09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

150. mál, fjáraukalög 1948

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað frv. og borið það saman við ríkisreikninginn fyrir árið 1948, og leggur hún til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem bornar eru fram á þskj. 637. — Um þær till. er ekki mikið að segja. Brtt. við 2. gr., a- og b-liður, eru í samræmi við þær brtt., sem bornar voru fram við fjáraukalög fyrir árið 1947. N. telur ekki rétt að taka sem eina stofnun ríkisútvarpið, viðtækjaverzlunina, viðgerðastofuna og viðtækjasmiðjuna og leggur til, að allir liðirnir séu greindir í sundur. Þó er þetta frábrugðið í því, sem var 4947, að hér er tekin upp í einu lagi fjáraukalagaheimild fyrir viðgerðastofuna og viðtækjasmiðjuna, þar sem þessi fyrirtæki höfðu þá verið sameinuð. Um c-lið brtt. við 2. gr. er það að segja, að þar er lagt til, að gjöldin á 10. gr. III., um utanríkismál, verði lækkuð um 1/2 millj. Á fjárl. ársins 1948 eru útgjöldin á þessari gr. 1.886.100,00 kr., en til frádráttar er svo 1/2 millj. sem tekjur frá samninganefnd utanríkisviðskipta, sem ekki þótti óeðlilegt, að kæmi til frádráttar kostnaði við utanríkisþjónustuna. Á ríkisreikningnum er þetta fært inn á ýmsar tekjur. Útgjöld á greininni reynast samkv. ríkisreikningi 2.822.173,21 kr., og mismunur á þeirri upphæð og heimilaðri upphæð í fjárl. er aðeins 936.073,21 kr. Á fjáraukalfrv. er leitað heimildar fyrir 1.436.073,21 kr. — Þá er það brtt. n. við 1. gr. frv., að í stað 101.379.171,09 komi: 101.105.163,41 kr.

Þó fjvn. leggi til, að fjáraukalögin verði að þessu sinni samþ. þannig, þá vill hún enn ítreka það álit sitt, að hún telur formið á lögunum ófullnægjandi. N. telur, að þau beri að leggja þannig upp, að leitað sé samþykkis Alþingis fyrir öllum greiðslum umfram fjárlög. Við umræður fyrir skömmu um fjáraukalögin fyrir 1947 benti ég á, að í þessum efnum þyrfti að breyta til. Með þeim hætti, sem viðgengizt hefur, að leita aðeins heimildar í heild fyrir þeirri upphæð, sem hver fjárlagagrein hefur samtals farið fram úr fjárlögum, er þar með alls ekki leitað heimildar fyrir öllum umframgreiðslum á einstökum liðum, eins og vera ber. Er jafnvel hægt að benda á, að útgjöld, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir á fjárlögum, hafa ekki komið til greina á fjáraukalögum, ef tekizt hefur að spara svo á öðrum liðum sömu fjárlagagr., að jafnvægi hefur haldizt. Fjvn. telur því, að breyta þurfi fyrirkomulaginu þannig, að leitað sé heimildar fyrir hverjum einstökum útgjaldalið, að því leyti sém hann fer fram úr áætlun, og það er ósk hennar, að hæstv. ríkisstj. taki upp það form. Um þetta vildi n. gjarnan heyra skoðun hæstv. ríkisstj. og þá einkum hæstv. fjmrh., og mundi n. láta sér nægja yfirlýsingu af hans hendi um væntanlega breytingu. Fari skoðanir hæstv. ríkisstj: og n. hins vegar ekki saman í þessu efni, þá er sá kostur fyrir hendi hjá n. að ákveða, hvort hún skuli bera fram till. til þál. um þetta eða leita annarra ráða.

Ef litið er á þessi fjáraukal., sem liggja hér fyrir til umræðu, þá ber að sama brunni um þau og fjáraukalög undanfarinna ára, að þar er um furðu háar upphæðir að ræða. Um suma liðina er það að segja, að eðlilegt mætti teljast, að þeir væru ekki jafnfyrirferðarmiklir í þessum l., t.d. ríkisbúin, sem eru fastar stofnanir, sem taka mætti upp á fjárl. með allnákvæma áætlun um tekjur og gjöld. Ýmis önnur útgjöld eru þannig einnig ýmist algerlega föst eða meira og minna viðtekin árleg útgjöld, sem betur færi á, að tekin væru inn á fjárlög. — Þá má líka benda á, að í ýmsum tilfellum er leitað heimildar fyrir upphæðum á öðrum greinum en rétt er, eins og t.d. árlegum útgjöldum vegna fálkaorðunnar, sem nema frá 30–40 þús. kr., og væri eðlilegt að áætla þau svo á fjárl. hverju sinni, í stað þess að færa þau á 19. gr. sem óviss útgjöld. Þá er t.d. einnig svo um bifreiðakostnað stjórnarráðsins, að hann er færður á 19. grein, enda þótt hann eigi í rauninni heima á 10. gr. Sama er að segja um bifreiðakostnað biskups, sem færður hefur verið á 19. gr. II, og enn má nefna til dæmis prófdómaralaun á ríkisreikningnum 1948, sem nema 40–50 þús. kr. og setja ber á viðeigandi liði fjárlaga. Eigi fjárlög að fara sem næst sönnu, þá er ekki heppilegt að hafa þannig á 49. gr. ýmis útgjöld, sem raunar eru föst og ber að áætla sem slík á viðeigandi fjárlagagreinum.

