09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

150. mál, fjáraukalög 1948

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð í sambandi við nál. á þskj. 622. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þótt nefndin leggi til, að frv. til fjáraukalaga fyrir 1948 verði samþ. með þeim breytingum, sem áður er getið, þá telur hún núverandi form fjáraukalaganna ófullnægjandi, þ.e. að leitað sé aðeins fjáraukalagaheimilda fyrir því, sem útgjöld hverrar fjárlagagreinar í heild fara fram úr heimild í fjárlögum. Nefndin telur, að þessu eigi að breyta og að þann hátt beri upp að taka, að leitað sé samþykkis Alþingis fyrir umframgreiðslu á hverjum einstökum útgjaldalið fjárlaganna.“

Hv. frsm. fjvn. lagði einnig mikla áherzlu á þessa breyt. í framsöguræðu sinni hér áðan. Ég vil því lýsa því yfir, að ef það fellur í minn hlut að undirbúa næstu fjáraukalög, þá mun ég taka þetta til greina og reyna að láta ganga þannig frá þeim, að þau verði betur sundurliðuð en þessi, sem hér liggja fyrir. Ég þori þó ekki að lofa því, að sú sundurliðun nái til hvers einstaks liðs, því að það getur verið, að það reynist heppilegra, að hún nái aðeins til hvers aðalliðs, en ekki til undirliðanna. Með aðallið á ég við liði eins og t.d. greiðslur til sjúkrahúsa, að þær hafi numið þessu eða þessu á fjárlagaárinu. Hitt kemur þó líka til athugunar, að sundurliða fjáraukalögin enn meira, en ég þori engu að lofa um það nú, en ég skal láta fara fram nánari athugun á því, hve heppilegt er að ganga langt í þessu efni. En mér sýnist eðlilegt, að sundurliðunin verði meiri en hún er í þessu fjáraukalagafrv.