15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér mikið inn í umr. um einstök atriði þessa frv., sem hér hafa farið fram. Þær lántökur, sem um er að ræða í 2. gr. frv., eru miðaðar við þrenns konar framkvæmdir, þ.e. til greiðslu á kostnaði vegna togarakaupa, stærsti hlutinn, 25 millj. kr., og 15 millj. kr. til lána handa Búnaðarbanka Íslands til þess að mæta nauðsynlegri þróun í sveitum landsins í ræktun og húsabyggingum, og loks 3 millj. kr. til iðnaðarmála, sem munu, eftir því sem fram kemur í grg., vera settar í samband við frv., sem hér liggur fyrir um stofnun sérstaks banka fyrir iðnaðinn.

Það er sérstaklega einn liður í þessari lántöku, sem hér er talað um, sem valdið hefur allmiklum umr. — eða a.m.k. hafa verið langmestar umr. um. Og að því leyti sem gagnrýni hefur komið fram við einstaka liði þessa frv., — heildarstefnan hefur líka verið gagnrýnd —, þá hefur sú gagnrýni beinzt að lántökunni til landbúnaðarins. Það var einmitt þetta, sem gaf mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð. Því mér finnst, að þessar umr. gefi fullkomlega tilefni til alvarlegrar íhugunar þess, að mönnum sést alvarlega yfir eða þeir hafa ekki gert sér grein fyrir, hvert stefnir í atvinnuþróuninni hjá okkur Íslendingum nú: íslendingar hafa frá öndverðu byggt tilveru sína á tveimur aðalatvinnuvegum, landbúnaði og sjávarútvegi, landbúnaði að langmestu leyti lengi vel fyrst um sinn, en á sjávarútvegi að mjög verulegu leyti nú um langt skeið upp á síðkastið En þessir atvinnuvegir, sem hafa verið máttarstólpar undir atvinnulífi íslenzku þjóðarinnar, hafa verið reknir lengst af sem rányrkjuatvinnuvegir. Landbúnaðurinn var lengi rekinn sem hrein rányrkja hér á landi. Sjávarútvegurinn er enn í dag rekinn sem hrein rányrkja, og sú rányrkja er ekki rekin af Íslendingum einum, heldur líka fjölda útlendinga, sem sækja á hin íslenzku mið, alveg upp í landsteina hér hjá okkur. Því að við erum ákaflega varnarlausir gegn þessari hóflausu og gegndarlausu ásækni útlendinga á miðin hér með hóflausri rányrkju, með þeirri litlu og gagnslitlu landhelgi, sem er hér við strendur landsins. Og stefnir þessi rányrkja nú til hreinnar auðnar í ýmsum mikilvægustu sjóþorpum þessa lands. Því að þannig er komið, t.d. að taka á Vestfjörðum, þar sem voru lengst af um margar aldir einhver aflasælustu fiskimiðin við strendur þessa lands, þegar frá er tekinn Faxaflói og miðin við Vestmannaeyjar, — það er nú komið svo á þessum miðum þarna vestra, að bátaflotinn, sem þar stundar veiðar, hann er hættur að afla. Þar er ekki afli til á þeim miðum, sem hægt væri að stunda veiðar á með þessum bátum. Og það sækir alveg í sama horfið annars staðar við strendur þessa lands, þó að rányrkjan sé ekki búin að eyðileggja þar jafnmikið enn sem komið er, þar sem búið er að gereyðileggja að heita má aðrar fiskislóðir hér við land. Þannig stendur nú þetta. Og við, sem sitjum hér á Alþ., — og allir menn hér í þessu landi, — vitum, hverjar afleiðingar eru af því, að svona er komið fyrir bátaflotanum. A.m.k. helmingur af tíma þeim, sem varið er til setu á Alþ., og af þeim störfum, sem innt eru af hendi hér á Alþ., gengur til þess að gera tilraunir til að ráða fram úr því geigvænlega vandamáli, sem stafar af rányrkjunni, sem framin er á miðunum við strendur landsins.

