05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Haraldur Guðmundason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh, sagði, að það væri mesti misskilningur, að ríkissjóður bæri nokkra áhættu, t.d. af gengishækkun sterlingspunds, í sambandi við lántöku handa Búnaðarbanka Íslands. Það væru stofnlánadeildir Búnaðarbankans, sem tækju þetta lán, og ef tap yrði á því, þá gengi það út yfir bændurna. Hv. þm. Barð. hefur svarað þessu svo, að þar þarf engu við að bæta. Það tjón, sem kynni að verða af gengishækkun sterlingspundsins, gengi yfir landsmenn alla. Ég hygg, að vaxtamunurinn einn, sem bankinn ætlar að greiða, sé ekki minni en 375– 400 þús. kr. á ári. Lán fæst aldrei með minni vöxtum en 5%, kannske 51/2%, en stofnlánadeildin tekur 21/2% í vexti, svo vaxtamunurinn verður ekki minni en 21/2-3%, og 3% af 15 millj. kr. skilst mér vera 450 þús. kr., svo til þess að halda þessari stefnu, verður að ganga á eignir ríkissjóðs í bankanum sem þessu nemur. Misskilningurinn er hæstv. ráðh. megin en ekki mín megin í þessu efni.

Það þarf ekki mörg orð til þess að sýna fram á blekkingar hæstv. ráðh. í sambandi við brtt. mína og hv. 1. landsk. Ég held það þurfi ekki mörg orð til þess að sýna, að hér er ekki verið að blanda saman óskyldum málum. Það, sem um er að ræða, er lán til byggingar í sveitum og lán til byggingar í kaupstöðum, og að telja það óskyld mál er vitanlega alveg fjarstæða, eins og hv. 1. landsk. tók greinilega fram. Það er vitanlega alveg rétt, að það er ekki nóg að hafa íbúðarhús, alveg eins og það er ekki nóg að hafa lúkar eða káetu í skipum, en það er heldur ekki nóg að hafa verksmiðjur eða frystihús, það þarf líka íbúðarhús, og það er alveg furðulegt af hæstv. ráðh. að bera fram önnur eins rök og þetta.

Hinu verður ekki heldur neitað, að þörfin er alveg eins brýn, jafnvel brýnni í sumum kaupstöðum landsins heldur en í sveitum, og er ég þó ekki að draga í efa þörf sveitanna, en það er fjarstæða að halda því fram, að hér sé um óskyld mál að ræða.

Hæstv. ráðh. lauk máli sínu með því, að hann teldi það ekki viðeigandi að fara út í frekari lántökur. Ég held, að það yrði ekki torsótt að fá frekara lán, og ég furða mig mjög á þessari röksemd hæstv. ráðh.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði í sambandi við iðnlánasjóðinn, þá vil ég taka það fram, að enda þótt tekið væri 3 millj. króna lán erlendis til iðnlánasjóðsins, þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að Alþingi veiti á móti þeirri upphæð á fjárlögum, svo ég er sammála hv. þm. Barð. að því leyti, en ef stofnaður verður iðnaðarbanki, verður að tryggja það betur, að ríkissjóður eigi meiri hluta í bankanum.