06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

150. mál, fjáraukalög 1948

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í þær deilur, sem hér hafa átt sér stað milli þeirra hv. 2. þm. N-M. og hv. þm. Barð., jafnvel þó að hann lýsi því yfir, að hann hafi orðið að hafa samvinnu við sósíalista til þess að fá ábyrgan meiri hl. í fjvn. fyrir afgreiðslu fjárlaga. — En það var nú ekki þetta, sem ég ætlaði að ræða, heldur hitt, að hv. þm. Barð., formaður fjvn., er kunnur að því að víkja ýmsu að þeim þm., sem eiga sæti með honum í fjvn., og það oft af miður góðviljuðum huga. Þetta kom nú fyrir við 2. umr. þessa máls, og furða ég mig ekkert á því, þó að hv. 2. þm. N–M. tæki því ekki öllu þegjandi og tel, að hann hafi haft fulla heimild til að svara þeim sökum, sem á hann og aðra voru þar bornar, en hinu furða ég mig meira á að hæstv. forseti skuli nú takmarka ræðutíma við 5 mínútur, þegar aðeins hefur verið rætt um þetta mál í ð mínútur; ég fyrir mitt leyti efast stórlega um, að forseti hafi nokkra heimild til slíks.