26.02.1951
Neðri deild: 75. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hér við 1. umr. þessa máls, þá voru ýmsir á því — og jafnvel flestir — að engan veginn væri gott fyrir þjóðina að þurfa að taka útlend lán. Þó væri það sök sér, ef um væri að ræða að kaupa fyrir slíkt lán framleiðslutæki eða að verja því til arðbærra fyrirtækja, ekki sízt ef þau framleiddu gjaldeyri. Ég lét enn fremur þá skoðun í ljós þá, að ef sérstaklega stæði á, þá gæti líka orðið rétt fyrir okkur og jafnvel óhjákvæmilegt að taka lán til íbúðarhúsabygginga, ef afstýra þyrfti neyð í landinu. Nú er svo komið, eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið við umr. um þetta mál við 1. umr. og sömuleiðis a. n. l. við umr. um till. um frelsi Íslendinga til að byggja íbúðarhús að það virðist í raun og veru lítið annað eftir skilið fyrir okkur, ef við eigum að fá að vinna að því af sæmilegum krafti að bæta úr húsnæðisþörf og atvinnuleysi, en að ráðast í erlendar lántökur. Það er hart, að svo skuli vera komið. En ég vil strax taka það fram, að ég fæ ekki séð, að það sé komið svo vegna þess, að Íslendingar gætu ekki leyst þessi mál án lántöku. Til þess að geta byggt þurfum við tvennt, vinnuafl og útlent efni. Og ég vil taka það fram, að ég álít mögulegt að útvega nægilegt útlent byggingarefni, svo framarlega sem við fengjum sjálfir að vera í friði með að hagnýta okkar framleiðslutæki, sem gjaldeyri skapa, flytja út og kaupa inn slíkar nauðsynjavörur í staðinn. Ég álít, að það, að við getum það ekki, sé af því í fyrsta lagi, hvernig framleiðslugeta okkar er lömuð vegna einokunar í landinu, þannig að við fáum ekki að hagnýta þau miklu framleiðslutæki og þá miklu markaði og hækkandi verðlag, sem hefur verið á okkar afurðum. Og í öðru lagi er nægilegt vinnuafl innanlands til þess að vinna að þessu, og meira að segja svo, að meiri hluti vinnuaflsins fæst ekki nýttur. Meiri hluti byggingarverkamanna gengur nú atvinnulaus. Og það er auðsjáanlega svo, að það er ekki látíð í okkar valdi, hvort við fáum að hagnýta þetta vinnuafl. Það liggur fyrir meira að segja á Alþ., að yfirlýsing hefur komið frá fjárhagsráði til allshn. Sþ., þar sem fjárhagsráð upplýsir, að það sé skilyrði fyrir því að fá að nota mótvirðissjóð til Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjubyggingar, að haldið sé ákveðnu og að því er virðist alllágu hámarki á fjárfestingarstarfsemi í landinu. Og þar sem fjárfestingarstarfsemin frá sjónarmiði þeirra manna, sem þessu ráða nú, er talin of há, — þó hún sé það síður en svo frá mínu sjónarmiði —, þá virðist það eiga að koma niður á húsabyggingum, sem landsmenn í raun og veru ekki geta að mínu áliti komizt hjá að framkvæma, að landsmenn séu að leggja í það að framkvæma viðbótarvirkjanir við Sogið og Laxá og byggingu áburðarverksmiðju nú sem stendur. Það er auðséð af upplýsingum, sem komu fram í þessari hv. d. frá hv. 3. landsk. þm., sem hefur færi á að geta eitthvað meira vitað um, hvað fjárhagsráð hugsar sér í þessum efnum heldur en aðrir, að það mun ekki vera hugsað að byggja meira en 300 íbúðir á þessu ári. Þegar vitað er, að Reykjavík ein saman þarf á að halda 500 til 600 íbúðum til viðbótar á þessum tíma, ef halda ætti í sæmilegu horfi, þá má ljóst vera, að þetta er allt of lítið. Þessi ákvörðun virðist