28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

150. mál, fjáraukalög 1948

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur látið þau orð falla, að það væri ekki viðeigandi að ræða mikið fjáraukalög í sameinuðu þingi. En ég vænti þess, að hann leyfi umr., því að landsreikningurinn fyrir sama ár er til umr. í Ed. og hann hefur talið að þessar umr. og deiluatriði eigi að fara fram undir þeim umr., en forseti Ed. er á gagnstæðri skoðun, því að hann álítur, að umr. um landsreikninginn eigi að fara fram í sameinuðu þingi, og meðan forsetarnir koma sér ekki saman um það atriði, þá vænti ég þess, að hæstv. forseti sameinaðs þings leyfi umr. um þetta mál. Annars skal ég ekki tefja mjög mikið, því að hv. frsm. hefur tekið fram nokkuð af því, sem ég hafði ætlað að segja. Ég stóð upp vegna þeirra ummæla frá hv. þm. Vestm., að aukagreiðslur fjárl. stöfuðu af einræðisstefnu fjvn. og að fjvn. hefði á þessu ári og oftar beitt því einræði við afgreiðslu fjárl. að skera niður af handahófi fjárl. þvert ofan í vilja ráðh., og af því stafi þær umframgreiðslur, sem átt hafi sér stað. Ég veit, að hv. þm. Vestm. mælir þetta ekki af því, að hann telji að þetta sé hið raunverulega, heldur er þetta misskilningur, sem ég vildi leiðrétta. Síðan ég tók við formennsku í fjvn. 1945, þá hef ég m.a. haft samvinnu við hann sem fjmrh., og ég veit ekki til, að á því tímabili öllu, sem hann var fjmrh., hafi komið fram nema 2 atriði, sem deilt var um við hann af fjvn. Annað atriðið var það, að hann sem fjmrh. óskaði eftir því, að gerð væri ein breyt. á till. fjvn., svo að skipti tugum, ef ekki hundruðum þúsunda, þar sem ákveðið er að skera niður um 15% útgjöld til verklegra framkvæmda, og átti að gera þær breyt. á sérhverjum lið. Þetta gat ég ekki fallizt á. En þessi ágreiningur stafaði mest af því, að er þáv. ríkisstj. settist að völdum, sendi hún fjvn. lista um 10 millj. kr. útgjöld. Ég gerði mitt ýtrasta til þess að fá hæstv. þáv. ráðh. til að falla frá þessum kröfum, og ég vil segja hæstv. þáv. fjmrh. það til hróss, að hann lagði mikla vinnu í það að fá samkomulag um þetta atriði. — Ástæðan fyrir þessum auknu útgjöldum er sú, að í tíð hv. þm. Vestm. sem fjmrh. hygg ég, að ekki hafi ríkt það samkomulag í ríkisstj., sem nú ríkir, en ég vil engan veginn saka hv. þm. Vestm. fyrir það, því að þá var ekki til að dreifa þeirri sömu ábyrgðartilfinningu í Framsfl. um afgreiðslu fjárl. eins og nú er, og auðvitað kom „einræðisstefna“ fjvn. ekki til greina í þessu sambandi. — Ég vil benda á, að í fjvn. urðu einmitt hörð átök milli þm. Vestm. og hæstv. núv. fjmrh. um framlag til landhelgisgæzlunnar, og gerði þá nefndin allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að sætta þessa deiluaðila. En ef Framsfl. hefði þá haft sömu ábyrgðartilfinningu í þessum málum og hann hefur nú, þá hefði aldrei komið til þessarar deilu, og mætti taka fleiri slík dæmi.

Annað atriði, þar sem kom til ágreinings milli mín og ríkisstj., var, er þessi fjárlög voru afgr.

Þá lá frv. hér í Sþ. í 8 daga, áður en um það voru greidd atkv. til 3. umr., af því að gerð var sú krafa til mín, að fjvn. tæki aftur 80 till. af 160, sem fjvn. bar fram, og lá allt til grundvallar þessu annað en það að spara útgjöld. Ég játa, að ég setti mig á móti slíkum óskum, og ég hygg nú, að flestir viðurkenni, að það hafi verið rétt. Ég þykist alltaf hafa reynt að komast að samkomulagi í fjvn. við hvern þann fjmrh., sem að völdum situr, og þykir mér rétt að láta það koma hér fram út af ummælum hv. þm. Vestm. Ég man, að deilt var lengi um það, hvort setja ætti í fjárlög 1.000.000 kr. í bindindishallir, norrænuhallir o.s.frv., og fyrir skilning hæstv. þáv. fjmrh. var komizt að samkomulagi um að fella þetta burt úr fjárl. og sett í staðinn fjárhæð til að byggja hafnir í landinu, og býst ég ekki við, að nokkur maður sjái eftir því, að svo var gert. Um þetta urðu mikil átök milli mín og hæstv. þáv. ráðh., en á því átti hann enga sök, heldur var hann þvingaður af ráðandi mönnum í Framsfl.

Ég skal svo ekki ræða þetta nánar, en ég tel, að ástæðan fyrir því, að greiddar voru 40 millj. kr. fram yfir það, sem áætlað var í fjárl. í 1.–19. gr., stafi af því, að þá ríkti ekki það samkomulag og sú ábyrgðartilfinning í ríkisstj. sem nú, og var þetta engan veginn hæstv. þáv. fjmrh. eða Sjálfstfl. að kenna.