06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

150. mál, fjáraukalög 1948

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Öll ummæli hv. 2. þm. N–M. stafa af því, að ég sagði hér um daginn, að sjálfstæðismenn stæðu með meiri ábyrgðartilfinningu utan um hæstv. núv. fjmrh. en framsóknarmenn um hæstv. fyrrv. fjmrh. á sínum tíma. Hv. þm. sagði, að ég hefði myndað meiri hl. í fjvn. með stjórnarandstöðunni. En þá sjaldan, sem það hefur borið við, gerði ég það til þess að standa á móti óábyrgum óskum framsóknarmanna um ósanngjörn útgjöld. — Ég skal svo ekki ræða þetta frekar. En ég vil lýsa því yfir, að mér hefur aldrei þótt Framsfl. sýna óábyrga fjármálastefnu vegna þess eins, að þeir hafi ekki orðið við sanngjörnum kröfum míns kjördæmis, sem Framsfl. níddi niður allan þann tíma, sem sá flokkur fór þar með völd. Það var allt annað sjónarmið, sem kom fram hjá Framsfl. þá við samningu fjárlaga. En þeir hafa ef til vill talið, að það væri óþarft að koma fram af ábyrgðarsemi, þegar Sjálfstfl. væri við stjórn.