var, að ég teldi þessa ráðstöfun, að taka erlent lán að upphæð 18 millj. kr. samanlagt, ótiltekið til landbúnaðar og iðnaðar, til ótiltekinna framkvæmda, mjög varhugaverða fjármálapólitík, vegna þess að henni fylgdi of mikil áhætta. Ég gerði greinilegan mun á að taka lán til ákveðinna framkvæmda, sem annaðhvort væru gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi, svo sem togarakaupa, áburðarverksmiðju, raforkuframkvæmda annars vegar og hins vegar til þeirra hluta, sem hér er talað um að taka lán til, sem við vitum ekki, til hvers er, en mun líklega vera til húsbygginga aðallega, og líklega eitthvað til ræktunarframkvæmda. Við vitum, að gjaldeyrisviðskipti okkar á síðustu árum hafa verið þannig, að þau hafa í raun og veru sigið meir og meir á ógæfuhlið, þannig að það hefur orðið halli á gjaldeyrisviðskiptum okkar á undanförnum árum, sem hefur numið tugum millj. og hundruðum millj. kr. á ári. Og þessi halli hefur verið jafnaður á alveg sérstakan hátt nú að undanförnu, með aðstoð Efnahagssamvinnustofnunarinnar. Þess vegna tel ég, og það var aðalatriðið í mínu máli, að það mætti ekki auka á þessar greiðslur okkar í vöxtum og afborgunum til útlanda, nema því aðeins, að stofnað væri með slíkum lánum til þeirra fyrirtækja, sem gætu sjálf staðið undir sér gjaldeyrislega, þannig að lánin gengju til fyrirtækja eins og togaranna, sem gætu árlega aflað miklu meiri gjaldeyris en þarf til þess að standa undir lánunum, sem til þeirra eru fengin, eða hluta — eins og gert hefur verið að undanförnu — eins og hitaveitu Reykjavíkur, sem sparar á hverju ári meiri gjaldeyri í kolum heldur en það, sem þarf að borga af þeim lánum, sem til hennar eru fengin. Sama er að segja um Sogs- og Lagárvirkjunina, sem ákveðið hefur verið að taka erlend lán til. Þessi lán standa þannig undir sér sjálf, að þau spara greiðslur í erlendum gjaldeyri fyrir olíu, sem annars þyrfti til þess að framleiða þessa raforku. En það hefur verið þrjózkazt við að sýna fram á, að þessi lántaka, sem hér er farið fram á að heimila að stofna til, mundi beinlínis verða gjaldeyrissparandi eða auka útflutningsverðmæti okkar. Það hafa að vísu verið látin liggja að því orð, að aukinn landbúnaður gæti orðið til þess, að við gætum flutt út einhverjar vörur, sem hann framleiðir, á erlendan markað. Og það er rétt — innan vissra takmarka. En það hefur ekkert komið fram um það, að einmitt þessi lántaka eigi eða geti verkað á þennan hátt. Hins vegar er ekki heldur við því að búast, ef mikill hluti lántökunnar fer til byggingar íbúðarhúsa í sveitum. En þó að það sé, nauðsynlegt, er það ekki gjaldeyrisskapandi í sjálfu sér, og það er líka nauðsyn á byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum. En það út af fyrir sig að byggja íbúðarhús skapar ekki gjaldeyri. Og í augnablikinu höfum við svo mikinn halla á viðskiptareikningi okkar við útlönd, að það er ekki hyggilegt að gera ráðstafanir, sem vitandi vits verða til þess að auka okkar vaxtabyrði og afborgunarbyrði til útlanda, nema því aðeins, að samtímis verði gerðar ráðstafanir til þess að afla gjaldeyris, sem þarf til þess að inna þessar greiðslur af hendi.

Það hefur verið rætt svo mikið um það fordæmi, sem er talið líka, að þetta gæfi, og þá aðra aðila, sem ættu siðferðislega nákvæmlega jafnmikinn rétt eins og þeir, sem að þessu máli standa, að það væri tekið lán þeirra vegna. Og ég vil undirstrika, að það hefur ekkert komið fram enn, sem hnekkt hafi því.

Ég skal svo ekki fara frekar út í að ræða þetta. Það hefur verið allýtarlega rætt og komið fram greinilega sú skoðun hjá mörgum hv. þm., að þeir telji stefnuna, sem í frv. felst, varhugaverða og um of áhættusama. Og ég vil nota þetta tækifæri enn til þess að undirstrika það. Og hér er um að ræða mjög greinilega stefnubreyt. hjá hæstv. ríkisstjórn, þó að hæstv. fjmrh. hafi ekki viljað viðurkenna það. Aðallánið og stærsta lánið, og í raun og veru einu lánin, sem við skuldum við útlönd nú, eru vegna togarakaupa í Englandi og Marshalllánin, sem tekin hafa verið síðan Efnahagssamvinnustofnunin tók til starfa og eingöngu hafa farið til framleiðslutækja og gjaldeyrissparandi hluta. En það er alveg nýtt prinsip, sem tekið hefur verið upp á þessu þingi, þar sem stofnað er til lántöku þeirrar, sem hér er farið fram á, og þegar stofnað var til lántöku fyrir fjórðungssjúkrahús á Norðurlandi, sem er sett í flokk með þessari lántöku og ég tel nákvæmlega jafnvafasama, — það er hér um að ræða stefnubreyt. hjá hæstv. ríkisstj., sem ég tel svo hæpna og varasama, að ég vil ekki láta hjá líða að vara við henni.