16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég hélt nú í upphafi ræðu hv. 3. landsk., að hann væri að komast í höfn, en í seinni hlutanum verð ég að játa það, að mér fannst hann heldur hafa róið aftur á bak en áfram, og mun hann þess vegna vera staddur á líkum stað og í upphafi ræðu sinnar, þ.e. úti á reginhafi. — Hann sagði, að nú fyrst væri að koma fram skýring á því, til hvers ætti að nota þetta lánsfé. Það er nú út af fyrir sig gott, að hv. þm. er kominn í skilning um það. En það var þegar tekið fram í grg. frv., að þetta fé ætti að nota til þess að lána það stofnlánadeildum Búnaðarbankans. Og það er vitað, að ef þetta fé verður ekki útvegað, verður að draga stórkostlega úr búnaðarframkvæmdum á næstunni, svo að allir þeir, sem vit hafa á þessum málum og nokkurn skilning, hljóta að viðurkenna þessa þörf bankans á auknu fé til stofnlána. Með þessu láni er ekki verið að fara út í neinar auknar framkvæmdir, einungis verið að halda í horfinu. Þetta er einungis gert til þess, að ekki þurfi að fella niður fjárveitingar til landbúnaðarins. Það er tvímælalaust þetta sjónarmið, að ekki þurfi að draga enn saman fjárveitingar til landbúnaðarins, sem ræður í þessari lántöku. — Hitt er svo misskilningur hjá hv. þm., að með þessu sé verið að ryðja burtu öðrum framkvæmdum. Það er vitað, að hinar þrjár stórframkvæmdir ríkisins, Sogs- og Laxárvirkjunin og áburðarverksmiðjan, verða látnar ganga fyrir öllu öðru. Þessi lánveiting er ekki annað en ein af tilraunum ríkisstj. til þess að halda í horfinu um atvinnulíf og framkvæmdir.