05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

115. mál, sala lögveða

Frsm. (Rannveig Þorsteinadóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er lagt fram af hæstv. ríkisstj. og fjallar um sölu lögveða án undangengins lögtaks. Frv. er lagt fram í sparnaðarskyni, bæði fyrir ríkið og þá, sem lögtakið er gert hjá. N. átti tal við tollstjórann í Reykjavík og borgarfógetann í Reykjavík um mál þetta, og lýstu þeir því yfir, að þetta mundi sérstaklega eiga við, þegar um væri að ræða að taka bifreiðar lögtaki, bæði þegar bílar þeir, sem lögveðið hvíldi á, fyndust ekki, og eins þegar eigandinn fyndist ekki, og er því hugmyndin að fella niður „process“ þann, er lögtak nefnist, og láta í þess stað koma fyrirkomulag sem um getur í 1. gr., þannig að auglýst verði, að uppboð verði látið fara fram, ef skuldin verður ekki greidd innan ákveðins tíma, og skráðum eiganda eignarinnar tilkynnt það í ábyrgðarbréfi. Í frv. er gert ráð fyrir, að frestur þessi sé 14 dagar, en n. ber fram brtt., þar sem gert er ráð fyrir, að hann sé 30 dagar. Eftir upplýsingum, sem n. hefur aflað sér, fer lögtak stundum fram án þess, að hlutaðeigandi viti af því, og er því mjög kostnaðarsamt, ef lengi þarf að leita að hlut þeim, sem taka á lögtaki. Þetta fyrirkomulag er því bæði kostnaðarminna fyrir þann, sem lögtakið er tekið hjá, og einnig auðveldara og ódýrara fyrir ríkið. Það er því hlaupið yfir lögtakið, en svo á sínum tíma, ef skuldin er ekki greidd áður, þá fer fram uppboð á veðinu með þeim hætti, sem um væri að ræða nauðungaruppboð. — N. var lengi að átta sig á málinu, en hún stendur einhuga með, að það nái fram að ganga með þeim breyt., sem um getur í nál. Við höfum rætt málið við tollstjóra og borgarfógeta, og taldi borgarfógeti, að of mikið umstang fylgdi þessu, en tollstjóri og dómsmrh. telja, að þetta geti vel gengið svo. — Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta, en n. leggur til, að frv. verði samþ. með breyt. þeim, sem fram koma í áliti nefndarinnar.