vera tekin af fjárhagsráði út frá samningum, sem það ráð hefur gert við erlend stjórnarvöld. Og út frá þessum tilraunum til samninga og skilyrðum, sem erlend stjórnarvöld hafa sett, eigum við svo að sætta okkur við að geta ekki bætt úr atvinnuskorti og húsnæðisskorti hjá okkur. — Það hafði komið fram yfirlýsing frá hæstv. landbrh. hér í þinginu fyrir nokkru um það, að þessi fjárfestingaráætlun hefði verið afhent ríkisstj. og væri í henni gert ráð fyrir fjárfestingu, sem næmi 520 millj. kr. Fjhn. þessarar hv. d. hefur farið fram á að fá að sjá þessa fjárfestingaráætlun, en hefur ekki fengið það. Því var þá borið við, að þetta væru þannig frumdrög, að ekki væri hægt að sýna það. En þegar hæstv. landbrh. talaði um þessa áætlun hér í þinginu, var það að heyra, að þetta væri ekki aðeins frumdrög, heldur áætlun um ákveðnar upphæðir og samtals vissa ákveðna upphæð. Og hv. þm. virðast vita, hve margar íbúðabyggingar þarna eigi að vera í áætluninni, en það virðist ekki mega liggja skýlaust fyrir hæstv. Alþ. Og þó eru ákvæði um það í lögum um fjárhagsráð, að áður en fjárlög séu samin, og það þýðir áður en þau séu afgr. frá fjvn., skuli fjárhagsráð hafa skilað fjárfestingaráætluninni. — Það er sem sé svo komið, að við fáum ekki leyfi til þess fyrir okkar eigin yfirvöldum að hagnýta til fulls það vinnuafl og þá möguleika, sem við hefðum hér innanlands til að framkvæma húsbyggingar, sem bráðnauðsynlegar verða að teljast, vegna þessara skilyrða, sem þarna virðast hafa verið sett. Og þá er ekki annað eftir skilið til þess að mæta þessari þörf heldur en ef mögulegt er fyrir okkur að fá lán utanlands, sem losuðu okkur við að þurfa að hlíta þeim skilyrðum, sem þessi mál snerta, sem ég hef talað um. Ég beindi því til hæstv. landbrh., kannske í sambandi við frv. um byggingarfrelsi, hvort það mætti þá vinna fyrir erlendar lántökur. að byggingum, án þess að taka tillit til þessarar fjárfestingaráætlunar fjárhagsráðs, því að þar væri ekki að tala um aukna fjárfestingu, nema fyrir aukið fjármagn og lánsfjárveltu, — og svaraði hæstv. ráðh. því játandi, þó að það sé undarfeg hagfræði. En fyrst það er eini möguleikinn fyrir okkur til þess að fá að byggja, þá er ekki um annað að ræða en að reyna að nota sér þann möguleika. Ég hef þess vegna farið hér inn á þá leið í sambandi við þetta frv. að leggja til, að lánið sé hækkað, þ.e. að bætt sé hér við lánsheimild fyrir ríkisstj., heimild til að taka 12 millj. kr. lán, til þess að þeirri viðbót verði varið til þess að lána þeim byggingarsjóðum verkamanna, sem hið opinbera veitir lán, byggingarsjóði verkamanna, byggingarsamvinnufélögum og sveitarfélögum þeim, er byggja til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Ég býst við, að hv. þm. séu sammála um, að það sé full nauðsyn á þessu, og þá sé aðeins spurningin um það, hvort menn álíti rétt að leggja út í að taka erlent lán til þessara framkvæmda. Ég hef leitt rök frá mínu sjónarmiði að því, hvernig ég álit það óhjákvæmilegt, því miður, eins og stjórnarfari er háttað nú, ef á að byggja nokkuð, sem heitir, í viðbót við það, sem fjárhagsráð hefur hugsað sér að leyfa. Hins vegar vil ég taka fram, að ég álit heppilegast, að verkamannabústaða- og byggingarsamvinnufélög, sem kynnu nú að geta tekið þetta upp, haldi áfram að framkvæma