17.10.1950
Efri deild: 4. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

6. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, brást norðurlandssíldin enn þá einu sinni í sumar. Þegar kom fram í ágústmánuð, þótti sýnt, að menn gætu ekki haldið áfram veiðitilraunum, ef ekkert væri aðhafzt til stuðnings, og mundu menn þurfa að fá einhver lán, t.d. til að greiða aðkallandi kauptryggingu, ef það ætti að vera hægt að halda áfram. Að hinu leytinu var svo aflatryggingasjóður, sem ætlað er það hlutverk að bæta upp síldveiðiflotanum, þegar illa fer, en sá sjóður hefur hins vegar ekki handbært fé og enda ekki séð þá endanlega, hvernig fara mundi um vertíðina, og því ekki ljóst, hvort það yrði endanlega fullkominn aflabrestur yfir sumarið. Var þá það ráð tekið, að ríkissjóður tók eða ábyrgðist nokkur lán, sem útgerðarmönnum voru veitt í Landsbankanum og Útvegsbankanum, og jafnframt sett bráðabirgðaákvæði um það, að þessi lán yrðu síðar endurgreidd úr hlutatryggingasjóði. Síðan voru sett önnur brbl., sem breyttu l. um aflatryggingasjóð eins og nauðsynlegt var, og hafa þau verið lögð fyrir hina deild þingsins, Nd.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fyrir þessu lengri framsögu, en óska, að málinu verði vísað til fjhn. að lokinni þessari umr. Hitt málið fer að sjálfsögðu til sjútvn., þegar það kemur til hv.d., en þetta frv. fjallar eingöngu um ábyrgð ríkissjóðs.