03.03.1951
Efri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans og leyfi mér að vænta þess, að álit komi frá hv. fjhn. áður en afgreiðslu þessa máls er lokið að fullu. En þar sem Alþfl. á engan mann í n., vil ég leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. að upplýsa eftirfarandi:

Er það rétt skilið hjá mér, að lánið, sem tekið er vegna togarakaupanna í Bretlandi, flytjist yfir á væntanlega kaupendur með þeim kjörum, sem ríkisstj. gengur að, þannig að vaxtabyrðin og gengisáhættan leggist þeim á herðar? — Enn fremur vil ég spyrja, hvort hið sama gildi þá einnig um þau lán, sem Búnaðarbankinn fær og ganga eiga til ræktunar og bygginga í sveitum. Þau lán, sem bankinn veitir almennt, eru annars yfirleitt til 42 ára og með vægari vöxtum, og það segir sig sjálft, að gengisáhættan t.d. af þessum nýju lánum getur hlaupið á stórum upphæðum. — Þetta vildi ég leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. að upplýsa áður en málið fer til n.