l. um heilsuspillandi íbúðir og fengju þetta fé að sjálfsögðu til umráða í erlendum gjaldeyri til kaupa á sínu byggingarefni. Og ég álit bezt að setja það beinlínis inn í l. Að vísu þarf þá að bæta við ýmsum frekari ákvæðum, því þetta mundi veita þessum byggingarfélögum sérstakan rétt, sem þau hafa ekki sem stendur nema að mjög litlu leyti. Þau eiga mjög mikið undir högg að sækja að fá gjaldeyrisleyfi beint hjá fjárhagsráði fyrir sínum innflutningi. En ég álít bezt, að þau fengju það beint. Enn fremur vil ég taka það fram, að langheppilegast muni vera, að þessar 12 millj. kr. yrðu eingöngu notaðar til innkaupa á byggingarefni. Þá er að vísu eftir að sjá fyrir allmiklu lánsfé öðru, sem ég hef ekki gert þarna ráð fyrir, til að greiða vinnuafl og annan innlendan kostnað. Ástæðan til þess, að ég bar ekki fram við þessa umr. till. um það, er sú, að ég álít, að svo framarlega sem þetta fengist samþ. við 2. umr., mundi allmikill möguleiki á að semja um viðbót viðvíkjandi innlenda fjármagninu. Það er sem sé enginn vafi, að ef Alþ. léti sinn vilja í ljós um það, að taka skuli erlent lán til kaupa á byggingarefni, yrði ákaflega erfitt að standa á móti því, að sá hluti fjármagnsins fengist, sem þyrfti til að borga t.d. vinnuaflið og slíkt. Ég efast ekki um, að sá þrýstingur, sem skapaðist við slíka samþykkt Alþ., mundi verða nægilega sterkur til þess, að Landsbankinn fyrst og fremst yrði að láta undan hvað snertir innlent fjármagn. Ég held þess vegna, að ef þm. gætu fallizt á þessa till. nú, ætti að verða auðvelt að komast að samkomulagi til að knýja betur á viðvíkjandi innlendu fjármagni undir 3. umræðu.

Hvað snertir sanngirni í þessari till. þá vil ég aðeins benda á, eins og raunar hefur áður komið fram, bæði nú hjá hv. þm. V-Ísf. og kom líka fram við 1. umr., að ekki er nema eðlilegt, þegar farið er fram á allmikið lán til byggingar í sveitum, að nokkuð sé hugsað líka viðvíkjandi bæjunum. Ekki sízt þar sem stjórnarflokkarnir hafa með afnámi húsaleigulaganna gert ráðstafanir til þess að setja fólk út á gaddinn í stórum stíl, þannig að það ætti að vera engum skyldara en þeim, sem láta þau lög bitna á almenningi, að samþ. þær kröfur, sem fram hafa komið um aukna byggingu íbúðarhúsa í bæjum og kaupstöðum.

Ég sé, að hv. þm. V-Ísf. hefur lagt fram till., sem líka fer fram á að auka lánsheimild, sem verður því að nokkru leyti til hins sama, og er það vel farið. Og ég býst við, að sá háttur mundi verða hafður á við þessar till., að mín yrði að öllum líkindum borin upp á undan, af því að þar felst hærri upphæð, þó að till. séu að nokkru leyti sín hvors eðlis. Og ég mun auðvitað verða með till. á þskj. 724 að minni frágenginni. Ég vil taka fram, að í samþ. á lánveitingu felst, eins og ég geri grein fyrir í nál., síður en svo „prinsipielt“ samþykki á upphæð nefndra lána. Ég hef áður gert grein fyrir því, að með því stjórnarfari, sem við höfum við að búa í landinu, álít ég ekki, að hægt sé annað en að verða við þessu með þeim breyt., sem hér er lagt til að gera. Og ég vil vonast til þess, að Framsfl. muni eftir., hverju hann lofaði við síðustu kosningar um byggingar í Reykjavík. Ég vona sem sagt, að stjórnarfl. sjái sér fært að samþ. þessa aukningu, sem kemur fram í tveimur mismunandi formum frá stjórnarandstöðunni.