Í sveitunum aftur á móti hefur orðið gerbreyt. á síðustu árum í þessum efnum. í staðinn fyrir rányrkju þar hefur verið tekin upp ræktun og það í stórum stíl, enda hefur þetta gerbreytt allri aðstöðu í sveitum þessa lands. Og þó að það sé ekki um langan tíma, ekki nema örlítið brot af sögu þessa lands, sem unnið hefur verið að ræktun á Íslandi, þá er reynslan, sem fengizt hefur af þeirri ræktun, það mikilvæg og þýðingarmikil fyrir þjóðina, að hún spáir vissulega góðu og hefur borgið því, að í sveitum landsins er þó starfað enn þá af fullum krafti af því fólki, sem þar býr. Þess vegna, þegar litið er á þetta hvort tveggja, viðhorfið um afkomuna til sveita og sjávar, þá undrar það mig svo, að ég get ekki orða bundizt, þegar það ákvæði í þessu frv. er sjáanlega þyrnir í augum manna, að gert er ráð fyrir að taka 15 millj. kr. lán til þess að sinna lánaþörfinni, sem því er samfara að auka ræktun og byggingar sem skilyrði fyrir öruggri og góðri lífsafkomu í sveitum þessa lands — samtímis því, sem grundvöllurinn er að hrynja undan afkomu manna við sjávarsíðuna, eins og sakir standa nú. Þess vegna undrar mig það alveg stórlega, að þessi liður í lántökunni skuli valda slíkum umr. eins og hér hafa orðið um hann, og að gagnrýnin hefur alveg sérstaklega beinzt gegn því, að þarna eigi að fara að taka 15 millj. kr. lán til þess að mæta þörfum manna, sem vilja helga krafta sína því starfi að rækta og byggja upp sveitir þessa lands.

En hvaða ályktanir ber okkur að draga af því ástandi, sem nú er við sjávarsíðuna? Mér skilst, að það liggi alveg opið og ljóst fyrir, að ályktunin verði þessi: Svo framarlega að ekki sé hægt að koma við stórmiklu meiri vörnum en nú er gegn rányrkju á sjónum, þannig að hægt sé að helga til eigin afnota fyrir Íslendinga miklu stærri fiskveiðisvæði við strendur þessa lands og útiloka alla rányrkju þar af hálfu erlendra manna, þá verði þess blátt áfram ekki langt að bíða, að þeir erfiðleikar, sem nú eru upp risnir úti um allar byggðir við sjávarsíðuna og hafa gripið svo um sig, að Alþ. hefur orðið að gera ráðstafanir gegn þeim, þeir hljóti að vaxa hröðum skrefum. Og hvað er það þá, sem Íslendingar hafa að flýja til, þegar svo er komið um annan elzta aðalatvinnuveg landsmanna? Ætli það sé ekki landbúnaðurinn? Hvert eigum við að flýja? Þá væri tvennt fyrir hendi fyrir Íslendinga, annaðhvort að fara upp í sveitina og rækta landið og byggja þar upp nýtt og fjörugt atvinnulíf í sveitum landsins — og það sýnir sú reynsla, sem við höfum af ræktun, að það er vel hægt að gera, — eða þá að lúta að því, sem einu sinni var hlutskipti Íslendinga, þegar engin ræktun var komin hér og engin viðleitni sýnd í því efni, að flýja í aðrar heimsálfur. Íslendingar eiga ekki nema þessi tvenn úrræði, ef sjórinn bregzt, annaðhvort að rækta landið og fá lífvænlega atvinnu fyrir Íslendinga í sambandi við ræktunina eða þá að gefast upp. En það er vitanlega fullkomin uppgjöf að flýja land sökum úrræðaleysis. Við höfum reynt að bæta úr versnandi ástandi við sjávarsíðuna með því að fá okkur öflugri tæki, sem eru togaraflotinn. Það er alveg rétt. En með því aukum við auðvitað að sama skapi rányrkjuna. Því að það er vitað, að togararnir eru langstærstu og stórvirkustu rányrkjutækin á sjónum, sem nú er beitt.

Nei, framtíð Íslendinga liggur til landsins — alveg áreiðanlega. Og það er líka hollt og gott. Og þó að ekki fari eins illa við sjávarsíðuna og ég hef nú brugðið upp mynd af, — og við skulum vona, að við getum komið þar einhverjum vörnum við, t.d. með því að helga okkur stærri veiðisvæði við strendur landsins heldur en við nú höfum ráð á, — þá er það eigi að síður eitthvert mesta öryggi, sem Íslendingar geta veitt sér vegna framtíðarinnar, að rækta landið og efla aðstöðuna til atvinnu í sveitum landsins. Og það er ekki nokkur vafi á því, að þó að svo hafi verið nú um skeið, sem stafar af sérstökum ástæðum, að Íslendingar hafa ekki verið stórtækari með þátttöku sveitanna í að leggja til útflutningsframleiðslu, þá liggja til þess ýmsar ástæður, að svo hefur verið. Hér hafa geisað yfir landið fjárpestir, sem lagt hafa í auðn sauðfjárbúskap á stórum svæðum hér á landi, og við erum að reyna að vinna bug á þessum fjárpestum og reisa við okkar gamla atvinnuveg, sauðfjárframleiðsluna. Og við skulum vona, að það takist. Því að þegar við getum sameinað þau gæði þessa lands, sem henta sauðfjárframleiðslunni, með því að geta tekið í ræktun nóg land til vetrarfóðurs sauðfénu og svo notað hin víðlendu og kjarngóðu afréttarlönd þessa lands til sumarbeitarinnar, þá er kominn grundvöllur ekki aðeins til þess að framleiða með sauðfjárbúskapnum matföng handa þjóðinni sjálfri, heldur líka til þess að skapa með þeirri atvinnugrein mikla útflutningsframleiðslu til þess að kaupa fyrir erlendar nauðsynjar handa þjóðinni. Þetta skulu menn fullkomlega gera sér ljóst.

