05.03.1951
Neðri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

6. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Frv., sem hér er tekið til meðferðar, er staðfesting á brbl., sem hæstv. ríkisstj. taldi nauðsynlegt að fá gefin út á s.l. sumri vegna aflabrests síldveiðiskipanna er þá voru að veiðum fyrir Norðurlandi. Varð ekki komizt hjá því að veita stórum hluta síldveiðiskipanna fjárhagslega aðstoð til að greiða með hlutatryggingar skipverja og vistir og til að fyrirbyggja það, að skipin hættu veiðum á miðri síldarvertíð.

Það hefur því miður tekizt erfiðlega til með starfsemi síldveiðadeildar hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins á fyrsta starfsári hennar, þar sem hæstv. ríkisstj. sá sig knúða til að fá gefin út brbl. á s.l. sumri um heimild til að skerða stofnfé síldveiðideildarinnar, með þeim afleiðingum, að búið er að eyða öllu stofnfénu, 21/2 millj. kr., og tekjum deildarinnar 1950, 1/2 millj. kr., eða samtals um 3 millj: kr. Þó að þessu fé, 3 millj. kr., hafi verið varið af fé hlutatryggingasjóðs til þeirra útgerðarmanna, sem urðu fyrir stórkostlegum taprekstri vegna síldveiðanna í sumar, þá næði þessi upphæð aðeins til að greiða skipaeigendum 30% af taprekstrinum.

Það má hæstv. ríkisstj. og alþm. vera ljóst, að ekki verður hjá því komizt að afla deildinni tekna. Þess vegna fluttum við hv. þm. Borgf. og ég brtt. á þskj. 445 um auknar tekjur fyrir hlutatryggingasjóðinn, þar sem við m.a. gerðum ráð fyrir að hækka útflutningsgjald af síldarafurðum um 100%, eða úr 1/2% í 1%. Einnig gerðum við till. um, að hlutatryggingasjóðurinn fengi 10% af öllum innfluttum vörum. Því miður fengum við ekki þessar brtt. samþ. hér í d. Óhjákvæmilega hlýtur það að verða eitt af fyrstu verkum haustþingsins að leysa þetta stóra vandamál útvegsins á viðunandi hátt.

Þessi tvö frv. eru svo nátengd hvort öðru að ég hef leyft mér að fara inn á þetta frv. á þskj. 2, sem er búið að fá afgreiðslu þessarar d., en því miður á þann hátt, sem kom fram, að þær brtt., sem við, hv. þm. Borgf. og ég, lögðum fram til þess að reyna að afla sjóðnum aukinna tekna, voru felldar, þannig að þeir útvegsmenn, sem hugsa sér að gera út á síldveiðar næsta sumar, hafa ekkert við að styðjast.

Frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 6, leggur sjútvn. til einróma að verði samþ.