05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er víst almennur sannleikur, að æskilegast sé að geta tekið af sjálfs sín efnum, en þurfa ekki að leita eftir láni. En hitt er engu síður sannleikur, að æskilegt sé að taka lán, þegar ekki er hægt að taka hjá sjálfum sér og eignirnar hrökkva ekki til.

Hæstv. ríkisstj. hefur með þessu frv. farið fram á heimild til að mega taka lán, ef henni þykir rétt, og sýnt er nú, að hjá því verði ekki komizt. Lán þetta á að vera til þess að hjálpa þrem aðalatvinnuvegum landsmanna, sjávarútveginum, landbúnaðinum og iðnaðinum.

Hv. fjhn. — eða 4 menn af 5, sem á fundi voru, — voru sammála um það, að þessi lántaka væri nauðsynleg. Um 5. manninn, sem ekki mætti á fundi, veit ég ekki. — Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta lengri framsögu. Í grg. fyrir frv. eru lagðar fram ástæðurnar fyrir þessu frv. og rök þau, sem hv. ríkisstj. færir fram fyrir heimildaróskunum, en eins og ég sagði áðan, þá leggja 4 af 5 fjhn.-mönnum til, að frv. verði samþ.