Ef litið er yfir einstakar upphæðir fjáraukalaganna, þá má segja, að sumar þeirra hljóti að vekja athygli, eins og t.d. vaxtagreiðslur ríkisins á 7. gr., sem farið hafa rúmlega eina milljón fram úr áætlun. Þessi útgjöld er vitanlega erfitt að áætla, en verður þó að teljast merkilegt, ef ekki er unnt að komast sönnu nær en þetta. — Þá hafa umframgreiðslur á 11. gr. orðið nálega 41/2 millj., ef allir undirliðir eru taldir. Það hefur verið svo undanfarin ár og er enn, að ef athugaðar eru umframgreiðslur aftur að 20. gr., þá er 19. gr. langsamlega hæst á fjáraukalögunum, og er það ekki óeðlilegt, þar sem þar er um að ræða útgjöld, sem orðið hefur að greiða til margvíslegra dýrtíðarráðstafana, sem erfitt hefur verið að áætla. Á 20. gr. hafa útgjöld farið yfir 62 millj. fram úr áætlun. Voru áætluð á fjárl. nær 27 millj., en urðu í reyndinni rúmar 89 millj. kr.

Þótt þessi fjáraukal. séu, eins og fjáraukal. nokkurra undanfarinna ára, miklu hærri en viðunandi er, þá mega menn þó ekki ætla, að hægt sé að komast hjá meiri eða minni upphæðum á fjáraukalögum eða mögulegt sé að byggja fjárlög þannig upp, að ekki þurfi að grípa til fjáraukalaga. En mér finnst rétt að horfast í augu við þá staðreynd, að undanfarin ár hafa fjáraukalög verið svo há, að það getur hvarflað að manni að spyrja á þessa leið: Til hvers er Alþingi að skipa 9 manna nefnd til að vinna í fleiri mánuði að þessum málum, þegar það sýnir sig, að þessi vinnubrögð eru svo fjarri því að gefa raunhæfar niðurstöður, að á undanförnum árum hefur ríkisstj. jafnvel orðið að greiða allt að 40–50% hærri fjárupphæðir en gert var ráð fyrir í fjárlögum? Og það mætti slá þeirri spurningu fram, og yrði þó litið á hana fremur sem gamanspurningu: Hvers vegna er ekki látið við það sitja, að heimila ríkisstj. á hverju ári svo og svo mikið fé til umráða, sem hún síðan mætti verja eftir hentugleikum og eins og henni bezt líkaði? Upphæðir fjáraukalaganna eru hreint ekki svo lágar, eins og sjá má á því, að 1945 urðu þau nálega 112,4 millj. kr., 1946 90,4 millj. kr., 1947 126,5 millj. kr. og 1948 101,4 millj. kr. Lengra nær svo ekki vitneskja okkar í þessum málum, því að skilagreinir hæstv. ríkisstj. um þau eru ætið nokkuð síðbúnar, eins og ég hef áður vikið að, og það svo mjög, að það er eins og tala yfir gröfum, er þessi mál eru rædd. Nú er það fjarri mér að segja þetta til áreitni við nokkurn sérstakan mann. Það er auðvitað þýðingarlaust að fara að deila um það, hver eigi stærstan þátt í því, að svo er um þetta mál sem raun ber vitni, heldur tel ég það svo mikið alvörumál, að ekki verði komizt hjá að svara þessum spurningum: Á að gera það að venju eða ekki, að hæstv. ríkisstjórnir virði fjárlög á hverjum tíma að vettugi? A að koma þeirri venju á, að samþykkt fjárlaga sé aðeins gerð fyrir siðasakir, og svo megi hæstv. ríkisstjórnir hafa það eftir sínum hentugleikum, hvernig úr rætist? Ég get skilið, að ríkisstj. á hverjum tíma hafi tilhneigingu til að leggja fyrir Alþingi þannig fjárlagafrv., að það líti sem bezt út á pappírnum. En ég tel, að fyrsta boðorðið sé það, að leggja sem sannast fjárlagafrv. fyrir Alþingi, svo að það hafi skilyrði til að byggja ríkisbúskapinn á þeim grundvelli. Og svo séu þær kröfur gerðar til stj., að hún haldi sér sem allra mest innan þess ramma, sem fjárlögin hafa sett henni. Það á að minnsta kosti ekki að þurfa að koma fyrir, að útgjöld fjárl. fari 40–50% fram úr áætlun. — Þetta eru aðeins þankar mínir um þetta mál, sem ég vildi ekki láta vera ósagða, en það hefur ekki verið ætlun mín að áreita neinn eða álasa í sambandi við það. Auðvitað væri hægt að segja margt fleira um þetta mál, en það, sem hér hefur verið sagt, hygg ég að ekki sé ofmælt.