05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það ber ekki að skilja svo niðurlag 2. gr., að ríkissjóður eigi að leggja á móti þessum 3 millj. Ef það sýndi sig, að ekki kæmi framlag á móti til iðnlánasjóðs, þá yrði að taka málið upp að nýju og athuga, hvernig þessu yrði heppilegast fyrir komið. Þetta var ekki svona í frv. upprunalega, en var breytt í hv. Nd., og þá varð það ofan á að hafa annaðhvort iðnlánasjóð eða iðnaðarbanka, en í þessu felst vitanlega engin skuldbinding á framlagi frá ríkissjóði.

Hv. 1. landsk. og hv. 4. þm. Reykv. hneyksluðust mjög á því, sem ég sagði í sambandi við byggingu íbúðarhúsa í sveitum, enda þótt ég skilji ekki almennilega, í hverju hneykslun þeirra er fólgin. Ég sagði aldrei, að hægt væri að komast af án íbúðarhúsa í kaupstöðum, enda finnst mér það alveg óþarft að ætla mér né nokkrum öðrum, að hann sé svo einfaldur að halda slíkri fjarstæðu fram. Hitt sagði ég, að þannig væri ástatt um margar jarðir í sveitum, að þar yrði að reisa íbúðarhús, ef þær ættu ekki að leggjast í auðn. Þó bygging íbúðarhúsa í sveitum og kaupstöðum sé að verulegu leyti hliðstætt, þá er það þó ekki algerlega. Íbúðir í sveitum gegna í raun og veru bæði hlutverki íbúða, sem t. d, sjómenn hafa í skipum og þeir hafa í landi, sameina þetta hvort tveggja í eitt.

Hv. 1. landsk. sagði, að það væri ekki nóg að hafa lagerhús eða verksmiðjuhús í kaupstöðum, það þyrfti líka íbúðarhús. Þessu mótmælir enginn, en þrátt fyrir það eru íbúðarhúsabyggingar í sveitum og kaupstöðum ekki svo algerlega hliðstætt, að það sé sjálfsagt, að menn vilji samþykkja um leið lántöku til húsa í kaupstöðum, en þetta var það, sem hann lagði megináherzlu á og fann engin rök fyrir að vera með öðru, en ekki hinu. Hann athugar ekki, að það er takmarkað, sem hægt er að framkvæma, og takmarkað, sem hægt er að fá af erlendum lánum, og þá verður að meta, hvað á að ganga fyrir. Það er skilningur þeirra, er standa að þessu frv., að þannig sé ástatt í landbúnaðinum, að framkvæmdir þar verði að ganga fyrir öllu öðru, og á því er þetta frv. byggt. Byggingarmálin í kaupstöðunum eru hins vegar mikið vandamál, sem verður að leysa á annan hátt en taka til þess erlent lán. Allra sízt skil ég það sjónarmið, að þeir, sem eru raunverulega á móti því að taka erlent lán, vilji nú auka lántökurnar með því að bæta þessu inn á. — Ég held það sé rétt skilið hjá mér, að tap, sem kynni að verða af þessari lántöku til Búnaðarbankans, muni raunverulega ganga út yfir bændur. Það eru stofnlánadeildir Búnaðarbankans, sem taka þetta lán, og þær skipta eingöngu við landbúnaðinn og enga aðra.