26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

6. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er 6. mál þessarar hv. d. og er um staðfestingu á brbl., sem gefin voru út á s.l. sumri vegna aflabrests á síldveiðunum, svo að tryggt væri, að flotinn gæti haldið áfram til vertíðarloka. Frv. var útbýtt hér 11. okt. s.l. og vísað til 2. umr. og fjhn. 17. okt., en hefur síðan legið hjá n., eða til 24. þ. m., að nál. er gefið út. Mér þykir hlýða að skýra í fáum orðum, hvernig á drætti þessum stendur, sem orðinn er á afgreiðslu þessa frv.

Hinn 11. okt. s.l. var einnig útbýtt hér frv. um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, en þar var líka um að ræða staðfestingu á brbl., sem gefin voru út 19. ágúst s.l., og efni frv. var það að heimila ríkisstj. að skerða stofnfé sjóðsins, að fengnu samþykki ráðh. Þetta frv. hefur síðan legíð fyrir hv. Nd. og verið mikill ágreiningur um það, hvort leyft skyldi að skerða hlutatryggingasjóð, án þess að honum yrði aflað tekna í staðinn. Hefur verið lögð fram í Nd. brtt. á þskj. 445, þar sem lagt er til að afla sjóðnum tekna á móti. Fjhn. þessarar d. vildi ekki afgreiða það frv., sem hér er á dagskrá, fyrr en séð væri, hvaða afgreiðslu umrætt frv. fengi í hv. Nd. Eftir þeirri afgreiðslu varð að taka afstöðu til þessa máls, og því hefur n. ekki skilað því frá sér fyrr en nú. En það er nú ljóst orðið, hvernig Nd. mun afgreiða þingmál nr. 2., það hefur verið sent til hv. sjútvn. Nd., og býst hún við, að það fái afgreiðslu óbreytt. Það er því í fullu samræmi við þá afgreiðslu, að fjhn. þessarar d. leggur til, að þetta mál verði samþ. óbreytt.

Lögin um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins frá 1948 voru sett til þess að verja bátaútveginn áföllum, sem alltaf geta átt sér stað, og þegar rætt var um setningu þessara l., urðu sterk átök um það, hvort síðasta málsgr. 10. gr. skyldi samþykkt, en hún fjallaði um, að aldrei mætti skerða stofnfé sjóðsins. Þeir, sem bjuggu þau lög til, lögðu til, að stofnféð mætti skerða að vissu lágmarki. Alþingi var hins vegar yfirleitt mótfallið því. Og það var hugsað þannig, að með því væru sjóðnum tryggðir vextir af stofnfé, og gæti hann þannig eflzt svo, að vextir hans yrðu drjúgar árlegar tekjur. Þetta var meginhugsun þeirra, sem ekki vildu skerða stofnfé sjóðsins. Ég skal ekki fara út í, hvort það hefur verið rétt eða rangt að gefa út þessi brbl. um að taka nú meginhlutann af stofnfé sjóðsins; það er umliðið og þeirri ráðstöfun verður ekki breytt. Hitt er augljóst, að það er jafnnauðsynlegt nú og setning brbl. var í sumar að gera tilraun í þá átt að fá þetta fé aftur í sjóðinn. Mér er sagt, að hæstv. sjútvmrh. hafi sagt við umr. um málið, að hann treysti sér ekki til að leggja þær byrðar á þjóðina að afla þessa fjár með öðru móti en að skerða sjóðinn. En því er samt treyst, að hæstv. ríkisstj. athugi, hvernig sjóðurinn geti fengið þetta endurgreitt, og það er í trausti þess, sem n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Hún telur nauðsyn, að þessi sjóður sé sem sterkastur og að það beri að tryggja á einn eða annan hátt, að þessa fjár sé aflað.

Á þessum forsendum legg ég til fyrir hönd n., að frv. þetta sé samþykkt óbreytt.