Nú er svo komið, að ekki nema einn þriðji hluti þjóðarinnar lifir í sveitum landsins, en tveir þriðju hlutar hennar búa í kaupstöðum og kauptúnum, og þar af er einn þriðji hluti allra landsmanna kominn saman hér í Reykjavík einni. Ég álít ekki, að við séum komnir á tryggt afkomustig fjárhagslega, fyrr en það er tryggt, að a.m.k. helmingur þjóðarinnar á fast aðsetur í sveitum þessa lands. Það eru þar líka skilyrði til þess fyrir hendi, með aukinni ræktun og hagnýtingu fossaafls þess og jarðhita, sem við eigum hér og við kunnum enn ekki að meta, hvers virði er. Og ég er ekki í vafa um, að það er hægt að skapa fleiri mönnum en helmingi þjóðarinnar, sem nú er að fólksfjölda til, afkomuskilyrði í sveitum landsins. — Þess vegna stakk það mig dálítið, þegar hv. þm. Hafnf. hér í sinni ræðu vildi ekki gera neinn mun á því, hvort fé væri lagt í húsbyggingar uppi í sveit eða í kaupstöðum landsins, eins og nú horfir við. — Hvað skyldu vera margir hér í Reykjavík, sem vinna að sjávarútvegi? Iðnaðurinn er ung og mikilsverð atvinnugrein. En enn hefur sá atvinnuvegur ekki lagt til neitt sem heitir af útflutningsvörum. Það getur vel rekið að því, að svo gæti orðið. En enn sem komið er er það ekki. Með húsabyggingum í sveitum er tryggð framleiðsla, ekki aðeins framleiðsla til eigin nota í landinu. heldur líka framleiðsla útflutningsvara. Hvert einasta hús, sem reist er í sveit, er byggt á ræktun og framleiðslu bænda til eigin nota í landinu og til útflutnings, en í kaupstöðum er ekki hægt að segja þetta í sama mæli, nema að því leyti sem snertir afnot þeirra húsa, sem beinlínis eru runnin af sjávarútvegsframleiðslu, og ég veit, að það er ákaflega mikið vandamál, sem við eigum við að stríða, þegar verður að því snúið og byrjað að gefa því gaum, að framtíð Íslands er í sveitum landsins. — Þá er það ákaflega mikið, sem búið er að binda víðs vegar, fyrst og fremst í Reykjavík, af fé í húsbyggingum yfir fólk, sem ekki tekur nema að litlu leyti þátt í þessum undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Ég er ekki að líta smáum augum á störf þessara manna og viðurkenni allt, sem vel er unnið, en það byggist á því, að við getum haldið uppi okkar framleiðslu til sjávar og sveita, því að þar fáum við hitann úr. Ég lít svo á, að með því viðhorfi, sem nú er, sé ekki verkefni fyrir fleira fólk, hvorki í Reykjavík né í kaupstöðum annars staðar, og það, sem verra er, ekki einu sinni fyrir það fólk, sem nú er til, því að við heyrum daglega, að nú ber mjög mikið á atvinnuleysi, svoleiðis að fólkið fær ekki vinnu til þess að framfleyta sér og sínum. Það fólk, sem setur sig niður uppi í sveitum, sinnir sínum störfum þar og ber það úr býtum, sem því tekst að framleiða úr skauti náttúrunnar eftir þeim leiðum, sem nú er unnið að í sveitum landsins með ræktun og hagnýtingu ýmissa hjálparmeðala, svo sem rafmagns og jarðhita, og svo náttúrlega með því að tileinka sér þá erlendu tækni, sem fyrir hendi er, eftir því sem við verður komið. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, því að mér fannst vera gefið tilefni til þess í umr., að á þessu væri vakin athygli, svoleiðis að við verðum nú, bæði hver einstaklingur með sínu starfi og sinni ráðdeild og það opinbera, sem hefur tekið allmikið af fjárráðum þjóðarinnar í sínar hendur, að fara að beita fjármagninu miklu meira en nú er gert til þess að tryggja fólkinu afkomu í sveitum landsins. Við náttúrlega sláum ekki slöku við að hagnýta gæði sjávarins, eftir því sem hægt er, en ef við rennum augunum yfir þá erfiðleika, sem þar blasa við, þá gefa þeir okkur bendingu um, að við verðum að grípa til annarra ráðstafana til þess að tryggja afkomu okkar og öryggi í framtíðinni, — það er fólkið og gróðurmáttur íslenzkrar moldar.